Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA og KA heima – Þór fer í Árbæinn

Fótboltinn fer af stað aftur síðar í vikunni eftir örstutt hlé hjá flestum um verslunarmannahelgina. Karlalið KA var reyndar ekki í neinu fríi því liðið lék Evrópuleik á fimmtudag og svo deildarleik á sunnudag. Þór/KA á heimaleik í Bestu deild kvenna á morgun, fimmtudag, og Þór á útileik í Lengjudeild karla á föstudag. KA á svo heimaleik á sunnudag í Bestu deild karla.

FIMMTUDAGUR, FÖSTUDAGUR, LAUGARDAGUR, SUNNUDAGUR, 7.-10. ÁGÚST - golf

Íslandsmótið í golfi, höggleik, fer fram á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði næstu daga. Þar á Golfklúbbur Akureyrar að sjálfsögðu sína fulltrúa. Bein útsending verður frá mótinu á Rúv á föstudag, laugardag og sunnudag.

Nánar um mótið í annarri frétt. 

FIMMTUDAGUR 7. ÁGÚST - fótbolti

Besta deild kvenna í knattspyrnu er að komast í gang aftur eftir EM-hléið, en með bikarhléum þó. Þór/KA leikur núna í vikunni sinn annan leik í deildinni frá 21. júní þegar liðið tekur á móti Val í Boganum á fimmtudag. Fyrri viðureign liðanna lyktaði með sigri Vals á Hlíðarenda, 3-0. 

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 12. umferð
    Boginn kl. 18
    Þór/KA - Valur

Þór/KA er enn sem fyrr í 4. sæti deildarinnar, hefur náð sér í 18 stig í 11 leikjum. Valur er þremur stigum á eftir, en hefur leikið einum leik meira.

FÖSTUDAGUR 8. ÁGÚST - fótbolti

Baráttan um fimm efstu sætin í Lengjudeild karla í knattspyrnu harðnar með hverri umferðinni og í raun aðeins sex lið sem berjast í efri hlutanum, þar sem eitt lið fer beint upp í Bestu deildina og næstu fjögur fara í umspil um hitt lausa sætið sem í boði er. Þórsarar eru sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 27 stig úr 15 leikjum. Fyrir ofan eru ÍR með 32 stig, Njarðvík með 31 og Þróttur með 28, en HK er með 27 stig eins og Þór og svo Keflavík í 6. sætinu með 25 stig. Sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 16. umferð
    Tekk-völlurinn í Árbæ
    Fylkir - Þór

Fylkir sagði þjálfurum sínum nýlega upp störfum og tók Arnar Grétarsson við sem aðalþjálfari meistaraflokks karla. Hann er ekki ókunnugur Akureyri og Boganum. Fylkir hefur verið í botnbaráttunni í sumar, situr núna í 10. sæti með 11 stig, jafnmörg stig og Fjölnir sem er í næstneðsta sætinu á undan Leikni sem vermir botnsætið með tíu stig. Fyrri leik Þórs og Fylkis lauk með 4-1 sigri Þórs.

SUNNUDAGUR 10. ÁGÚST - fótbolti

KA tekur á móti ÍBV í 18. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á sunnudag. ÍBV situr í 7. sæti deildarinnar með 21 stig úr 17 leikjum, en KA er í 10. sæti með 19 stig. Hörð barátta og jöfn er í neðri hluta deildarinnar og staðan fljót að breytast með hverjum sigri. ÍBV er einu stigi frá því að vera í efri hlutanum, en stutt niður í botnsætið einnig.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 18. umferð
    Greifavöllurinn kl. 16:30
    KA - ÍBV

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með markalausu jafntefli í Eyjum. Þjálfari ÍBV, Þorlákur Már Árnason, er ekki ókunnugur Akureyri og Greifavellinum sem fyrrum þjálfari Þórs.