Fara í efni
Fréttir

Söfnin, Sigmundur, Orri Páll, sagan, veðrið ...

Því er fagnað í dag að þrjú ár eru síðan Akureyri.net gekk í endurnýjun lífdaga. Strax kom í ljós að vandaður fjölmiðill sem einblínir á nærumhverfið skiptir miklu máli; viðtökur voru framúrskarandi, lesendum hefur fjölgað stöðugt allar götur og lesendatölur eru í raun ævintýri líkastar. Nánar um þær síðar.

Margvíslegt efni hefur birst á hverjum einasta degi síðan föstudaginn 13. nóvember árið 2020, átta fréttir eða greinar á dag að meðaltali þessa nærri 1.100 daga.

Á tímamótunum er ánægjulegt að tilkynna um ýmsar nýjungar á Akureyri.net; lesendur hafa án efa rekið augun í sumar nú þegar en aðrar birtast á næstu dögum.

  • Fyrir helgi birtist á forsíðu Akureyri.net tengill á Bliku, þann frábæra veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, þar sem með einum smelli er hægt að kynna sér veður augnabliksins og veðurspá næstu daga.
  • Hópur lesenda hefur styrkt rekstur Akureyri.net með mánaðarlegu framlagi allt frá upphafi. Áberandi svæði til þess arna hefur nú verið komið fyrir á forsíðunni, við hlið tengilsins á veðurvefinn. Allt skiptir máli því margt stórt gerir eitt stórt!
  • Á forsíðunni má nú einnig sjá lista yfir mest lesnu fréttirnar á Akureyri.net síðasta sólarhring.
  • Sigmundur Ernir Rúnarsson, rithöfundur og einn kunnasti fjölmiðlamaður landsins til áratuga, mun næstu misseri skrifa vikulega pistla þar sem hann rifjar upp æskuárin á Akureyri á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Pistlar Sigmundar birtast alla mánudagsmorgna, sá fyrsti í morgun.
  • Annar Akureyringur, Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur einnig tekið að sér að skrifa reglulega Akureyrarpistla. Orri Páll er fádæma snjall í sínu fagi og ekki að ósekju að sumir vinir hans kalla Orra gjarnan Maradona lyklaborðsins! Áhugamenn um knattspyrnu skilja þá samlíkingu.
  • Akureyri.net hyggst opna fólki dyr að söfnum bæjarins, ef svo má segja. Vikulega mun birtast mynd af listaverki, einhvers konar grip eða skjali, með upplýsingum um viðkomandi hlut. Þetta er gert í samstarfi við Listasafnið, Minjasafnið, Héraðsskjalasafnið og Iðnaðarsafnið. Héðan í frá verða safndyrnar opnaðar á hverjum fimmtudegi.
  • Frá og með næsta laugardegi verður GÖMUL ÍÞRÓTTAMYND birt vikulega á Akureyri.net. Tilgangurinn er tvíþættur, annars vegar að skemmta lesendum því fátt gleður fólk meira en gömul ljósmynd, hins vegar vonast undirritaður til að fólk taki þátt í þeim skemmtilega leik að rifja upp sögur og nafngreina fólk á myndum eins og frábærlega hefur tekist til við birtingu gömlu myndarinnar frá Minjasafninu á hverjum föstudegi síðustu 157 vikur.

  • Lygalaupurinn Tómas á Borgum mætti til leiks á Akureyri.net í gær og gladdi marga ef að líkum lætur. Rakel Hinriksdóttir hefur tekið saman nokkrar óborganlegur ýkjusögur Tómasar og verða þær birtar á sunnudögum fram að jólum.

  • Margir góðir pistlahöfundar skrifa annað veifið fyrir Akureyri.net og svo verður áfram. Einn þeirra, Svavar Alfreð Jónsson, mun skrifa mánaðarlega héðan í frá. 
  • Lesendur kannast við nokkra vikulega þætti og þeir verða áfram á sínum stað; Pétur Guðjónsson veltir vöngum alla þriðjudaga, Sigurður Arnarson skrifar um TRÉ VIKUNNAR á miðvikudögum og Una Haraldsdóttir segir annan hvern fimmtudag frá stórmerkilegum dagbókum Sveins Þórarinssonar, föður rithöfundarins Nonna. Þá heldur Arnór Bliki Hallmundsson vitaskuld áfram að gleðja lesendur reglulega með fróðlegum og skemmtilegum pistlum um gömul hús. 

Undirritaður útilokar ekki að taka upp á því að raða saman orðum í einstaka pistil eins og í Morgunblaðinu á árum áður. Óskynsamlegt er þó að lofa upp í ermina á sér og því er látið staðar numið hér. 

Um leið og ég þakka lesendum samfylgdina síðustu þrjú ár vona ég að þeir njóti áfram um langa hríð og kunni vel að mæta þær nýjungar sem nú eru boðaðar.

Áfram Akureyri - og Akureyri.net!

Bestu kveðjur,

Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri