Skrifar um endalok mannkyns á ljóðrænan hátt

„Það er eins og ég skýrist í kollinum við það að skrifa,“ segir Nína Ólafsdóttir, rithöfundur. „Ég er ekkert góð í því að koma sögu frá mér í töluðu máli, en það er eitthvað við það þegar penninn færist yfir blaðsíðuna. Þar er eitthvað tempó sem hentar mér, skýrir hugsunina.“ Nína er nýbúin að gefa út fyrstu bók sína, Þú sem ert á jörðu, hjá Forlaginu.
„Bíddu hæg,“ segir blaðamaðurinn, velvakandi eftir sterkan kaffibolla. „Handskrifar þú? Skrifaðir þú bókina þína til dæmis þannig?“
„Ég er búin að handskrifa þessa sögu að minnsta kosti þrisvar sinnum,“ segir Nína. Það er skondið, en saga Nínu gerist einmitt í óræðri framtíð - þar sem öll nútíma tækni, þar á meðal tölvur og takkborð, er horfin og við fylgjum síðustu manneskju jarðarinnar eftir. Hún er reyndar ekki að skrifa neitt, heldur að reyna að lifa af og leita svara.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Nínu, en fyrri hlutinn birtist í gær á Akureyri.net
Komin yfir gamlan ótta við berskjöldun
Nína segir að draumurinn um að skrifa fyrir aðra en bara sjálfa sig hafi verið farinn að láta á sér kræla um tvítugsaldurinn. „Ég var þó hikandi, vegna þess að mér fannst tilhugsunin um að sýna einhverjum öðrum það sem ég skrifa alveg hræðilega berskjaldandi. Ég hafði ekki hugrekki til þess þá, og mér fannst ég kannski ekki hafa neitt að segja. Ég var ekki búin að finna röddina mína, né finna það sem mig langaði að leggja til málanna.“
Ég fann þarna strax, að ég hafði þörf fyrir að tala öðruvísi um náttúruna
Eftir að leggja drauminn um að verða rithöfundur til hliðar tímabundið, bankaði hann aftur upp á þegar Nína var orðin eldri og búin að sökkva sér ofan í náttúruvísindi. Hún lærði sjávar- og vatnalíffræði við Hólaskóla og í náminu var hún búsett um tíma á Svalbarða, en hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á náttúrufræðum. „Þarna kviknaði á einhverju aftur, og mig langaði til þess að skrifa um náttúruna, þarna hafði ég eitthvað að segja,“ segir Nína.
Fræðitextinn flæddi ekki auðveldlega
„Ég held það hafi reyndar ekkert verið mjög meðvitað fyrst um sinn. Ég hugsaði mikið um vísindamiðlun á þessum tíma, og mér fannst ég ekki alltaf vera á réttum stað þó að ég væri hamingjusöm úti í mörkinni í sýnatöku og rannsóknum. Ég held að ég sé ekkert endilega mjög sterk fræðimanneskja, kannski er ég of tilfinningasöm eða eitthvað. Það kom ekki alveg náttúrulega að tala tungumál vísindanna og skrifa fræðitexta.“
„Það eru mikil skrif sem fylgja vísindafræðilegu námi, en þegar ég var að byrja í náminu þá man ég eftir skiptum þar sem lýsingarorð voru strikuð út í textunum sem ég skrifaði, til dæmis,“ rifjar Nína upp. „Ég hafði held ég alltaf svolítið skapandi sýn á viðfangsefnið - en ég aðlagaðist fljótt. Fræðitextar eru oft frekar þurrir, það er bara þannig, en þetta snýst náttúrulega ekki um að vera skemmtilegur. Mér finnst það samt skipta máli að koma hlutunum til skila á áhugaverðan hátt og fólk er misgott í því.“
„Ég fann þarna strax, að ég hafði þörf fyrir að tala öðruvísi um náttúruna,“ segir Nína. „Ég reyndi samt að setja fræðihattinn á mig, þegar ég vann við vísindarannsóknir. Að nálgast verkefnin kalt og vera alls ekki að gera lífríkinu upp einhverjar tilfinningar sem eru ekki til staðar.“
Nína býr í gömlu húsi við Aðalstræti í Innbænum, ásamt manni sínum Jóhanni Garðari Þorbjörnssyni og eins árs syninum Heiðari Blika. Mynd: RH
Setjum okkur gjarnan á háan hest
„Hérna áður fyrr ímynduðum við okkur af mikill hörku að dýrin finndu til dæmis ekki til sársauka,“ segir Nína. „Að þau hefðu ekki tilfinningalíf, en ég held að við séum komin frá því og berum meiri virðingu fyrir öðrum tegundum. Við erum búin að opna augun fyrir því að við erum bara svipuð öðrum dýrum að mörgu leyti. En þetta viðfangsefni hefur alltaf heillað mig og ég er forvitin um þetta sjónarmið okkar mannanna, hvað við erum gjörn að setja okkur upp á einhvern stall. Það liggur við að við teljum okkur vera í einhverri guðlegri vídd þar sem við erum að víla og díla með lífríkið eftir okkar hentisemi.“
Er þekkingin metin að verðleikum?
