Slátturóbótar spara GA milljónir á ári

Eins og fram kom í viðtali á akureyri.net við Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóra og vallarstjóra Golfklúbbs Akureyrar, hafa umsvif klúbbsins aukist mikið á undanförnum misserum. Félögum í klúbbnum hefur fjölgað mikið, komnir yfir þúsund, og gríðarleg aukning hefur orðið í spiluðum hringjum á Jaðarsvelli. Að halda vellinum í góðu standi verður því sífellt meiri áskorun og tilkoma slátturóbóta hefur létt verulega þá vinnu, auk þess að spara mikinn rekstrarkostnað.
Að sögn Steindórs kom fyrsti róbótinn til starfa á vellinum árið 2021 og dundaði sér við að slá við 10. brautina, sem liggur meðfram akveginum upp að klúbbhúsinu. Hann stóð sig það vel að núna eru 10 slíkir vinnuþjarkar út um allan völl að hamast við að slá. „Reynslan af þeim er mjög góð. Þetta gerir vinnuna við grassvæðin sem þeir sjá um auðveldari og grasgæðin batna,“ segir Steindór. Að sögn Steindórs spara róbótarnir bæði töluverða vinnu og sérstaklega viðgerðar- og olíukostnað. Þessi hagræðing hleypur á milljónum króna árlega.
Þó að róbótarnir hafi vinnusparnað í för með sér hefur það ekki áhrif á fjölda starfsmanna. „Við fækkum ekki starfsfólki við þessa breytingu heldur gefst okkur færi á að auka þjónustu og gæði vallarins enn frekar,“ útskýrir Steindór.