Fara í efni
Mannlíf

Þorbjörg Þóroddsdóttir nemi í Danmörku

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

22. desember Þorbjörg Þóroddsdóttir, nemi í Lýðháskóla í Danmörku

María mey, mandarínur og göldróttur snjór

Um daginn sá María, vinkona mín frá Gvatemala, snjó í fyrsta sinn. Við vorum báðar í hópi útlendinga í Jótlenskum lýðháskóla, og á meðan ég hugsaði um slabbið sem við myndum þurfa að trampa í gegnum daginn eftir, þá stoppaði hún þar sem við stóðum og grét. Ég á það til að kvarta yfir snjó og vorkenna sjálfri mér þegar ég hendi mér í snjóbuxur á leiðinni út á morgnanna, en þessa síðustu viku hef ég ekki getað gert það.

Snjórinn, sem er svo einstaklega hversdagslegur fyrir mér, er orðinn göldróttur.

Það er nýtilkomin gleði yfir snjónum, sem að varð vissulega að slabbi og hvarf eftir nokkra daga. Snjórinn, sem er svo einstaklega hversdagslegur fyrir mér, er orðinn göldróttur og það eina sem þurfti til var ein manneskja að upplifa stingandi kuldann í fyrsta sinn. Það er sama tilfinning og að heyra einhvern tala um hvernig þeirra helsti draumur er að sjá norðurljósin, og að byrja að taka meira eftir þeim þegar þú gengur heim á kvöldin.

Það eru tveir hlutir sem þurfa að vera til að það séu í alvörunni að koma jól – snjór og Bókatíðindi á eldhúsborðinu.

Á meðan pabbi brúnar kartöflur á aðfangadag og við veltum því fyrir okkur hversu mörg tröllkallalaufabrauð hafi lifað af, þá læt ég mig dreyma um hvaða bækur skildu liggja undir trénu - sem að hefur naumlega lifað af ítrekaðar árásir kattana sem keppast við að klifra upp á toppinn. Á jóladag sitjum við öll í lúnu leðursófunum í gulu stofunni heima með makkintoss í blárri glerskál og lesum í gegnum stafla af nýjum bókum. Oftar en ekki eru nokkuð mörg eintök af sömu bókinni undir trénu - metið mitt eru sex eintök af Ljóninu eftir Hildi Knútsdóttur.

Eitthvað jólalegt? Eitthvað mannlegt?
Það að vita að allt fólkið hefur baslað við að losa flækjurnar á ljósunum sem hafa legið í geymslu allt árið bara til að fá smá ljós í myrkrið.

Það er líka eitthvað með jólamandarínur. Netklædd viðarbox stútfull af mandarínum sem hverfa á nokkrum dögum, mandarínuhýði hvert sem þú lítur, mandarínulykt sem nær næstum því að yfirtaka kerta-og smákökulyktina. Og jólaljósin sem að eru hengd upp löngu fyrir jól og koma niður löngu eftir jól. Þau lýsa upp skammdegið og gera kuldann svo miklu hlýlegri. Eitthvað jólalegt? Eitthvað mannlegt? Það að vita að allt fólkið hefur baslað við að losa flækjurnar á ljósunum sem hafa legið í geymslu allt árið bara til að fá smá ljós í myrkrið.

María mey með brúðu-Jesú
Þegar ég var í yngstu bekkjum grunnskólans var ég í kirkjukórnum, og eitt árið fékk ég að vera María mey á jólasýningunni. Ég kom sko með dúkkuna sem var jesúbarnið. Það er eitthvað sem ég hugsa um á hverjum jólum. Ég var aðalmálið (þó að söguhetjan hefði kannski frekar átt að vera Jesús...). Ég man enn eftir hversu öfundsjúkar hinar átta ára stelpurnar voru þegar ég gekk fremst í fylkingunni með brúðu í fanginu.