Það er stór spurning, hvort að borin sé virðing fyrir niðurstöðum vísindafólks þegar kemur að ákvörðunum, framkvæmdum og hagsmunaöflum þeirra sem fara með völdin. Er það bara spurning um að tikka í box, að fá vísindamann til þess að rannsaka ástand einhvers svæðis og verndargildi? Nína vann lengst af hjá Hafrannsóknarstofnun, og hún segir að þetta hafi batnað töluvert.
„Maður heyrði einhverjar sögur af því, að hér áður fyrr hafi stofnstærðarmat á fiskveiðistofnum til dæmis bara verið virt að vettugi. Kvótinn ekki gefinn út með tilliti til niðurstöðunnar, en það er ekki þannig í dag,“ segir Nína.
Nína í essinu sínu, úti í mörkinni að stunda rannsóknir. Myndir: aðsendar
Saknar þess að stunda rannsóknir
„Ég verð samt vör við það enn í dag, að það er verið að vinna umhverfismat á einhverjum svæðum sem svo er ekki tekið nægilegt tillit til,“ segir Nína. „Eins og það hafi bara verið formsatriði að láta vinna það. Kannski eru stjórnmálamenn enn að gera það sem áður fyrr var gagnrýnt með stofnstærðarmat Hafró, bara á öðrum sviðum.“
„Ég sakna þess oft að vinna við vísindastörf, að vera úti að safna gögnum og sinna rannsóknum,“ segir Nína. „Draumastaðan mín væri að vera rithöfundur, sitja við skrif - en geta svo verið í hlutastarfi sem líffræðingur og farið út að safna sýnum og fylla á andlega brunninn. Vera kannski 2-3 mánuði í því og svo að skrifa. Ég skelli því kannski bara út í kosmósið hér með!“
Nína las upphafið að bókinni og áritaði eintök í útgáfuhófi í Pennanum Eymundsson í september. Myndir: aðsendar
Næsta bók á teikniborðinu
„Ég er reyndar byrjuð á nýrri bók,“ segir Nína. „Það er önnur skáldsaga sem mig dreymir um að klára og ég er að fara að gyrða mig í brók eftir útgáfuna, að fara að skrifa aftur. Ég er nýbúin að klára fæðingarorlof með syni mínum, og nú er ég bara galvösk, ætla að sækja um listamannalaun og gefa mér tíma í skrifin.“
„Nýja sagan tekur á svipuðu viðfangsefni, ég er ennþá að spá í framtíðinni og hugsi um manninn og náttúruna, segir Nína. Ég ætla samt að nálgast málið á annan hátt og spyr kannski annarra spurninga.“
Nýr heimur er að fæðast í sögunni, þó margt sé að láta undan, þar á meðal við
„Starfið mitt er klárlega kveikjan að því að skrifa þessar sögur,“ segir Nína að lokum. „Og öðru fremur, þá gaf starfið og námið mér sjálfstraust til þess að tala um þetta. Það er svolítið fyndið eiginlega að fara svo með þessar pælingar í einhverja ljóðræna átt, en ég er örugg með mig af því að mér finnst ég hafa lagt inn fyrir því að hafa skoðun á þessu sviði.“
Þó að saga Nínu fjalli um endalok mannkyns, er hún í rauninni ekki heimsendasaga. „Nýr heimur er að fæðast í sögunni, þó margt sé að láta undan, þar á meðal við. Þetta er allt hluti af umbreytingarafli jarðarinnar og maðurinn er hluti af náttúrunni og jörðinni,“ segir Nína að lokum.
Þetta er annar hluti viðtalsins við Nínu, en fyrri hlutinn birtist í gær á Akureyri.net