Fara í efni
Íþróttir

Þrjú mörk á sex mínútum og KA tapaði

Hallgrímur Mar Steingrímsson náði forystu fyrir KA í fyrri hálfleik í Mosfellsbæ með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Þetta var 10. deildarmark Hallgríms í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn héldu suður yfir heiðar í dag og mættu Aftureldingu í Mosfellsbæ í 24. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu. Heimamenn vermdu neðsta sæti deildarinnar fyrir leik og hver leikur í raun úrslitaleikur fyrir þá í baráttunni um að halda sætinu í efstu deild. Leikurinn var lengst af jafn en þrjú mörk Aftureldingar á nokkurra mínútna kafla í seinni hálfleik gerði gæfumuninn og 3:2 sigur Mosfellinga staðreynd.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Ingimar Torbjörnsson Stöle hitti ekki markið úr dauðafæri strax í upphafi leiks. Þetta var þó ekki fyrirboði um það sem koma skyldi, því lítið bar til tíðinda næsta hálftímann. Birnir Snær Ingason átti skot í stöng eftir laglegan einleik, rétt áður en KA fékk aukaspyrnu utan teigs á 37. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði glæsilega, beint úr aukaspyrnunni, og KA var 1:0 yfir í hléi.

Þrjú mörk Aftureldingar á sex mínútum

Fyrri hluta seinni hálfleiks bar fátt til tíðinda en það breyttist síðan skyndilega á 67. mínútu þegar Hrannar Snær Magnússon braust af miklu harðfylgi í gegnum vörn KA vinstra megin og jafnaði með góðu skoti. Tveimur mínútum síðar kom Elmar Kári Enesson Cogic Aftureldingu í forystu þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu. William Tönning í marki KA misreiknaði þar flug boltans illilega og kom engum vörnum við.

Mosfellingar voru ekki hættir og einungis fjórar mínútur liðu þar til þriðja markið var komið. Hrannar Snær Magnússon gerði það, eftir að hafa skeiðað óáreittur upp völlinn að vítateig KA og lagði knöttinn í fjærhornið.

Þótt Ívar Örn Árnason næði að minnka muninn á 86. mínútu náðu heimamenn að standa aðrar sóknarlotur KA af sér og innbyrða gríðarlega mikilvægan sigur. Fyrsti sigur liðsins í þrjá mánuði og lyfti Aftureldingu úr botnsætinu. KA missti ÍBV fram úr sér í baráttunni um efsta sætið í neðri hlutanum en þarf líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af fallbaráttunni.

Næsti leikur KA er á heimavelli gegn Vestra næstkomandi sunnudag kl. 14.

Leikskýrslan

Staðan í neðri hluta deildarinnar