Verðmæti trjáa í byggð eru ótvíræð

Það vakti athygli fyrir stuttu, þegar 17 metra hátt lerkitré var fellt í garði við Aðalstræti 19 í Innbænum. Akureyringar hafa lengi státað sig af því að vera gróðursæll bær, þar sem falleg og voldug tré skjóta kolli upp úr húsaþyrpingum bæjarins á mörgum stöðum. Eins og staðan er í dag, er leyfilegt að fella hvaða tré sem er innan Akureyrar, standi það á þinni lóð. Áður fyrr var það þó þannig, að sækja þurfti um leyfi til þess að fella tré sem voru hærri en 8 metrar, eða eldri en 60 ára, og enn er það þannig í Reykjavík.
Páll Jakob Líndal er umhverfissálfræðingur, en blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til hans til þess að forvitnast um áhrif trjágróðurs í byggðu umhverfi, á fólkið sem þar lifir og starfar.
Neðri Brekkan er gullnáma fyrir trjááhugafólk, enda fögur og græn á að líta. T.v. Ljósmynd Skapta Hallgrímssonar af miðbænum og neðri brekkunni. T.h. Skjáskot af á kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga um merk tré á Akureyri, en fyrir miðri mynd liggur Oddeyrargata á ská upp, til upplýsingar. Kortasjáin er fróðleg heimild um merk tré í bæjarlandinu.
„Við viljum taka náttúruna með okkur“
„Jákvæð áhrif af því að hafa tré í bæjarmyndinni, eru til grundvallar þau, að þar er verið að brúa bilið á milli náttúru og bæjar,“ segir Páll. „Manneskjan kemur úr náttúrunni upphaflega og er hönnuð fyrir náttúrlegt umhverfi. Í upphafi borgmenningar og þéttbýlismenningar, höfum við alltaf haft þessa tilhneigingu, til þess að taka náttúruna með okkur. Við viljum hafa tengingar við náttúruna í kring um okkur og það skiptir okkur máli.“
„Fullkomlega manngert umhverfi, hörð og köld hús, mæta ekki þessu eðli okkar nægjanlega vel,“ segir Páll. Það eru til fjöldi rannsókna sem sýna fram á að okkur líkar betur og líður betur í náttúrulegu umhverfi. Það er oft talað um svokallaða sálfræðilega endurheimt, sem í stuttu máli snýst um það að hlaða batteríin í dagsins önn. Heilsufarslega er það gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, að geta kúplað okkur aðeins út áður en við höldum síðan áfram.
Innbærinn býður upp á mörg falleg og voldug tré, svo ekki sé minnst á brekkuna fyrir ofan sem breytist í marglitan og iðandi skóg á haustin. Fyrir miðri mynd, er Síberíulerki nokkurt, fyrir framan Aðalstræti 52, sem var kosið tré ársins árið 1997. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Tré geta stuðlað að sálfræðilegri endurheimt
„Við verðum að geta staðið undir áskorunum daglegs lífs, að andleg heilsa okkar sé sjálfbær,“ segir Páll. „Náttúran hjálpar gríðarlega til við sálfræðilega endurheimt, sem hið byggða umhverfi gerir ekki að jafnaði með jafn árangursríkum hætti. Jafnvel getur það unnið gegn því að við náum endurheimt. Mjög hart og kalt umhverfi getur íþyngt okkur enn meira.“
„Þeir þættir sem eflast við að ná þessari sálfræðilegu endurheimt, eru til dæmis bætt líðan, framleiðni, sköpunargáfa, skapferli, hormónabúskapur blóðþrýstingur, hjartsláttur og ég gæti haldið lengi áfram,“ bætir Páll við.
„Með því að hafa tré og græn svæði inni í byggðu umhverfi erum við að gera þessa endurheimt auðveldari,“ segir Páll. „Þá verður umhverfi okkar betra í heilsufarslegum skilningi. Þetta er það sem vísindin hafa verið að sýna okkur svart á hvítu. Gott byggt umhverfi getur svo sannarlega verið til góðs, en með því að hafa tré og græn svæði með, ertu að gera það enn betra.“
Þegar svona tré er tekið þá á sér stað rof í staðaranda svæðisins
„Stórt tré í götumynd hefur áhrif á upplifun fólks og hefur jákvæð áhrif á aðdráttarafl götunnar,“ segir Páll. Fólk kemur frekar nær og það dvelur lengur. Umhverfið hefur meira upp á að bjóða, það vekur forvitni og aðdáun. Þarna er tækifæri til þess að staldra við og jafnvel fer athygli þín frá því að hugsa um reikninginn sem þú átt eftir að borga í smá stund á meðan þú dáist að þessu tré. Þá tikkar inn sálfræðileg endurheimt, þó það séu ekki nema nokkrar sekúndur. Það skiptir máli.
