Fara í efni
Mannlíf

Væri vel til fundið að vernda verk Margeirs

Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, við verk Margeirs Sigurðarsonar neðst í Listag…
Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, við verk Margeirs Sigurðarsonar neðst í Listagilinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Áberandi listaverk eftir Margeir heitinn Sigurðarson – listamanninn Dire – er á austurgafli Kaupvangsstrætis 6, þar sem veitingastaðurinn Rub 23 er nú til húsa; í portinu við gömlu höfuðstöðvar Kaupfélags Eyfirðinga. Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, segir það mjög góða hugmynd að varðveita verkið.

Akureyringurinn Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hvatti til þess á Facebook í vikunni að verkið yrði varðveitt, í kjölfar fréttar um flutning strætóskýlis í Reykjavík að kaffihúsinu Prikinu, en í nefndu skýli er listaverk eftir Margeir.

Rúllaði yfir útskriftarmálverkin!

Í kjölfar þessa leitaði Akureyri.net álits Hlyns Hallssonar á Margeiri og verkinu í Kaupvangsstræti; Listagilinu. „Margeir var mjög skapandi og skemmtilegur nemandi. Hann var heilmikið í götulist en líka mjög flinkur málari,“ segir Hlynur, sem var einn kennara Margeirs í Myndlistaskólanum á Akureyri. „En maður tók snemma eftir að því veggir voru í raun það sem freistaði hans lang mest.“

Lokaverkefni Margeirs í Myndlistaskólanum var einmitt ákveðin skírskotun í veggjalist. „Hann átti stór málverk á útskriftarsýningunni en tók sig svo til á opnuninni og rúllaði yfir þau með hvítri málningu. Það var mjög hressilegt og fólk saup hveljur! Það er í raun eðli þessarar listar, veggjalistarinnar, að hún hverfur smám saman, en hins vegar eru dæmi um verk hafa verið vernduð. Þá þarf að ramma þau einhvern veginn inn, eða setja plexígler yfir verk eins og eigendur Priksins ætla til að vera við mynd Margeirs í strætóskýlinu.“

Myndin í Listagilinu er af fíl og barnavagni, eins og sjá má hér með fréttinni. „Það er mjög gaman að þessi mynd skuli vera svona heilleg. Hún er vissulega farin að láta á sjá, en það væri hægt að varðveita hana og mér þætti það mjög vel til fundið að heiðra minningu Margeirs með því að vernda myndina. Hann setti svip á bæinn og verkið gæti orðið skemmtilegur hluti af Listagilinu.“

Hlynur er safnstjóri Listasafnsins á Akureyri sem fyrr segir. „Þetta gæri orðið áhugavert samvinnuverkefni eiganda hússins, Akureyrarstofu og jafnvel Listasafnsins,“ segir Hlynur.

Smellið hér til að lesa umfjöllun um strætóskýlið og mynd Margeirs.

Margeir notaði listamannsnafnið Dire. Þarna sést að myndina af fílnum og barnavagninum gerði Margeir árið 2014.

Margeir gerði mynd á veggnum sem blasir þegar gengið er upp tröppurnar, en málað hefur verið yfir það að stærstum hluta; rauða verkið er sem sagt ekki hans.