Fara í efni
Íþróttir

Rut og KA/Þór meðal þeirra bestu

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, leikmaður handboltaliðs KA/Þórs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, einn Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handknattleik, er á lista yfir 10 efstu í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins að þessu sinni. Þá er lið KA/Þórs eitt þriggja efstu liða í kjöri liðs ársins. 

Kjörið fer nú fram í 66. skipti en sam­tök­in hafa kosið íþrótta­mann árs­ins sam­fleytt frá ár­inu 1956. Í morgun var tilkynnt um þá efstu í kjörinu en úrslitin verða kunngjörð 29. des­em­ber.

Þau tíu sem höfnuðu í efstu sæt­un­um í kjör­inu eru í staf­rófs­röð:

Aron Pálm­ars­son hand­knatt­leiksmaður hjá Aal­borg í Dan­mörku varð Evr­ópu­meist­ari með Barcelona og fór tvisvar í úr­slit Meist­ara­deild­ar með liðinu á tíma­bil­inu. Hann varð jafn­framt spænsk­ur meist­ari og bikar­meist­ari með liðinu og var fyr­irliði landsliðsins þegar það tryggði sér sæti á EM 2022.

Bjarki Már Elís­son hand­knatt­leiksmaður hjá Lem­go í Þýskalandi. Hann varð þriðji marka­hæsti leikmaður þýsku deild­ar­inn­ar 2020-21 og þýsk­ur bikar­meist­ari með Lem­go. Hann var í lyk­il­hlut­verki með landsliðinu á HM í Egyptalandi og marka­hæsti leikmaður þess.

Júlí­an J.K. Jó­hanns­son kraft­lyft­ingamaður úr Ármanni. Hann varð heims­meist­ari í rétt­stöðulyftu í þunga­vigt en gerði ógilt í hinum grein­un­um á HM og komst því ekki á blað í sam­an­lagðri keppni á mót­inu.

Kári Árna­son knatt­spyrnumaður úr Vík­ingi í Reykja­vík. Hann var burðarás í Vík­ingsliðinu sem varð Íslands­meist­ari og bikar­meist­ari og þá lauk hann far­sæl­um ferli með ís­lenska landsliðinu með sín­um 90. lands­leik í sept­em­ber.

Kol­brún Þöll Þorra­dótt­ir hóp­fim­leika­kona úr Stjörn­unni. Hún var í lyk­il­hlut­verki í kvenna­landsliðinu sem varð Evr­ópu­meist­ari í hóp­fim­leik­um. Kolbrún var val­in í úr­valslið móts­ins og fram­kvæmdi eitt erfiðasta stökk móts­ins. Hún varð Íslands- og bikar­meist­ari með Stjörn­unni.

Krist­ín Þór­halls­dótt­ir kraft­lyft­inga­kona úr ÍA varð Evr­ópu­meist­ari í -84 kg flokki í klass­ísk­um kraft­lyft­ing­um, setti þrjú Evr­ópu­met á mót­inu og varð fyrst Íslend­inga Evr­ópu­meist­ari í sam­an­lögðu. Hún fékk bronsverðlaun á heims­meist­ara­mót­inu.

Mart­in Her­manns­son körfuknatt­leiksmaður hjá Valencia á Spáni. Hann komst í undanúr­slit­in um spænska meist­ara­titil­inn með liðinu og lék með því í Euroleague, næst­sterk­ustu deild fé­lagsliða í heimi. Hann var í stóru hlut­verki í mik­il­væg­um sigri landsliðsins á Hol­lend­ing­um.

Ómar Ingi Magnús­son hand­knatt­leiksmaður hjá Mag­deburg í Þýskalandi. Hann varð markakóng­ur þýsku deild­ar­inn­ar 2021 og er áfram meðal marka­hæstu manna deild­ar­inn­ar í ósigrandi liði Mag­deburg í vet­ur, ásamt því að eiga næst­flest­ar stoðsend­ing­ar. Hann vann Evr­ópu­deild­ina með liðinu og síðan heims­meist­ara­mót fé­lagsliða þar sem Mag­deburg vann Barcelona í úr­slita­leik.

Rut Arn­fjörð Jóns­dótt­ir hand­knatt­leiks­kona hjá KA/Þ​ór á Ak­ur­eyri. Hún sneri heim eft­ir at­vinnu­mennsku og fór fyr­ir liði KA/Þ​órs sem vann fjóra titla og varð Íslands- og bikar­meist­ari í fyrsta sinn í sög­unni. Hún er fyr­irliði landsliðsins sem fór vel af stað í undan­keppni EM.

Svein­dís Jane Jóns­dótt­ir knatt­spyrnu­kona hjá Kristianstad í Svíþjóð. Hún er í stóru hlut­verki hjá ís­lenska landsliðinu og skoraði þrjú mörk í undan­keppni HM í haust. Hún hóf at­vinnu­mennsk­una með Kristianstad sem varð í þriðja sæti í Svíþjóð og var önn­ur tveggja marka­hæstu leik­manna liðsins.

Þjálf­ar­arn­ir þrír í staf­rófs­röð

Arn­ar Gunn­laugs­son þjálf­ari Íslands- og bikar­meist­ara Vík­ings í knatt­spyrnu karla.

Vé­steinn Haf­steins­son sem þjálfaði gull- og silf­ur­verðlauna­hafa í kringlukasti karla á Ólymp­íu­leik­un­um í Tókýó.

Þórir Her­geirs­son þjálf­ari norska kvenna­landsliðsins í hand­bolta sem varð heims­meist­ari og Evr­ópu­meist­ari og fékk bronsverðlaun á Ólymp­íu­leik­un­um.

Liðin þrjú í staf­rófs­röð

Íslenska kvenna­landsliðið í hóp­fim­leik­um sem varð Evr­ópu­meist­ari.

KA/Þ​ór sem varð fjór­fald­ur meist­ari í hand­knatt­leik kvenna tíma­bilið 2020-21.

Vík­ing­ur úr Reykja­vík sem varð Íslands- og bikar­meist­ari karla í fót­bolta 2021.

Leikmenn KA/Þórs eftir að liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í vor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.