Spennt og mjög stolt að fá þetta tækifæri

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Þórs/KA, er gengin til liðs við þýska fyrstu deildar félagið 1. FC Köln eins og akureyri.net greindi frá í morgun. Samningurinn er til tveggja leiktíða; gildir til vors 2027.
„Ég er ótrúlega spennt og stolt að fá svona tækifæri,“ segir Sandra María við akureyri.net. Hún segir að mikil vinna sé á bak við það komast aftur í atvinnumennsku, „en ég hef fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum. Þetta er ekki eins auðvelt þegar maður er kominn með fjölskyldu og þegar ég fór út síðast, og það gerir mig sérlega stolta að fara núna. Það er líka ómetanlegt hvað allir styðja við bakið á mér og hvetja áfram.“
- Frétt akureyri.net í morgun:
Sandra María semur við 1. FC Köln í Þýskalandi
„Ég veit að Köln fylgdist vel með Evrópumótið í Sviss og félagið hafði fyrst samband við umboðsmanninn minn strax eftir mótið,“ segir Sandra María. Hún var í byrjunarliði Íslands í öllum þremur leikjunum á EM og stóð sig vel. „Köln og fleiri félög sýndu áhuga á að fá mig í kjölfar mótsins en þar sem fjölskyldan talar þýsku á heimilinu, auk íslensku, fannst okkur tilvalið að fara til Þýskalands – eiginlega fullkomið.“
Sandra María og Tom Luca Küster með dótturina Ellu Ylví Küster í janúar 2022. Þá voru þau flutt frá Þýskalandi til Akureyrar og Sandra María búin að semja við Þór/KA á ný. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þekki umhverfið
Sandra lék fyrir nokkrum árum með Bayer Leverkusen í Þýskalandi og kynntist þá manni sínum, Tom Luca Küster. Það er reyndar ekki eina tengingin við Þýskaland því faðir Söndru, Rainer Lorenz Jessen, er Þjóðverji.
Hún ítrekar að það henti mjög vel að semja við þýskt lið, vegna tungumálsins, „en ég veit líka hversu sterk deildin er og í hvaða umhverfi ég er að fara. Þetta er rosalega stór og flottur klúbbur í Þýskalandi og hér er mikill metnaður – félagið vill ná lengra en hingað til og hefur unnið mikið í því að betri árangur geti náðst á næstu árum. Það er búið að styrkja leikmannahópinn vel í sumar, mér finnst það rosalega spennandi tilboð að fá að vera þátttakendi í því verkefni og er líka mjög stolt af því að vera komin aftur í svona sterka deild.“
Spennandi þjálfari
Sandra er vitaskuld meðvituð um að lið Kölnar hefur endað neðarlega í deildarkeppninni síðustu ár, en ítrekar að búið sé að semja við sterka nýja leikmenn þannig að framtíðin sé björt. Og hún leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þjálfarans. Britta Carlson tók við sem aðalþjálfari á miðju síðasta keppnistímabili, eins og fram kom á akureyri.net í morgun og þar er sannarlega enginn aukvisi á ferð.
„Hún starfaði lengi með þýska landsliðinu sem aðstoðarþjálfari og hefur náð sér í mikla reynslu. Hún hefur miklar væntingar um árangur og heillaði mig mjög mikið með sýn sinni á fótboltann, á hvað hún leggur áherslu og hvernig hún vill að liðið spili,“ segir Sandra María um Brittu Carlson. „Hún seldi mér það mjög fljótt að rétt væri að koma og spila með Köln. Nú er bara að bíða og sjá og mæta fljótlega á fyrstu æfingu. Ég er mjög spennt að hitta hópinn og hlakka mikið til komandi verkefna með FC Köln.“
Sandra María var kjörin íþróttakona Akureyrar bæði 2023 og 2024. Myndin er tekin þegar niðurstaða seinna kjörsins var kunngjörn í byrjun þessa árs. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þakklát fyrir stuðninginn
Sandra María lítur stolt um öxl. „Þór/KA er og hefur alltaf verið fjölskyldan mín og þar líður mér best. Ég mun alltaf horfa til baka með bros á vör og á bara jákvæðar minningar; ég er stolf af því að hafa spilað svona marga leiki fyrir minn klúbb,“ segir hún.
Hún kveðst afar þakklát fyrir stuðninginn undanfarið. Sandra var samningsbundin Þór/KA til 16. nóvember í ár en þýska liðið vildi fá hana utan sem fyrst, eins og gefur að skilja. Félagaskiptaglugganum verður lokað 31. ágúst og ekki opnaður á ný fyrr en eftir áramót.
„Stuðningurinn í kringum þessi félagaskipti var ómetanlegur, frá stjórn, leikmönnum og þjálfarateyminu. Þór/KA er og hefur alltaf verið fjölskyldan mín og þar líður mér best. Ég mun alltaf horfa til baka með bros á vör, á ekkert nema jákvæðar minningar og er stolt af því að hafa spilað svona marga leiki fyrir klúbbinn minn.“