Fara í efni
Mannlíf

Þá sé ég fyrir mér sjálft aðfangadagskvöldið

JÓLALAGIÐ MITT

Hrefna Logadóttir, menntskælingur og tónlistarmaður

Ég gæti mögulega verið mesta jólabarn sem fyrirfinnst. Jólin eru minn uppáhalds tími og tónlistin er stór partur af því sem gerir þau svo frábær fyrir mér. Það reyndist mér þó virkilega erfitt að velja uppáhalds, eins og ég væri að gera upp á milli fjölskyldumeðlima eða eitthvað svoleiðis. Ég fann þó nokkur (aðeins fleiri en 3) lög sem mér finnst einkenna mín jól, allavega þetta árið.

Í ár er ég rosa mikið búin að hlusta á jólaplötuna með Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong. Hún er sjúklega flott í heild sinni en uppáhalds lögin mín eru reyndar hvorug jólalög upprunalega. Það eru What Are You Doing On New Year’s Eve og I’ve Got Your Love To Keep Me Warm. Mér finnst eiginlega ekkert jólalegra en jóla-jazz tónlist en hún hefur líka alltaf verið spiluð á mínu heimili í kringum hátíðina.

Tvö lög sem ég hef elskað síðan ég var mjög lítil eru One Little Christmas Tree með Stevie Wonder og Little Christmas Tree með Jackson 5. Bæði eru þetta mjög falleg lög og svo hef ég líka alltaf haft einhverja rosalega samkennd með litlum jólatrjám. Mér hefur þess vegna alltaf fundist þessir textar mjög fallegir.

Svo eru það tvö aðeins minna þekkt jólalög. Hard Candy Christmas eftir Dolly Parton er rosalega fallegt og skemmtilegt jólalag skrifað af sjálfri kántrý drottningunni. Ég mæli með að hlusta á þessa snilld. Svo verð ég að nefna lag eftir Kacey Musgraves, kántrý söngkonu sem er lítið þekkt hér á landi en risastór í Bandaríkjunum. Lagið heitir Christmas Makes Me Cry og eins og titillinn gefur til kynna þá er þetta frekar ljúfsárt lag en alveg rosalega fallegt.

Lagið sem fær þó verðlaunin sem það JÓLALEGASTA lagið er O Come All Ye Faithful, flutt af Nat King Cole. Þegar ég heyri þetta lag sé ég fyrir mér sjálft aðfangadagskvöldið. Klukkan alveg að fara að slá 6, góð matarlykt í húsinu og snjór úti. Þetta lag nær einhvern veginn að fanga allt sem jólin eru fyrir mér. Tilfinninguna og allt.