Fara í efni
Íþróttir

Ótrúlegt ævintýri sem aldrei gleymist

Birkir og snillingurinn Lionel Messi eftir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi 2018. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Birkir Bjarnason er leikjahæsti landsliðskarl Íslands í knattspyrnu. Hann á að baki 110 leiki og hefur gert 15 mörk. Birkir, sem hefur verið fyrirliði landsliðsins undanfarin misseri, er sá eini sem enn er í landsliðinu úr þeim hópi sem gerði garðinn frægan í nokkur ár, þegar karlalandsliðið komst í fyrsta skipti á stórmót; EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018.

Skrýtið að vera einn eftir

„Það er mjög skrýtið að vera einn eftir úr gamla bandinu,“ segir Birkir við Akureyri.net. Landsliðshópurinn, sem var lítið breyttur í nokkur ár á mesta velgengnistímanum, hefur gjarnan verið kallaður gamla bandið upp á síðkastið. „Við höfðum verið lengi saman og upplifað ótrúlega margt skemmtilegt. Það gerðist svo allt í einu að margir fóru út úr hópnum nánast á sama tíma, það var í raun mikið áfall fyrst en svo venst það; nú er að koma flottir og efnilegir strákar inn í liðið, strákar sem maður er að tengjast smám saman,“ segir Birkir.

Skemmtilegt ævintýri

Birkir hefur leikið víða sem atvinnumaður í knattspyrnu og segir ferilinn hafa verið skemmtilegt ævintýri.

Hann hefur verið á mála hjá Viking og Bodö/Glimt í Noregi, Standard Liege í Belgíu, FC Basel í Sviss, Aston Villa í Englandi, Al-Arabi í Katar, Pescara, Sampdoria og Brescia á Ítalíu, og Adana Demirspor í Tyrklandi, þar sem Birkir er nú.

Birkir og Sophie kærastan hans eru afar ánægð í Tyrklandi, eins og fram kom í viðtalinu við hann sem birtist á Akureyri.net í gær. „Mér leið líka gríðarlega vel í Sviss, líka á Englandi og auðvitað á Ítalíu,“ segir hann.

„Ég skipti um lið á hverju ári á tímabili. Einhvern tíma hugsaði ég með mér að gott yrði að vera á sama stað svolítið lengur en þegar ég hugsa um það eftir á hefur þetta verið mjög gaman; að prófa ný lönd og mismunandi fótbolta.“

EM var toppurinn

Aftur að landsliðinu. „Þetta hefur verið alveg ótrúlegt ævintýri með landsliðinu í mjög langan tíma, við höfum upplifað rosalega mörg mjög skemmtileg augnablik en ég held, þegar maður lítur til baka, að EM sé toppurinn í mínum huga, bæði vegna þess hversu langt við fórum í keppninni og hve mér gekk vel persónulega. EM í Frakklandi er eitthvað sem maður mun aldrei gleyma.“

Birkir skoraði fyrsta mark Íslands í lokakeppni EM, þegar hann jafnaði gegn Portúgölum í fyrstu umferð riðlakeppninnar í St. Etienne. Leiknum lauk 1:1. Hann skoraði síðan aftur í átta liða úrslitunum, þegar Íslendingar töpuðu fyrir Frökkum í París og duttu út.

Snúa vonandi aftur

„Það er mjög góð tilfinning og mikill heiður,“ segir Birkir, spurður um það hlutverk að vera fyrirliði landsliðsins síðustu misseri. „Ég er ótrúlega stoltur af því en hugsa reyndar mjög lítið um það. Geri það kannski eftir að ég verð hættur að spila, þá nær maður að hugsa til baka en eins og er reyni ég bara að njóta þess að spila fótbolta.“

Landsliðsfyrirliðinn er orðinn 34 ára en er hvergi nærri hættur. „Nei, mér líður mjög vel og ætla að spila eins lengi og ég get á þessu hæsta stigi. Við sjáum bara til, maður veit aldrei hvað maður getur verið lengi í þessu – mér finnst enn ótrúlega gaman að koma í landsleiki og ætla að njóta þess eins lengi og ég get.“

Birkir vonast enn til þess að einhverjir af gömlu félögunum eigi afturkvæmt í landsliðið. „Vonandi er gamla bandið ekki alveg búið að vera. Sumir hafa verið frá vegna meiðsla, sumir af öðrum ástæðum, en ég vona að einhverjir þeirra komi til baka – vonandi sem flestir,“ segir Birkir.

Birkir ræðir við Heimi Hallgrímsson, þáverandi landsliðsþjálfara, dagin eftir fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi, 1:1 jafnteflið gegn Argentínu í Moskvu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson