Fara í efni
Mannlíf

Þar sem teppi, fortíð og náttúra mætast

Tinna á Akureyri. Hún eyddi unglingsárunum fyrir norðan og á einstaklega góðar minningar tengdar vetrinum á Akureyri og bókabúðarrekstri foreldra sinna í Hafnarstræti 100.

Það sem byrjaði sem tilraun til að brjóta upp borgarlífið varð að óvæntu ævintýri og lífstílsbreytingu hjá Guðrúnu Tinnu Thorlacius. Á sumrin rekur hún verslunina Steinholt & Co. á Seyðisfirði en á veturna heldur hún heimili á Seltjarnarnesi þar sem hún sinnir fjölbreyttum verkefnum. Fyrst og fremst reynir hún þó að lifa í flæði í öllu sem hún gerir og vera í góðu samtali við náttúruna.

„Eyjafjörður gaf mér vetrarbirtuna, minningarnar og rótina. Austurland gaf mér nýja sýn og rými til að skapa. Og nú tengist þetta allt og mætist í teppunum, í búðinni og lífinu sjálfu,“ segir Tinna, markþjálfi og verslunareigandi með meiru. Hún var nýlega stödd á Akureyri, í sínum gamla heimabæ, til að koma Norðurteppinu sínu í sölu í Kistu í Hofi, þegar blaðamaður Akureyri.net rakst á hana og fékk í kjölfarið að heyra söguna af því hvernig það kom til að hún endaði í teppaframleiðslu og verslunarrekstri á Seyðisfirði.

Foreldrar Tinnu, Þorsteinn og Guðný, sem ráku bókabúðina Eddu í áratug í miðbæ Akureyrar. Á myndinni sést einnig glitta í Þorleif bróður Tinnu. Myndin er tekin 1986 eða 87.

Langafinn með verslun á Ráðhústorgi

Kannski hefur verslunarrekstur alltaf verið í blóðinu hjá Tinnu, en langafi hennar Þorsteinn Thorlacius rak Bókaverslun Þorsteins Thorlaciusar við Ráðhústorg í byrjun tuttugustu aldar. Þá ráku foreldrar hennar bókabúðina Eddu í áratug í göngugötunni á Akureyri. Áður störfuðu þau bæði hjá Icelandair en tóku u-beygju í lífinu og fluttu norður árið 1986 til að fara út í bókabúðarrekstur með þrjú börn (Jónas f. 1978, Þorleifur f. 1984 og Guðrúnu Tinnu f. 1971). Faðir Tinnu ber sama nafn og langafi hennar og Tinna veltir fyrir sér hvort nafnið og sú verslunarhefð sem tengdist því hafi haft áhrif á val föður hennar varðandi það að fara sjálfur út í bókabúðarrekstur. „Svona tilviljanir eru áhugaverðar en kannski var þetta engin tilviljun, heldur dýpri tenging við ræturnar á Akureyri? segir hún.

Stórfjölskyldan samankomin árið 2019: Þorsteinn og Guðný með börnin sín þrjú, maka þeirra og barnabörn. 

Geggjuð bókajól

Sjálf var Tinna 15 ára gömul þegar fjölskyldan flutti norður. Hún á góðar minningar úr bókabúðinni þar sem hún var oft að hjálpa til, en jólin í bókabúðinni eru henni þó minnisstæðust. „Það var eitthvað svo hátíðlegt og sparilegt að vera í búðinni með pabba á aðfangadag. Þá kom svo mikið af fólki að kaupa síðustu gjafirnar. Svo þegar við lokuðum klukkan svona eitt, hálftvö á aðfangadag þá bárum við út í bíl öll sýniseintökin af bókunum sem höfðu verið til sölu um jólin og fórum með þau heim. Svo voru bara stæður af bókum heima í stofu öll jólin og svo sat maður bara endalaust í sófa og las bara allt. Það var eitthvað svo geggjað.“


Tinna var lengi flugfreyja hjá Atlanta. Myndin er tekið árið 1994 í stoppi í Kairó.  Með Tinnu (lengst til hægri) á myndinni eru Hrund Gunnarsdóttir (lengst til vinstri) og Lena Magnúsdóttir í miðjunni. Lena á líka rætur á Akureyri en mamma hennar er Karitas Sigurðardóttir, dóttir Sigga Gúmm. Stelpurnar bjuggu saman í Jeddah, í Sádí Arabíu á þessum tíma.

