Veigar enn meðal efstu manna eftir 2 hringi

Annar hringur Íslandsmótsins í golfi á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði var leikinn í dag. Talsverður vindur setti strik í reikninginn og gerði keppendum erfitt fyrir. Keppendunum níu frá GA vegnaði misjafnlega í dag en Veigar Heiðarsson er áfram í toppbaráttunni í karlaflokki, er jafn fleirum í 4. sæti á tveimur höggum undir pari samtals. Eftir þennan hring er keppendafjöldinn skorinn niður um helming.
Í kvennaflokki lék Andrea Ýr Ásmundsdóttir best GA-stúlkna, lauk leik á 79 höggum líkt og í gær. Hún er samtals á 14 höggum yfir pari og komst örugglega gegnum niðurskurðinn. Lilja Maren Jóndóttir lék á 82 höggum og er á 19 höggum yfir pari samtals. Hún slapp gegnum niðurskurðinn en allar sem léku á 20 höggum yfir pari eða betur komust áfram og spila seinni hringina tvo um helgina. Bryndís Eva Ágústsdóttir lék á 84 höggum í dag og hringina tvo á 21 höggi yfir pari samtals og var því aðeins einu höggi frá því að komast áfram. Íslandsmeistarinn frá í fyrra, Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG er með forystuna í kvennaflokki á fjórum höggum undir pari samtals og er með fimm högga forskot.
Veigar og Óskar Páll halda áfram
Veigar náði að leika nokkuð stöðugt golf í dag, þrátt fyrir vindinn, og endaði á einu höggi yfir pari á hringnum. Hann er fimm höggum á eftir heimamanninum Axel Bóassyni, sem leiðir mótið í karlaflokki.
Niðurskurðurinn i karlaflokki miðast við 11 högg yfir pari eða betra samtals eftir fyrstu tvo dagana. Óskar Páll Valsson endaði á 11 höggum yfir pari eftir að hafa leikið á 79 höggum í dag og rétt slapp því gegnum niðurskurðinn. Víðir Steinar Tómasson, sem lék á 79 höggum í dag, missti naumlega af niðurskurðinum. Hann endaði á 12 höggum yfir pari samtals og það gerði Mikael Máni Sigurðsson líka. Hann endaði á 77 höggum í dag og þar var það vesen á 16. holunni sem eyðilagði möguleika hans á að komast áfram gegnum niðurskurðinn.
Þeir Valur Snær Guðmundsson og Tumi Hrafn Kúld komust heldur ekki gegnum niðurskurðinn. Valur Snær lék á 80 höggum og endaði á 14 yfir pari samtals og Tumi endaði á 15 yfir pari. Eftir góðan dag í gær kom slæmur dagur í dag hjá Tuma og hann lék hringinn á 85 höggum.
Þriðji keppnisdagur af fjórum hefst í fyrramálið og sýnt verður beint frá mótinu á RÚV frá kl. 15. Hægt er að fylgjast með skori allra keppenda og gangi mála í mótinu hér.