Fara í efni
Íþróttir

Tveir frá Akri meðal bogfimifólks ársins

Alfreð Birgisson, trissubogamaður ársins hjá Bogfimisambandi Íslands, og Izaar Arnar Þorsteinsson, berbogamaður ársins. Myndir af Archery.is.

Izaar Arnar Þorsteinsson og Alfreð Birgisson, úr Íþróttafélaginu Akri, eru á meðal þeirra sem valdir hafa verið bogfimimenn ársins í einstökum keppnisgreinum bogfiminnar.

Izaar Arnar var valinn berbogamaður ársins af Bogfimisambandi Íslands árið 2023. Hann hefur hreppt þennan titil öll fjögur árin sem þetta val hefur farið fram, 2020-2023. Hann hafði unnið sjö Íslandsmeistaratitla í röð á árunum 2020 til 2023, en sú titlahrina var rofin á þessu ári þar sem hann náði ekki að verja Íslandsmeistaratitilinn innandyra í mars. Hann hefur unnið titilinn utandyra fjögur ár í röð, 2020-2023, og vann titilinn innandyra þrjú ár í röð þar til á þessu ári.

Izaar Arnar vann einnig fyrsta Íslandsmeistaratitil óháðan kyni í berboga utandyra, en formlegum titli í þeirri keppni var bætt við á árinu 2023, meðal annars til að koma til móts við kynsegin íþróttafólk og búa til vettvang þar sem konur og karlar geta att kappi saman formlega.

Til stóð að Izaar Arnar færi á Evrópumótið innandyra í Samsun í Tyrklndi á árinu og var talinn líklegur til að komast í úrslit með karlaliðinu í keppni með berboga. Mótinu var aflýst vegna jarðskjálfta sem kostuðu yfir 50 þúsund manns lífið. Hann verður hins vegar með á EM innandyra sem fram fer í Króatíu á komandi ári.

Alfreð Birgisson var valinn trissubogamaður BFSÍ árið 2023. Þetta er annað árið í röð sem Alfreð hreppir titilinn. Alfreð vann fyrstu formlegu Íslandsbikarmótaröð innandyra á vegum Bogfimisambands Íslands. Bikarmótaröðin er kynlaus og því hörð samkeppni í henni. Þrjú bestu skor keppenda í bikarmótum BFSÍ 2022-23 telja í keppninni og náði alfreð 1.712 stigum.

Valið á bogfimifólki ársins fer fram með hlutlausum tölfræðilegum útreikningi á niðurstöðum keppenda í stórmótum BFSÍ og landsliðsverkefnum BFSÍ. Tímabil móta sem metin eru er 1. janúar til 30. nóvember. Val á íþróttafólki ársins, karli og konu, úr röðum bogfimifólks hefur þegar farið fram með sama hætti og verður tilkynnt innan tíðar.

Tölfræðilegum útreikningi á íþróttamanni og íþróttakonu ársins (óháð keppnisgrein) er einnig lokið en niðurstöður þess verða tilkynntar á næstu dögum.