Fara í efni
Íþróttir

Þrír nýir á leiðinni en Áki fer í sumar

Áki Egilsnes, færeyska örvhenta skyttan í liði KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA samdi í gær við þrjá handboltamenn fyrir næsta keppnistímabil, eins og Akureyri.net greindi frá en vert er að geta þess einnig að Áki Egilsnes, örvhenta, færeyska  skyttan sem leikið hefur með félaginu síðustu ár, hverfur á braut eftir þessa leiktíð.

Áki, sem verður 25 ára í sumar, kom til KA sumarið 2017 frá VÍF í Færeyjum. Þetta er því fjórði vetur Áka í herbúðum liðsins og hefur hann verið einn besti sóknarmaður KA.

Einn þremenninganna sem KA samdi við í gær, Einar Rafn Eiðsson, er góð örvhent skytta svo liðið verður ekki á flæðiskeri statt þótt Áki fari utan á ný. Árni Bragi Eyjólfsson getur leikið bæði í horninu og fyrir utan, og Óðinn Þór Ríkharðsson, einn þeirra sem kemur til KA í sumar, er örvhentur hornamaður. Því er ljóst að hægri vængurinn verður afar öflugur hjá KA næsta vetur.

Þriðji leikmaðurinn sem KA samdi við í gær, Arnar Freyr Ársælason, leikur í vinstra horninu. Í þeirri stöðu hafa KA-menn nú Jóhann Geir Sævarsson og Andra Snæ Stefánsson, en gera má ráð fyrir að Andri leggi skóna á hilluna eftir glæsilegan feril, enda þjálfar hann lið KA/Þórs í meistaraflokki kvenna.