Fara í efni
Íþróttir

Veigar fékk brons á Íslandsmótinu í golfi

Veigar Heiðarsson úr GA eftir að hann tryggði sér þriðja sæti á Íslandsmótinu í golfi með frábærri spilamennsku í dag. Mynd Guðríður Sveinsdóttir

Íslandsmótinu í golfi á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði lauk nú síðdegis. Veigar Heiðarsson var sá kylfingur úr GA sem hafði látið mest að sér kveða í mótinu og með frábærri spilamennsku á fjórða og síðasta keppnisdegi í dag náði hann að vinna sig upp í verðlaunasæti. Sannarlega magnaður árangur hjá þessum 18 ára kylfingi.

Veigar fékk þrjá fugla og einn skolla á lokahringnum og lék því á tveimur höggum undir pari í dag og endaði á tveimur undir pari samtals. Hann varð í þriðja sæti mótsins ásamt Aroni Snæ Júlíussyni úr GKG en Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR varð Íslandsmeistari. Dagbjartur vann upp forskot Axels Bóassonar úr GK á lokadeginum og lauk leik á fimm höggum undir pari samtals. Axel varð annar á fjórum höggum undir pari, tveimur höggum á undan þeim Veigari og Aroni Snæ.

Af keppendum frá GA í karlaflokki var það Óskar Páll Valsson sem komst gegnum niðurskurðinn í karlaflokki eftir tvo keppnisdaga ásamt Veigari. Óskar Páll lék flott golf í dag, endaði á 73 höggum eða einu höggi yfir pari. Samtals lék hann hringina fjóra á 17 höggum yfir pari og deildi 32. sæti.

Í kvennaflokki komust Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir gegnum niðurskurðinn. Andrea Ýr lék á 81 höggi í dag, líkt og í gær, og endaði í 15. sæti á 32 höggum yfir pari samanlagt. Lilja Maren lék á 85 höggum í dag, samtals á 39 höggum yfir pari í heildina, og deildi 20. sæti. Í kvennaflokki enduðu þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK og Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG efstar og jafnar á 6 höggum yfir pari, eftir miklar sviptingar. Guðrún Brá hafði betur gegn Huldu Clöru, ríkjandi Íslandsmeistara, í þriggja holu umspili og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í fjórða sinn.

Lokastöðuna í mótinu má sjá hér.