Þór/KA áfram í Bestu deildinni – MYNDIR

Eftir sigur 3:0 Þórs/KA er öruggt að „Stelpurnar okkar“ leika áfram í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, eins og akureyri.net hefur áður greint frá.
Lið FHL austan af fjörðum er þegar fallið úr deildinni, Tindastóll er með 17 stig og getur ekki lengur náð Þór/KA sem er með 24 stig, en í kvöld kemur í ljós hvort von Sauðkrækinga lifi. Fram tekur þá á móti FHL og fari leikar svo að Fram sigri er liðið öruggt með sæti áfram í deildinni en Tindastóll fallinn.
ELLIE ROSE MORENO – 1:0
Ekki voru liðnar nema fimm mínútur af leik Þórs/KA og Tindastóls þegar Ellie Rose Moreno gerði fyrsta markið. Jessica Berlin, markvörður Þórs/KA, spyrnti langt fram völlinn, Ellie Rose fékk boltann og lét vaða á markið yst úr vítateignum. Genevieve Jae Crenshaw markvörður Tindastóls hafði hendur á boltanum en í netið fór hann þó. Þetta var fyrsta mark Ellie Rose fyrir Þór/KA.
_ _ _
SONJA BJÖRG – 2:0
Upp úr miðjum hálfleiknum hresstist Tindastólsliðið til muna og sótti töluvert en þegar leið að lokum hálfleiksins gerðu leikmenn Þórs/KA harða hríð að marki gestanna. Þegar Hulda Björg Hannesdóttir átti þrumuskalla eftir hornspyrnu var bjargað á línu og eftir darraðardans í kjölfar annarrar hornspyrnu fékk Sonja Björg Sigurðardóttir boltann í miðjum vítateignum, lék laglega á einn varnarmann og sendi boltann með lúmsku en hnitmiðuðu skoti í markið; boltinn sleikti stöninga á leið sinni í netið. Einkar laglega gert.
_ _ _
KIMBERLEY DÓRA – 3:0
Þór/KA fékk aukaspyrnu fyrir utan vítateiginn vinstra megin. Henríetta Ágústsdóttir sendi fyrir markið, markvörður Tindastóls missti af boltanum, en Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir var ákveðnust allra í mikilli þvögu sem myndaðist í markteignum og kom boltanum yfir línuna og í markið. Þetta var á 69. mínútu.