Sæti KA tryggt eftir jafntefli gegn Vestra

KA tók á móti Vestra í keppni neðri hluta Bestu deildar karla í dag og skildu liðin jöfn, 1:1. Heimamenn áttu fyrir leikinn ennþá fræðilega möguleika á að falla en með jafnteflinu eru þær áhyggjur endanlega úr sögunni.
Vestramenn eru hins vegar í mun harðari fallbaráttu og þurftu nauðsynlega á sigri að halda í dag. Leikurinn var sá fyrsti hjá liðinu eftir Jón Þór Hauksson tók við sem þjálfari. KA tefldi líka fram nýjum manni, því Svíinn Jonathan Rasheed var í markinu í fyrsta sinn. Sá sænski sleit hásin á fyrstu æfingunni fyrir Íslandsmótið og ekki var búist við því að hann kæmi neitt við sögu á þessu ári. Steinþór Már Auðunsson hefur ekki enn jafnað sig á meiðslum og hinn mistæki William Tönning sem leysti hann af var settur á bekkinn.
Markmannsmistökin elta KA
Eftir frísklega byrjun Vestra náði KA yfirhöndinni í leiknum, þó að marktækifærin létu á sér standa. Eina mark fyrri hálfleiks skoruðu gestirnir nokkuð óvænt á 37. mínútu. Jeppe Pedersen gaf fyrir markið og öllum til mikillar furðu sigldi knötturinn framhjá öllum, þar á með Rasheed í markinu, og endaði í netinu. Ótrúlegt klaufamark.
Boltinn kominn í netið hjá KA eftir fyrirgjöf sem sigldi framhjá öllum í teignum. KA-menn súrir en leikmenn Vestra fagna.
KA var áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik en Vestramenn gerðu hvað þeir gátu til að hanga á forystunni. Lítið var um marktækifæri, þangað til KA-maðurinn Guðjón Ernir Hrafnkelsson hitti ekki markið úr upplögðu færi á 77. mínútu. Tveimur mínútum síðar náði KA þó að jafna, þegar Hans Viktor Guðmundsson skallaði aukaspyrnu frá Hallgrími Mar í netið.
Stefnan sett á 7. sætið
Sæti KA í Bestu deildinni er því endanlega tryggt og liðið er nú í 8. sæti, með lakari markamun en ÍBV sem er í 7. og efsta sæti neðri hluta deildarinnar.
Mikil barátta var í leiknum en marktækifæri af skornum skammti.
Nú tekur við tveggja vikna hlé í deildarkeppninni vegna landsleikja en næsti leikur KA er heimaleikur gegn ÍA, sunnudaginn 19. október kl. 14.