Fara í efni
Íþróttir

Þjálfari KA: „Eigum ágætis möguleika“

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bjarni Aðalsteinsson glaðir í bragði eftir að sá síðarnefndi skoraði fyrsta mark KA í 3:1 sigri á írska liðinu Dundalk í fyrri viðureign liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu sumarið 2023. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrri leikur KA og Silkeborg í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu fer fram í dag í Danmörku og hefst klukkan 17 að íslenskum tíma. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, er tiltölulega bjartsýnn.

„Við eigum ágætis möguleika, þetta er virkilega gott lið sem hefur verið að gera vel undanfarin ár en þeir hafa aðeins verið að ströggla, bæði á undirbúningstímabilinu og töpuðu fyrsta leiknum í deildinni á móti Bröndby, þannig að ef við eigum mjög góðan leik eigum við fínan séns á móti þeim,“ sagði Hallgrímur í viðtali á Facebook síðu KA í morgun

  • Eins og fram kom á Akureyri.net í morgun verður leikurinn sýndur á streymisveitunni Livey – sjá hér.

Spenntir fyrir skemmtilegu verkefni

Hallgrímur Jónasson segir í viðtalinu að ástandið á hópnum sé gott, einn leikmaður hafi meiðst á æfingu í gær en aðrir séu tilbúnir í slaginn. Það var Jakob Snær Árnason sem meiddist.

Þjálfarinn segir undirbúning hafa verið góðan og hópurinn sé spenntur fyrir skemmtilegu verkefni. KA-menn flugu í gærmorgun frá Akureyri til Billund sem er í um það bil hálftíma fjarlægð frá Silkeborg. Liðið æfði síðdegis í gær á Jysk-leikvanginum, heimavelli Silkeborg, sem lagður er mjög góðu gervigrasi að sögn Hallgríms. 

„Við erum mjög spenntir og það er alltaf gaman fyrir strákana að máta sig við önnur lönd,“ sagði Hallgrímur. Hann nefndi að danska deildin væri sterk og reiknaði með að Silkeborg yrði mikið með boltann í leiknum: „Ég gæti trúað að leikmyndin verði svipuð og þegar við mættum KR, þar gerðum við mjög vel og þurfum að vera tilbúnir í það.“

KA tók þátt í Evrópukeppninni fyrir tveimur árum, enn eru margir í liðinu sem tóku þátt í því ævintýri og Hallgrímur sagði aðspurður að sú reynsla myndi án nokkurs vafa koma til góða í dag; KA-liðið sé mjög þroskað og hafi spilað marga stórleiki undanfarin ár. Þegar menn spreyti sig í fyrsta sinn í slíkum leikjum hafi stress áhrif en liðið hafi farið í sex Evrópuleiki, tvo undanúrslitaleiki og tvo úrslitaleiki í bikarkeppni á síðustu árum og sú reynsla geri það að verkum að leikmenn verði rólegri en ella. „Þetta snýst um að það á eftir að við þorum að halda í boltann, þorum að hvíla okkur á meðan svo séum ekki bara í vörn og það mun klárlega hjálpa okkur að erum með reynslumikið lið.“

Fyrrverandi þjálfari Hallgríms

Svo skemmtilega vill til að fyrir áratug lék Hallgrímur undir stjórn Kent Nielsen sem nú þjálfar lið Silkeborg. „Hann þjálfaði mig í OB þegar ég var fyrirliði liðsins, ég var mjög náinn honum, þekki hann mjög vel og veit nákvæmlega hvernig hann vill spila,“ segir Hallgrímur í viðtali við fótbolta.net í dag

„Ég held að við gætum ekki verið betur undirbúnir undir lið erlendis heldur en þá, ég er með mjög góða kontakta hérna í Danmörku til að fá greiningu á þeim og við sjálfir erum búnir að greina þá. Ofan á það þekki ég þjálfarann og hvernig hann vill spila. Við ættum að vera mjög vel undirbúnir,“ segir Hallgrímur í viðtalinu sem lesa má hér.