Fara í efni
Umræðan

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Þrjátíu og fimm prósent iðkenda hjá Íþróttafélaginu Þór – hátt í 400 börn og unglingar – koma aldrei á félagssvæði Þórs til æfinga. Iðkendatölur frá Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) fyrir árið 2022 staðfesta þessa sturluðu staðreynd. Ástæðan er einföld: Það er ekkert íþróttahús á félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs! Af þeim sökum eiga iðkendur sex af átta deildum félagsins ekkert erindi á Þórssvæðið. Ótrúlegt en satt!

Hvernig í ósköpunum er svona komið fyrir einu elsta íþróttafélagi landsins (stofnað 1915) og einu allra fjölmennasta íþróttafélagi landsbyggðarinnar þegar meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála er bókstaflega „að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði“ samkvæmt 2. grein íþróttalaga? Svarið liggur í augum uppi: Kolröng forgangsröðun bæjarstjórna Akureyrar sem keyrt hefur um þverbak síðustu ár.

Börn og unglingar eru langfjölmennasti hópurinn innan íþróttahreyfingarinnar hérlendis. Íþróttahreyfingin sem og skólakerfið leggja mikið upp úr félagslegri hlið íþrótta, enda eru íþróttir kjörinn vettvangur til að rækta félagsþroska barna og unglinga. Í skipulegu íþróttastarfi læra iðkendur m.a. að eiga í samskiptum við aðra, hafa rétt við, leggja sig fram, takast á við ó/sigra og tilheyra samfélagi. Íþróttirnar einar skila ekki þessum jákvæða uppeldislega árangri heldur skiptir uppbyggilegt félagslegt umhverfi í kringum íþróttirnar höfuðmáli í þessum efnum.

Hér koma íþróttafélög með sitt skipulega íþróttastarf og umgjörð utan um starfið til sögunnar. Íþróttafélög eru að þessu leyti mikilvægar félagslegar uppeldisstöðvar fyrir góða og gegna samfélagsþegna sem og uppspretta félagslegrar samheldni. Í ljósi þessa er félagssvæðið sjálft ríkur þáttur í umgjörð og því félagslega umhverfi sem íþróttafélag býður félagsmönnum. Jafnframt má geta sér þess til að iðkendur sem eiga ekki erindi á félagssvæði síns félags líði alla jafna síður eins og þeir tilheyri íþróttafélaginu en þeir sem æfa reglulega á félagssvæðinu. Skortur á félagskennd er líklegur til að draga úr æfingasókn og skuldbindingu iðkenda. Hérlendar rannsóknir sýna að skipuleg íþróttaiðkun innan íþróttafélaga hefur meira uppeldisgildi eftir því sem skuldbinding iðkenda er meiri (þ.e.a.s. því oftar sem íþrótt er stunduð og því meiri og sterkari tengsl viðkomandi hafa við íþróttastarfið). Að sama skapi stuðlar skortur á félagskennd að ótímabæru brottfalli iðkenda, sem kemur illa niður á íþróttahreyfingunni, iðkendunum og samfélaginu öllu.

Í ljósi þess hve félagsleg hlið íþrótta er mikilvæg og fjölþætt vegur félagslegi þátturinn langþyngst (75%) hjá stýrihópi um forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá Reykjavíkurborg til ársins 2030. Félagslegi þátturinn byggir aðallega á fjölda daglegra notenda tiltekins mannvirkis (30%) og fjölda notenda í íþróttagrein í hverfi eða markaðssvæði mannvirkis (30%). Meðal annarra félagslegra þátta má nefna áherslu á jafnrétti og tengsl við góðar og vistvænar samgöngur. Ennfremur til að geta tekið faglegar og gagnreyndar ákvarðanir um forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja notaði stýrihópurinn aðferðafræðina „infrastructure prioritization framework“ sem á að tryggja hlutlæga ákvarðanatöku við forgangsröðun fjárfestinga í samfélagslegum innviðum.

Í hrópandi ósamræmi við fagleg og hlutlæg vinnubrögð reykvíska stýrihópsins er staðfest að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri til ársins 2034 tók ekkert tillit til félagslega þáttarins í sinni vinnu. Ekkert! Þá voru fulltrúar ÍBA ekki þátttakendur í vinnu hópsins, en ÍBA á að gæta hagsmuna allra íþróttafélaga innan sinna vébanda. Afrakstur þessara ámælisverðu vinnubragða er að finna í skýrslu téðs starfshóps frá 2019 þar sem m.a. var lagt til að bíða í allt að 10 til 13 ár með að reisa íþróttahús á félagssvæði Þórs. Ýmsir hafa gagnrýnt þessi vinnubrögð og samsvarandi forgangsröðun sem virðist byggja á litlu öðru en óskalistum íþróttafélaganna og huglægu mati þeirra sem komu að vinnunni. Til að bæta gráu ofan á svart virðist sem þetta meingallaða plagg hafi verið fastmótað árið 2019 því það er ekki uppfært reglulega út frá breyttum forsendum.

