Fara í efni
Fréttir

Rektor HA: Öflugur háskóli norðan heiða

Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri. Mynd af vef skólans.

Tímamót voru þema í ræðu rektors Háskólans á Akureyri, Eyjólfs Guðmundssonar, á Háskólahátíð um síðustu helgi. Tímamótin sem kandídatar standa á að loknu námi, tímamót háskólans hvað varðar samfélagsbreytingar með tilkomu gervigreindar og tímamót í eigin lífi því Eyjólfur lætur af störfum sem rektor í lok mánaðar eftir 10 ára starf.

Háskólahátíð – brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri fór fram í þremur athöfnum í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri 14. og 15. júní. Samtals brautskráðust tæplega 550 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi af tveimur fræðasviðum. Það er stærsti útskriftarárgangur skólans frá upphafi.

Stærstu tímamót sögunnar

„Já – heimurinn allur er á stærstu tímamótum mannkynssögunnar því að með tilkomu gervigreindarinnar eru allar forsendur samfélagsins gjörbreyttar,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson. Ræða hans hefur nú verið birt á vef skólans.

Rektor fór yfir nokkrar tölur í ræðu sinni; háskólinn stefnir hraðbyri í að fara yfir 3000 stúdenta markið, rannsóknarstig fara yfir 3000 á hverju ári og doktorsnám byggist upp. Hann undirstrikaði þetta enn frekar í ræðunni; „Starfsmannafjöldi skólans eykst og starfa nú um það bil 250 manns við skólann með beinum hætti og vel yfir 750 manns koma að stundakennslu. Þannig eru það rétt tæplega 1000 einstaklingar sem koma að starfsemi HA á hverju skólaári. Allt saman kostar þetta fjármuni og á síðasta ári velti HA tæpum fimm milljörðum króna – og HA er, að því að mér sýnist fimmtánda stærsta opinbera stofnun landsins og önnur stærsta opinbera menntastofnunin. Já – sýn frumkvöðlanna á að hægt sé að vera með öflugan háskóla hér norðan heiða hefur svo sannarlega ræst.“

Þegar rektor talaði til kandídata í framhaldsnámi nefndi hann þá brúarsmiði í margvíslegum skilningi. „Þið sem brautskráist hér í dag eruð öll orðin sérfræðingar á ykkar sviði, hafið aflað ykkur viðbótarþekkingar sem byggir ofan á þá grunnþekkingu sem þið fenguð í fyrra háskólanámi. Þess vegna ætlast samfélagið - og ég - til meira af ykkur þegar kemur að því að byggja brýr; að tengja saman fólk og þekkingu til þess að leysa áskoranir samfélagsins með betri hætti en gert hefur verið áður. Á næstu 10 til 20 árum verðið þið leiðtogar okkar samfélags.“ Þá hvatti hann kandídata til að huga vel að eigin heilsu og sinna sjálfum sér því öll erum við mikilvæg og líkt og rektor sagði í ræðu sinni, „Já kæru kandídatar – þið eruð skemmtileg, þið eruð einstök, þið eruð alls staðar.“