Staðsetning pallsins þarf nánari skoðun

Í tengslum við framtíðaruppbyggingu við Sjúkrahúsið á Akureyri hefur tilvera og staðsetning lendingarstaðar þyrlu, eða þyrlupalls, oft komið upp í umræðunni. Á tillögu að breyttu deiliskipulagi sem afgreidd var úr skipulagsráði í liðinni viku eftir auglýsingarferli má sjá þyrlupallinn kominn þar sem nú er grasblettur á horni Búðatraðar og Þórunnarstrætis.
Lausleg mæling á map.is/akureyri sýnir að fjarlægð frá núverandi lendingarstað að efsta húsi við Lækjargötu er rétt rúmir 100 metrar og rúmir 110 metrar að næsta orlofshúsi við Búðatröð. Í deiliskipulagstillögunni sem nú er til afgreiðslu og staðsetningu þyrlupallsins á þeim uppdrætti má sjá að fjarlægðin að húsum neðan Mosateigs er um 80 metrar og innan við 50 metrar að næsta orlofshúsi við Búðatröð.
Myndin sýnir staðsetningu núverandi þyrlupalls og staðinn þar sem hann er á tillögu að breyttu deiliskipulagi sem nú er unnið með. Gróf mæling á map.is/akureyri sýnir fjarlægðir þessara staðsetninga frá næstu íbúðar- og orlofshúsum.
Af hálfu Sjúkrahússins hefur verið lögð áhersla á að þyrlupallurinn sé innan lóðamarka með það fyrir augum að tryggja bráðasjúkraflutninga með þyrlu. Þetta kemur fram í skriflegu svari Gunnars Líndal Sigurðssonar, verkefnastjóra á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu SAk, við fyrirspurn Akureyri.net.
Staðsetning og fyrirkomulag nýs þyrlupalls er hins vegar utan nýbyggingarverkefnisins og segir Gunnar að málið verði áfram unnið í samráði við heilbrigðisráðuneytið og tengda aðila. Núverandi staðsetning lendingarstaðarins er því leiðbeinandi eins og hann birtist á nýrri skipulagstillögu.
„Tillögur varðandi staðsetningu á þessu stigi máls voru unnar í verkefnahóp með viðeigandi fagaðilum, svo sem Landhelgisgæslu Íslands. Í því samhengi er þó ljóst að staðsetning, uppbygging og notkun lendingarstaðar þyrlu þarfnast nánari úttektar og yfirferðar viðeigandi sérfræðinga, þ.m.t. mat á áhrifum á umhverfi,“ segir Gunnar í svari sínu, og vísar þá væntanlega meðal annars til nálægðar við íbúðabyggð og umferð akandi og gangandi vegfarenda.
Gildandi deiliskipulag (til vinstri), staðfest 2008, og sú skipulagstillaga sem nú er í meðferð og var afgreidd frá skipulagsráði í liðinni viku eftir auglýsingaferli. Á henni má sjá staðsetningu þyrlupalls, en hún er þó sögð leiðbeinandi og þarfnist frekari skoðunar.