Flugfreyjustarf og ferðalög

Eftir útskrift úr Menntaskólanum á Akureyri flutti Tinna suður og ætlaði að fara í háskólanám en útþráin varð námsviljanum yfirsterkari. Hún fór sem au pair til Ítalíu og var þar í eitt og hálft ár og síðan fór hún að vinna sem flugfreyja hjá flugfélaginu Atlanta. Á meðan hún starfaði hjá Atlanta, á árunum 1994 til 2001, lauk hún einnig námi sem þroskaþjálfi. Hjá Atlanta kynntist hún Bretanum Paul Allen, sem var að vinna þar sem flugmaður. Hann er eiginmaður hennar í dag og eiga þau þrjú börn saman. Saman hafa þau ferðast mikið og bjuggu þau fyrst saman í Lúxembúrg, svo eitt ár á Spáni og í Bretlandi í 7 ár en árið 2011 flutti fjölskyldan til Íslands og settist að á Seltjarnarnesi.

Eiginmaður Tinnu starfar enn hjá Atlanta í sveigjanlegri fjarvinnu og kemur og fer eftir verkefnum en Tinna starfar nú sem sjálfstætt starfandi markþjálfi og hómópati en hún lærði náttúrulækningar á Bretlandi. Þá heldur hún námskeið bæði í sjósundi og tarotlestri á veturna (sjá natturulega.is). Á sumrin er fjölskyldan hins vegar á Seyðisfirði þar sem Tinna rekur lífstílsverslunina Steinholt & Co. „Það sem mér finnst best er að búa til líf sem flæðir. Ég ákveð ekkert of mikið en ég hlusta og geri það sem kallar,“ segir hún.

Tinna í versluninni Steinholt & Co. á Seyðisfirði. 

Ræturnar sóttu hana

Sumardvölin á Seyðisfirði er orðin fastur punktur í tilveru fjölskyldunnar en sú hugmynd kom úr svolítið óvæntri átt, eða það fannst Tinnu í það minnsta til að byrja með, eða þar til hún áttaði sig á því að kannski var það rödd fortíðar og gömul tengsl sem hreinlega kölluðu hana austur.

„Afi minn er ættaður frá Bustarfelli í Vopnafirði svo hann var Austfirðingur. En svo komst ég að því í fyrra að langafi minn og langamma bjuggu á Seyðisfirði í 20 ár og afi fæddist hér. Þetta vissi ég ekki þegar ég kom þangað fyrst. Þannig að núna er ég farin að segja að ræturnar mínar kölluðu mig austur, í stað þess að segja að ég hafi slysast austur, segir Tinna og bætir við að þegar hún fari austur þá sé tilfinningin sú að hún sé að ferðast frá rótum til róta. „Ég er heima fyrir austan en ég er líka alltaf heima fyrir norðan.

Tinna í flugfreyjubúningi Icelandair árið 2019. Þegar covid skall á stóð til að hún myndi vera að fljúgja en heimsfaraldurinn breytti sumarplönunum. Í stað flugfreyjustarfsins gerðist hún matvinnungur út á landi og varð ástfangin af Seyðisfirði. Seinna kom í ljós að forfeður hennar höfðu búið á Seyðisfirði svo nú segir hún að ræturnar hafi sótt sig. 

Orka sem hún gat ekki hunsað

Allt byrjaði þetta sumarið 2021 en þá stóð til að Tinna myndi starfa sem flugfreyja hjá Icelandair en í apríl féll vinnan niður vegna covid. Guðrún Tinna segir að hún hafi upplifað sterkt að hún gæti ekki verið í bænum yfir sumarið heldur vildi brjóta upp lífið og fara annað. Hún setti sig því í samband við konu sem hún kannaðist við á Seyðisfirði til að athuga hvort eitthvað væri í boði þar, ekki endilega launuð vinna, heldur eitthvað tækifæri þar sem hún gæti unnið fyrir húsnæði. Sú kona tengdi hana við aðra konu sem rekur gistiheimili á Seyðisfirði og réði hún Tinnu í vinnu án þess að hafa hitt hana. Tinna fór svo austur með tvær dætur og hund og vann í fimm vikur á gistiheimilinu. Segir hún að sumarið hafi verið dásamlegt og það sem tók á móti henni á Seyðisfirði var friður, fegurð og endurnýjun. Þetta varð upphafið að tengingu Tinnu við Seyðisfjörð sem hefur orðið til þess að hún hefur snúið þangað aftur sumar eftir sumar.

