Fara í efni
Íþróttir

Ungir iðkendur GA léku golf í sólarhring

Ungmennin hjá Golfklúbbi Akureyrar léku áheitagolf í sólarhring samfleytt, til að safna fyrir æfingaferð og golfmótum sumarsins. Mynd: gagolf.is.

Börn og unglingar hjá Golfklúbbi Akureyrar (GA) léku golf samfleytt í sólarhring, frá föstudegi til laugardags, til að safna í ferðasjóð. Þau náðu að spila samtals 747 holur á þessum 24 klukkustundum.

Fyrsta höggið var slegið kl. 16 á föstudaginn og svo var spilað í golfhermi í inniaðstöðunni á Jaðri til kl. 16 á laugardag. Fyrirfram var stefnt á að spila 400 holur. Það markmið náðist og gott betur, því leiknar voru 747 holur á 41 velli í 5 heimsálfum. 84 fuglar náðust og einn örn að auki.

Um var að ræða áheitasöfnun og allur ágóði rennur í ferða-og keppnissjóð iðkendanna. Ungmennin stefna á æfingaferð til Spánar í byrjun apríl, ásamt þátttöku í hinum ýmsu golfmótum næsta sumar.

Á meðan maraþongolfið stóð yfir bauðst gestum og gangandi að reyna sig við að ná holu í höggi á 18. holu á Jaðarsvelli af 100 metra færi – í golfhermi þó – og voru glæsileg verðlaun í boði. Enginn náði að fara holu í höggi en ekki munaði nema 30cm hjá þeim sem næstur var.

Nánar er sagt frá þessum viðburði í máli og myndum á vef GA.