Fara í efni
Fréttir

Skátarnir ætla að endurbyggja Fálkafell

Skáli Skátafélagsins Klakks í Fálkafelli og Akureyri í baksýn.

Skátafélagið Klakkur stefnir á endurbyggingu Fálkafells, skátaskálans ofan Akureyrar. Ætlunin er að endurbyggja skálann í mjög svipaðri mynd og þann sem fyrir er, en sá er orðinn mjög lúinn og illa farinn enda mjög gamall. Áformað er að rífa þann gamla og byggja nýjan í nokkurn veginn sömu mynd. Skálinn var upphaflega byggður 1932, en endurbætur og breytingar gerðar reglulega á liðinni öld. Sótt hefur verið um byggingarheimild fyrir nýja skálanum, en byggingarfulltrúi frestaði afgreiðslu málsins á síðasta fundi.

Að sögn Björgvins Smára Jónssonar, sem á sæti í byggingarnefnd skálans, vilja skátarnir endurbyggja húsið, en halda í sjarmann sem er yfir núverandi húsi. Því verði sem minnstu breytt, þó til dæmis verði flóttaleiðir úr húsinu og hreinlætisaðstaðan betri en nú er. Grunnflöturinn verður sá sami og á núverandi húsi, en svefnloftið verður yfir allri hæðinni og því stærra en núverandi svefnloft. Skálinn í Fálkafelli er almennt mikið notaður af skátunum í Klakki. Þangað fara allir aldursflokkar í útilegur og segir Björgvin Smári að vonandi verði nýtingin enn meiri með betra húsi.

Unnið verður að nánari hönnun og skipulagningu framkvæmda á þessu ári ef leyfi fæst til að fara í þessa endurbyggingu og er þá reiknað með að nýi skálinn muni rísa á árinu 2025.

„Ekta útileguskáli“

Arnór Bliki Hallmundsson fjallar um skálann í Fálkafelli á húsabloggsíðunni sinni, arnorbl.blog.is, í janúar 2011, en hann er reyndar einnig í stjórn Skátafélagsins Klakks. Fálkafell er að segja má „ekta útileguskáli“, eins og Arnór Bliki orðar það, hvorki með rafmagn né rennandi vatn, en oft hefur verið rætt hvort nútímavæða eigi húsið með öllum þægindum. Hann segir Fálkafell klárlega vera í hópi elstu fjallaskála landsins sem enn eru í reglulegri notkun og sennilega elsta skátaskálann.

Arnór Bliki segir frá því að skátaflokkurinn Fálkar hafi byggt skálann árið 1932 og hvernig skálastæðið var valið. Þar vitnar hann í bók Tryggva Þorsteinssonar, Varðeldasögur, sem Skjaldborg gaf út 1973. Skátaflokkurinn var á göngu í fjalllendinu ofan Akureyrar í júní 1932, en þá voru þéttbýlismörk bæjarins nokkurn veginn þar sem Sundlaug Akureyrar er nú. Skátahópurinn mun „hafa villst í þoku en rambað allt í einu á það sem þeir héldu að væri hús en reyndist gríðarstórt grettistak, aflangur jarðfastur steinn. Þá létti loks til og þvílíkt útsýni! Þeir ákváðu að lengra skyldi ekki leitað enda er skálastæðið á einstaklega góðum stað útsýnislega séð ...“ skrifar Arnór Bliki.

Reglulegar endurbætur og stækkanir

Hann nefnir einnig að þó svo skálinn hafi verið byggður 1932 hafi honum oft verið breytt og hann stækkaður, að innan sem utan. Hann var breikkaður og torfveggir rifnir árið 1942 og um 20 árum síðar var hann lengdur til vesturs. Aftur 20 árum eftir það, upp úr 1980 var forstofubyggingin reist og skálinn allur tekinn í gegn og meðal annars sett í hann miðstöðvarkynding. Arnór Bliki segir skálann upprunalega hafa verið reistan fyrir í mesta lagi tíu manna flokk, en nú komist um 30 manns auðveldlega þar fyrir.


Kvöldsólin gyllir Fálkafell. Einlyfta forstofubyggingin var reist upp úr 1980. Skugginn hægra megin á skálanum kemur af eldiviðarskúr sem stendur steinsnar norðan skálans. Myndin er tekin 2009.

Leiðin upp í Fálkafell hefur „styst“ að segja má því eins og áður sagði voru þéttbýlismörk Akureyrar nokkurn veginn þar sem Sundlaug Akureyrar stendur þegar skálinn var byggður. Þá var iðulega mætt við sundlögina og gengið þaðan, um sex kílómetra leið upp í Fálkafell. Vissulega enn hægt að ganga frá sundlauginni, en nú eftir malbiki og þurrum fótum. Auðvelda leiðin er auðvitað að fara akandi upp Súluveg og ganga þaðan rúman kílómetra upp í móti til að komast í Fálkafell.

Arnór Bliki birti nokkrar myndir af Fálkafellsskálanum, að utan og innan, á bloggsíðu sinni í maí 2017 - sjá hér. Arnór Bliki vísar þar einnig í myndir í eigu Minjasafnsins frá fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar.