Fara í efni
Íþróttir

Sheldon Reasbeck til hokkídeildar SA

Sheldon Reasbeck verður aðalþjálfari hokkíliða SA.

Hokkídeild Skautafélags Akureyrar hefur tilkynnt um ráðningu Kanadamannsins Sheldons Reasbeck sem nýs þjálfara hokkídeildarinnar og mun þjálfa báða meistaraflokka félagsins, auk þess að vera yfirþjálfari og þróunarstjóri yfir U14, U16 og U18 unglingaflokkunum. Sheldon er 38 ára og hokkífólki hjá SA að góðu kunnur því hann hefur komið sem gestaþjálfari síðastliðna tvo vetur með Hockey without boarders.

Sheldon kemur frá Kapuskasing Flyers í AAA hokkí í Kapuskasing í Ontario. Í frétt félagsins kemur fram að hann sé með þjálfararéttindi og tækniþjálfunarréttindi frá Hockey Kanada en er einnig lærður styrktarþjálfari. Hann er eigandi PowerPlay Hockey, fyrirtækis sem sérhæfir sig í leikmannaþróun og hann hefur samhliða annarri þjálfun verið virkur þjálfari fylkisliðanna í Norður-Ontario.

Sheldon er með nokkuð framsækna nálgun og hugmyndir sem passa vel við hugmyndafræðina hjá SA svo það er mikil ánægja með að fá Sheldon til liðs við okkur,“ segir einnig í frétt félagsins. Hann mun hefja störf hjá félaginu 1. september.