Þrátt fyrir að aðalstjórn Þórs og fleiri hafi vakið athygli á þessum slælegu vinnubrögðum þráast bæjarstjórnin við og byggir enn stefnumótun sína á téðu plaggi. Nú síðast gerði bæjarstjórn 2,6 milljarða samning um uppbyggingu á félagssvæði KA sem virðist helst nýtast fullorðnum (keppnisgervigrasvöllur, yfirbyggð stúka og félagsaðstaða/búningsklefar/félagsssalir) en mun að sjálfsögðu einnig koma yngri iðkendum til góða og efla félagsandann. Það felst hins vegar engin mótsögn í því að fagna allri íþróttauppbyggingu í bænum og samgleðjast KA mönnum með þessa myndarlegu uppbyggingu á félagssvæði þeirra en gera einnig athugasemdir við forgangsröðun og vinnubrögð bæjarstjórnar í þessum málaflokki.

Að sama skapi má spyrja hvernig í ósköpum það samræmist sameiginlegri íþróttastefnu ÍBA og Akureyrarbæjar að byggja upp 3-4 sterka íþróttakjarna að fresta byggingu íþróttahúss á félagssvæði Þórs von úr viti og láta jafnframt knattspyrnuvelli félagsins drabbast niður? Mikilvægt er að árétta það að iðkendafjöldi Þórs og KA er mjög sambærilegur samkvæmt tölum ÍBA. Ennfremur er mestöll uppbygging íbúðabyggðar á Akureyri til ársins 2030 skipulögð norðan Glerár (um 3.000 íbúa byggð) sem mun skila sér í auknum iðkendafjölda hjá Þór. Hvar er jafnræðið milli stærstu félaganna í bænum? Hér hallar augljóslega á Íþróttafélagið Þór og unga iðkendur íþróttafélaga.

Bygging íþróttahúss á félagssvæði Þórs er skynsamleg framkvæmd. Öll rök hníga að því. Það er leitun að framkvæmd sem fleiri ungir íþróttaiðkendur á Akureyri nytu meira góðs af en bygging íþróttahúss á félagssvæði Þórs. Gera má því skóna að ef fagleg og hlutlæg vinnubrögð í anda reykvíska stýrihópsins hefðu ráðið för hefði íþróttahús á félagssvæði Þórs ratað ofarlega, ef ekki efst, í forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Nýtt íþróttahúss myndi í fyrsta lagi gera Þór mögulegt að sameina allar sínar átta íþróttagreinar á félagssvæðinu, efla félagsanda iðkenda, fjölskyldna þeirra og sjálfboðaliða og þétta raðirnar í félaginu. Jafnframt myndu allar innanhúsgreinar á Akureyri njóta góðs af nýju íþróttahúsi á félagssvæði Þórs. Það myndi losa um alla æfingatíma Þórs í Íþróttahöllinni og þ.a.l. leyfa KA mönnum og öðrum félögum sem stunda innanhúsgreinar á Akureyri að nýta húsið betur. Þá ætti að losna um fjölda tíma í Íþróttahúsi Síðuskóla. Nýtt íþróttahús myndi aukinheldur stytta „vinnudag“ margra ungra iðkenda, en í dag æfa t.d. elstu iðkendur í Þór og KA til kl. 22.00 eða 22.30 á kvöldin nokkrum sinnum í viku. Bygging íþróttahús á Þórssvæðinu er því einnig mikilvægt lýðheilsumál.

Ég skora á bæjarstjórn Akureyrar að brjóta odd af oflæti sínu, vanda betur til verka, gæta hlutlægni og jafnræðis í hvívetna, bera hag ungra íþróttaiðkenda fyrir brjósti og sjá sóma sinn í því að skrifa undir samning um byggingu íþróttahúss á félagssvæði Þórs hið snarasta.

Guðmundur Oddsson er dósent í félagsfræði og Þórsari

Nýtum kosningaréttinn!

Halla Tómsdóttir skrifar
27. maí 2024 | kl. 15:40

Okkur tókst það ógerlega

Ásdís Rán skrifar
27. maí 2024 | kl. 15:30

Náttúrubarnið Katrín Jakobsdóttir

Álfhildur Leifsdóttir, Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir og Sigríður Gísladóttir skrifar
26. maí 2024 | kl. 13:45

Þarf forseti Íslands að vera góð manneskja?

Kjartan Ólafsson skrifar
24. maí 2024 | kl. 16:45

Um orkuöryggi og orkuskipti

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:51

Jákvæð sálfræði

Þóra Hjörleifsdóttir skrifar
23. maí 2024 | kl. 10:00