Fara í efni
Íþróttir

Veigar á sterkasta ungmennamóti heims

Veigar Heiðarsson. Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson

Veigar Heiðarsson, 18 ára afrekskylfingur úr Golfklúbbi Akureyrar, lék á sex höggum yfir pari í dag, á fyrsta degi US Junior Amateur Championship golfmótsins, sem fram fer í Dallas í Texas í Bandaríkjunum. Þetta er sterkasta golfmót heims fyrir 18 ára og yngri, að því er fram kemur á vef Golfsambands Íslands, og Veigar er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur sér þátttökurétt.

Veigar var lengst af í góðum málum en þrír skollar á síðustu þremur holunum settu strik í reikninginn. Skolli er það kallað, þegar kylfingur fer holu á einu höggi yfir pari.

Í frétt á vef Golfklúbbs Akureyrar kemur fram að mikill hiti er í Dallas, yfir 35 gráður, og svoleiðis aðstæður reyna auðvitað mikið á úthaldið. Leikið er samtímis á tveimur golfvöllum í Dallas.

Eftir því sem segir í fréttinni á vef GA fékk Veigar boð um að leika í þessu gríðarsterka móti vegna stöðu sinnar á heimslista kylfinga 18 ára og yngri, þar sem hann er í 85. sæti, en þúsundir ungra kylfinga hafa att kappi í golfmótum sem veita réttindi til þátttöku í mótinu. Margir þeirra sem hafa unnið þetta mót í gegnum tíðina eru núna heimsþekktir kylfingar og má nefna að sjálfur Scottie Scheffler, besti kylfingur heims í dag, bar sigur úr býtum á þessu móti árið 2013. Scheffler sigraði í gær á Opna breska meistaramótinu, The Open.

Skorkort Veigars í dag, á fyrsta keppnisdegi mótsins.

Alls fengu 264 kylfingar 18 ára og yngri þátttökurétt í þessu móti og má þar meðal annars nefna hinn 16 ára gamla Charlie Woods, son hins eina sanna Tiger Woods, en Tiger náði þeim árangri að vinna þetta mót þrjú ár í röð á sínum tíma. 

Eftir tveggja daga höggleik komast 64 efstu kylfingarnir áfram og leika holukeppni og þarf Veigar að halda vel á spöðunum á seinni hringnum til að komast í þann hóp. Margir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á fyrri hring en eins og staðan var þegar Veigar lauk leik var hann þremur höggum frá 64. sætinu.

Fylgjast má með gangi mála í þessu móti hér.