Fara í efni
Fréttir

Samið um smíði Svalbaks og Sléttbaks

Sigfús Ólafur Helgason verkefnisstjóri og Elvar Þór Antonsson skipasmiður handsala samninginn undir ÚA merkinu í hádeginu í dag. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Í dag var undirritaður samningur um smíði skipslíkans af Stellunum svokölluðu, Svalbaks og Sléttbaks eins og skipin hétu eftir að þau komust í eigu Útgerðarfélags Akureyringa fyrir rétt um 50 árum.

Undir forystu Sigfúsar Ólafs Helgasonar, sem kalla mætti verkefnisstjóra yfir verkefninu, varð til hópur áhugafólks sem vildi koma þessu verkefni af stað. Nú eru yfir 300 manns, fyrrum sjómenn, í hópi á Facebook sem kallast Stellurnar. Stellunafnið á sér uppruna í nöfnum skipanna áður en þau urðu að Svalbaki og Sléttbaki þegar ÚA keypti þau frá Færeyjum. Skipin hétu áður Stella Kristina og Stella Karina.


Annað Stelluskipanna, Svalbakur EA 302. Svalbakur og Sléttbakur hétu Stella Kristina og Stella Karina þegar þau voru í eigu Færeyinga, áður en Útgerðarfélag Akureyringa keypti þau.

Tvö skip í einu

Markmið hópsins er að safna nægilega miklu fé til að gera þann draum að veruleika að smíðað verði líkan af þessum skipunum. Verkefnið fékk fljúgandi start og hefur gengið svo vel á rétt um tveimur mánuðum að ekki verður við snúið. Tvö skip verða smíðuð í einu líkani þannig að öðru megin á því stendur Svalbakur EA 302 á öðrum kinnungnum og hinum Sléttbakur EA 304.

Skipin voru smíðuð í Álasundi í Noregi og fékk áhugahópurinn teikningar að skipinu gefins frá skipasmíðastöðinni. Áhugahópur um smíðina hefur staðið fyrir söfnun upp í kostnað við smíðina og nú er verkefnið formlega komið í gang því samið hefur verið við hagleiksmanninn Elvar Þór Antonsson á Dalvík um að smíða líkanið. Elvar Þór hefur stundað líkanasmíði í um 30 ár þegar hann byrjaði að gera tilraunir og hefur unnið bæði með tré- og stálskip. Orðstír hans hefur með vönduðum verkum borist víða og nú er svo komið að hann hefur stundað þessa smíði sem aðalstarf undanfarin fimm ár á veturna. 


Sigfús Ólafur Helgason og Elvar Þór Antonsson undirrita samning um smíðina. 

Dagsetningin ekki tilviljun

Það var ekki tilviljun að 17. maí var valinn til að undirrita samninginn. Stellurnar voru smíðaðar í Álasundi í Noregi og í dag er þjóðhátíðardagur Norðmanna. 

„Í dag eru líka 76 ár síðan hinn nýi, glæsilegi togari Kaldbakur EA 1, fyrsti togari Útgerðarfélags Akureyringa kom í fyrsta sinn í heimahöfn og með komu hans 17. maí árið 1947 hófst saga útgerðartogara ÚA sem stendur enn. Það var einmitt vegna þessa dags, í minningu genginna spora sjómanna ÚA sem við sem stöndum að þessu verkefni með Stellurnar ákváðum að gera að deginum þar sem við tækjum endanlega ákvörðun um hvort af verkefninu yrði," sagði Sigfús við athöfnina í hádeginu.

Smíði skipslíkansins á að vera lokið og það afhent og afhjúpað þann 1. nóvember í haust þegar slétt 50 ár verða liðin frá því að skipin Svalbakur og Sléttbakur sigldu í fyrsta sinn inn Eyjafjörð undir merkjum ÚA. Við segjum nánar frá þessu skemmtilega verkefni, aðdraganda þess og sögu skipanna síðar og ræðum þá betur við skipasmiðinn sjálfan um smíði skipslíkana og önnur verkefni sem hann hefur unnið að. 


Hvorki staðarval né dagsetning fyrir undirritun samnings var tilviljun.