Fara í efni
Íþróttir

Blak: KA-konur komnar í bikarúrslitahelgina

Kvennalið KA í blaki fagnaði sigri gegn Þrótti á Neskaupstað í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Mynd: FB-síða KA.

Kvennalið KA í blaki heimsótti Þrótt austur í Neskaupstað í gærkvöldi í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar, Kjörísbikarnum. Titilvörn ríkjandi bikarmeistara KA byrjaði vel því liðið vann sannfærandi 3:1 sigur og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum keppninnar.

KA vann fyrstu hrinuna nokkuð örugglega, 25:18 en heimastúlkur jöfnuðu leikinn með góðum lokakafla í annarri hrinu, sem endaði 25:19. Þriðja hrinan var í jafnvægi framan af en KA náði síðan undirtökunum og landaði sigri í hrinunni, 25:17. Sigurinn í fjórðu hrinu var aldrei í hættu, hún fór 25:15 og leikurinn því 3:1 fyrir KA.

KA hefur titil að verja í bikarkeppninni og með þessum sigri tryggði liðið sér sæti í bikarúrslitahelginni í mars. Undanúrslitaleikirnir verða leiknir 12. mars og úrslitaleikurinn sjálfur verður 14. mars.