Fara í efni
Menning

Stjórn Akureyrarstofu vill varðveita verkið

Verk Margeirs við Kaupvangsstræti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Stjórn Akureyrarstofu, sem fer með menningarmál á Akureyri, líst vel á þá hugmynd að varðveita listaverk Margeirs heitins Sigurðarsonar, – listamannsins Dire – á austurgafli Kaupvangsstrætis 6, þar sem veitingastaðurinn Rub 23 er nú til húsa. Verkið er í portinu við gömlu höfuðstöðvar Kaupfélags Eyfirðinga.

Eftir að fjallað var um listaverk Margeirs í strætóskýli í Reykjavík á dögunum vakti Akureyri.net athygli á verkinu í Kaupvangsstræti. Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og fyrrverandi kennari Margeirs, sagði það mjög góða hugmynd að varðveita verkið.

„Stjórn Akureyrarstofu lýsir yfir áhuga á þátttöku í að varðveita verkið og felur safnstjóra Listasafnsins að ræða við aðstandendur og vini Margeirs, sem og KEA sem er eigandi húsveggsins, um hugsanlegt samstarf,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Akureyrarstofu, við Akureyri.net.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun um listaverkið.