Stórt tré er kennileiti
„Þegar svona tré er fjarlægt tökum við eftir því, þó að við getum náttúrulega auðvitað vanist því,“ segir Páll. „Og það er eitt í þessu, sem er ekki rætt nógu mikið um, en þegar svona tré er tekið þá á sér stað rof í staðaranda svæðisins. Staðarandinn eru þau einkenni og þeir eiginleikar sem svæðið hefur. Stemning, tilfinning eða merking í huga fólks. Þessi tiltekni staður er sérstakur og einstakur.“
Hátt og glæsilegt tré í götumynd er kennileiti, segir Páll. Kennileiti hafa áhrif á dálæti okkar á umhverfinu og hæfileikann til þess að staðsetja okkur. Svo er annað, að undirmeðvitundin metur á örskotshraða, hvort að okkur líði vel eða illa með það sem við sjáum. Svona tré inn í götumyndinni segir að staðurinn bjóði upp á sálfræðilega endurheimt, og metur því staðinn betur en ef það væri ekki.
Sitkagrenið við Reynivelli er 21 metra hátt og er merkt inn á kortasjá Skógræktarfélags Eyfirðinga um merk tré og var einnig í bæklingnum merk tré á Akureyri sem gefinn var út í tilefni af 75 ára afmæli Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 2005.
Staðarvensl og tilfinningalegar tengingar
„Svo er annað hugtak sem skiptir máli í þessari umræðu, en það eru svokölluð staðarvensl. Það er tilfinningalega tengingin sem við höfum við tiltekið umhverfi. Eins og tengingin sem þú átt við æskuheimilið þitt, eða hverfið sem þú ólst upp í, til dæmis. Yfirleitt er það að ef þú hefur jákvæð tengsl við svona staði, þá getur þessi tenging skipt okkur ofboðslega miklu máli. Hún skilgreinir okkur, hver við erum,“ segir Páll.
Sálfræðileg og félagsleg áhrif umhverfis eru ekki nógu hátt metin
„Ég kem frá þessum bæ og þessu hverfi, og það þýðir eitthvað. Í stærra samhengi, þá er ég frá Íslandi. Ég er Íslendingur. Það hefur þýðingu fyrir mig og hefur eitthvað að segja þegar ég kynni mig sem slíkan,“ segir Páll. „Tökum sem dæmi, að ef æskuheimilið þitt er rifið, þá hefur það erfiðar tilfinningar í för með sér. Þetta er mjög persónubundið, en almennt þurfum við að sýna þessu meiri skilning. Þetta skiptir máli í þessari umræðu, og þarf að taka inn í reikninginn þegar á að fella kennileiti úr hverfum. Það breytir ásýndinni.“
Þó að enn sé það þannig að það þurfi að sækja um leyfi til þess að fella tré í Reykjavík sem eru hærri en 8 metrar eða eldri en 60 ára, þá eru leyfin oftast veitt. „Það sýnir bara ákveðið skilningsleysi,“ segir Páll. „Sálfræðileg og félagsleg áhrif umhverfis eru ekki nógu hátt metin. Við erum alltaf að þróa umhverfið í kring um okkur, en við erum ekki að taka inn í reikninginn þær rannsóknir og þá þekkingu sem hefur verið safnað um þessa þætti.“
Trén eru ekki bara áberandi í götumyndinni á sumrin í fullum laufskrúða, þau vekja athygli sama hvaða árstíð er. Vetrarmynd: Rakel Hinriksdóttir, haustmynd: Skapti Hallgrímsson.
Stór tré eru verðmæti
Tré sem að trónir yfir hverfið hefur verið hluti af staðaranda og staðarvenslum íbúanna um tugir ára, svo við notum hugtökin sem Páll hefur kynnt til leiks. „Svona tré eru ekkert annað en verðmæti. Þú ert þarna með lífveru sem er kannski búin að vaxa á 70-100 árum,“ bendir Páll á. „Þú skellir ekkert bara upp staðgengli fyrir þetta tré einn, tveir og tíu.“
Að breyta útsýni fólks á mikilvægum stað getur haft mikil áhrif, en Páll tekur sem dæmi að þegar Hafnartorg reis í Reykjavík, þá var búið að taka Akrafell og Skarðsheiði af mörgum íbúum. „Fjólubláu draumarnir horfnir úr miðbænum. Allir sem eru eldri en 30 ára tengja við það, að sakna þeirra.“
„Til þess að taka saman að lokum, þá er það mjög vel stutt vísindalega séð, hversu mikilvæg tré eru á byggðum svæðum,“ segir Páll. „Það eru svo ekki bara þessi atriði sem ég er búinn að nefna sem tengjast umhverfissálfræðinni. Trén hafa líka góð áhrif á loftgæði, hljóðvist, fuglalíf og veita skjól fyrir veðri og vindum, svo eitthvað sé nefnt.“
Í pistli blaðamanns sem var birtur í gær á Akureyri.net var stungið upp á því, að lesendur gætu haft samband við Skógræktarfélag Eyfirðinga ef það væru tré í garðinum hjá þeim sem áhugi væri fyrir að kynnast betur og vita meira um. Hafa má samband á: ingi@kjarnaskogur.is.