Fara í efni
Íþróttir

Silvía slasaðist og óvíst með framhaldið

Silvía Rán í Skautahöllinni á Akureyri í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Silvía Rán Björgvinsdóttir, ein allra besta íshokkíkona landsins, slasaðist nýlega í leik í sænsku deildarkeppninni og verður frá æfingum og keppni næstu mánuði. Hún missir því af heimsmeistarakeppninni þar sem Ísland leikur í apríl. Er þar sannarlega skarð fyrir skildi því Silvía hefur verið lykilmaður í landsliðinu síðustu ár.

Það var í leik með liði Hammarby frá Stokkhólmi í næst efstu deild í Svíþjóð að Silvía slasaðist; hnéskel fór úr lið eftir að hún klemmdist á milli tveggja mótherja. „Ég fann strax að eitthvað alvarlegt hafði gerst því sársaukinn var alveg rosalegur,“ segir Silvía í samtali við Akureyri.net.

Lá í hálftíma á svellinu!

Hún lýsir atvikinu þannig: „Ég var kominn í gott færi þegar ein stelpan í hinu liðinu kemur að mér frá hlið, fellir mig og við flækjumst saman, og á sama tíma kemur önnur hinum megin frá þannig að mikið högg kemur á hnéð báðum megin frá um leið og við snúumst.  Þá fann ég strax mesta sársauka sem ég nokkurn tíma fundið á ævinni.“

Biðin eftir sjúkrabíl var ótrúlega löng. „Ég lá í hálftíma á svellinu; það var ekki hægt að hreyfa mig því það var svo sárt. Í hvert skipti sem ég andaði öskraði ég meira að segja af sársauka. Ein stelpan hélt undir hnéð á mér allan tímann og í hvert skipti sem hún hreyfði sig smávegis hélt ég hreinlega að lífið væri að verða búið.“ 

Hálftími leið þar til sjúkrabíll kom á staðinn og svo tók annan hálftíma að verkjastilla Silvíu. Þegar sjúkraflutningamennirnir mættu á staðinn bað hún þá, þrátt fyrir að vita af sársaukanum, að lyfta sér af svellinu. „Mér er orðið svo ógeðslega kalt Þeir tróðu því einhverju upp í mig svo öskrin yrðu ekki of mikil ... “

Heima næsta vetur?

Silvía Rán kom heim til Akureyrar fyrir skömmu og Akureyri.net hitti hana í gær í Skautahöllinni þar sem hún var á leið í lyftingasalinn. Hún slær ekki slöku við þrátt fyrir allt og einbeitir sér að því að styrkja efri hluta líkamans á meðan ekki er annað hægt. „Ég ætla að taka veturinn og sumarið í að byggja mig upp aftur og sjá til hvernig staðan verður í haust. Ég er með samning við Hammarby eitt ár í viðbóð og langar ótrúlega mikið út aftur en kannski spila ég hérna heima næsta vetur til að koma mér í gang. Deildin hér er rólegri.“

Óánægð í Gautaborg

Silvía varð fyrst Íslendinga til að semja við íshokkílið í efstu deild Svíþjóðar. Gekk til liðs við Göteborg HC fyrir nokkrum misserum en var aldrei ánægð með vistina þar. „Ég var reyndar svo óheppin að meiðast tveimur dögum áður en ég fór út en eftir að ég fór að spila fannst mér ég gera mitt vel. Ég komst hins vegar fljótlega að því að þjálfararnir voru ekki hæfir til að þjálfa lið í efstu deild. Við töpuðum mörgum leikjum, um jólin voru margar búnar að fá nóg og nokkrar hættu.“

Silvía fékk heilahristing í einum leikjanna, segist hafa verið alveg úti í þekju en þegar þjálfari spurði hvort hún gæti samt ekki spilað kveðst hún hafa áttað sig á því „að ég vildi ekki vera lengur í þessu umhverfi.“ Hún óskaði eftir því fara sem lánsmaður til annars liðs, samdi við lið í Stokkhólmi og fór þaðan til Hammarby, sem einnig er í höfuðborginni. Bætir því svo við að gamla liðið í Gautaborg sé ekki starfrækt lengur; hafi verið á hausinn.