Það er eins og Seyðisfjörður hafi kallað á mig, ekki öfugt. Og það er dásamlegt að hlusta þegar eitthvað svona gerist.

Umrætt örlagasumar árið 2021 var Benedikta Guðrún Svavarsdóttir að gera upp hús á Seyðisfirði sem heitir Steinholt en húsið var áður gamli tónlistarskólinn í bænum. Benediktu dreymdi um að einhver myndi endurvekja verslun í húsinu en húsið var upphaflega byggt árið 1907 af konu að nafni Jóhanna Einarsdóttir, sem var ekkja og reisti húsið sem heimili og verslun, og síðar gistiheimili. Þessi orð Benediktu kveiktu ekki strax neitt hjá Tinnu en nokkrum mánuðum síðar þegar þau hjónin voru í bíó í Reykjavík stökk hugmyndin fram og Tinna sagði við Paul í bíóhléinu: „Við förum bara austur og verðum með verslun í Steinholti.“ Hann samþykkti og árið 2022 leigðu þau Steinholt og Tinna opnaði þar verslun. Ári seinna keyptu þau svo íbúðina sem hýsir verslunina og þau á sumrin. „Ég fann bara að ég yrði að búa þarna hluta af ári. Það var orka þarna sem ég gat ekki hunsað.“

Steinholt & Co. er árstíðarbundin verslun á Seyðisfirði sem selur Austur- og Norðurteppin, sem og ýmsar sérvaldar vörur af Tinnu. 

Að vera í hlustun

Verslunin Steinholt & Co. er eins og áður segir aðeins opin á sumrin og þetta er nú fjórða sumarið sem verslunin er starfrækt. Þar selur Tinna ýmsar vandaðar vörur fyrir ferðamenn sem og heimafólk, vörur sem búnar eru til á Íslandi eða tengjast því sem hún sjálf lifir og hrærist í: tarot, vönduð hörhandklæði, færeyskar sápur, náttúruleg ilmvötn, sjósundsdót, bækur og ullarteppi sem hún hannar sjálf, svo fátt eitt sé nefnt. „Ég vil að allt sem er í búðinni sé satt og gott, eitthvað sem ég trúi á og nota sjálf. Þetta er meiri lífsstíll en verslun,” segir Tinna og bætir við að það sé kvennakraftur í veggjum hússins og henni finnist hún vera að halda einhverri sögu áfram.

Einhver kann að spyrja hvort það sé ekki mikið mál að flytja fjölskylduna alltaf austur á sumrin og rigga þar upp verslun fyrir nokkrar vikur en Tinna segir að það sé í raun mikil hvíld fólgin í því. Að fara frá fullbúnu heimili á Seltjarnarnesi og vera í meiri nálægð við náttúruna, að kúldrast saman með fjölskyldunni í litlu rými þar sem einfaldleikinn ráði för. „Það skiptir máli að vera í góðu samtali við náttúruna, það er kannski miðjan í öllu því sem ég er að gera,“ segir Tinna og bætir við að hún taki frekar ákvarðanir eftir innsæi fremur en plönum. Hún fylgir flæðinu og treystir á að leiðin opnist. Hún kallar það að vera í hlustun frekar en að ýta hlutunum áfram með afli. Þetta á t.d. við um flutninginn til Seyðisfjarðar, opnun búðarinnar, sköpunina á teppunum og alla hina vinnuna sem hún sinnir. „Það er eins og Seyðisfjörður hafi kallað á mig, ekki öfugt. Og það er dásamlegt að hlusta þegar eitthvað svona gerist. Ég veit að ég er hér á Seyðisfirði í sumar og ég verð hérna næsta sumar, en svo er ég ekkert að hugsa neitt mikið lengra en það. Svo bara sjáum við til.“