Fara í efni
Íþróttir

Ætla að njóta þess að spila eins lengi og ég get

Birkir og kærastan Sophie í hesthúsi Halldórs afa hans á dögunum. Merin næst þeim heitir Rán og er í eigu Birkis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Birkir Bjarnason, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, var á Íslandi í fríi á dögunum, eins og hann hefur gert hvert einasta sumar í mörg ár. Hann hefur nú snúið aftur til æfinga með Adana Demirspor, tyrkneska félaginu sem hann er samningsbundinn.

Birkir, sem er orðinn 34 ára, fæddist á Akureyri og lék með KA í yngstu aldursflokkunum en fjölskyldan flutti til Noregs þegar hann var 11 ára. Foreldrar hans eru Halla Halldórsdóttir, sem lék knattspyrnu með Þór og blak með KA, og Bjarni Sveinbjörnsson, mikill markaskorari í knattspyrnuliði Þórs á sínum tíma.

Landsliðsfyrirliðinn, sem hefur leikið víða á farsælum ferli, samdi við Demirspor fyrir síðasta vetur. Borgin Adana er fyrir botni Miðjarðarhafs, rúmum 850 kílómetrum suðaustan við Istanbul, skammt ofan við Sýrland

Akureyri.net ræddi við Birki á dögunum. Fyrsti hluti spjallsins birtist í dag.

  • Á MORGUNBirkir um landsliðsævintýrið
  • Á MIÐVIKUDAG – Dýrmætt að koma í frí til afa og ömmu

Adana æfði í Tyrklandi í síðustu viku, þó ekki á heimaslóðum. „Við erum um það bil þriggja tíma akstur frá Istanbul. Hér er 30 stiga hiti en heima í Adana hafa verið 40 stig, sem er allt of heitt til að æfa,“ sagði Birkir þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hans í síðustu viku. Í þessari viku verður liðið við æfingar á Ítalíu „og við förum ekki til Adana fyrr en rétt áður en deildin byrjar 5. ágúst. Hún byrjar óvenju snemma í ár vegna heimsmeistarakeppninnar í vetur.“

Leist illa á fyrst

„Þegar ég og kærastan komum hingað fyrst og kíktum á aðstæður leist okkur illa á; þetta var rétt eftir að við höfðum verið föst á Ítalíu í tvö ár vegna Covid, ég hafði ekkert hitt fjölskylduna allan þann tíma, Tyrkland er langt í burtu og allt mjög frábrugðið því sem maður er vanur,“ segir Birkir. „Ég neitaði þess vegna samningstilboði frá liðinu – og gerði það reyndar þrisvar!“

Tyrkirnir lögðu sem sagt ríka áherslu á að semja við Birki. „Svo ákváðum við að fara aftur hingað niðureftir, ég sló á endanum til og er ótrúlega glaður að ég skyldi ákveða að koma hingað.“

Birkir og Sophie í hesthúsi Halldórs afa hans. Merin næst þeim heitir Rán og er í eigu Birkis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kærastan frönsk fyrirsæta

Kærasta Birkis, Sophie, er frönsk. Hún starfar sem fyrirsæta og er töluvert á ferð og flugi. Birkir segir þeim líða afskaplega vel í Tyrkalandi. „Sophie hefur verið hjá mér mest allan tímann í Tyrklandi en vinnur reyndar mikið uppi í Evrópu, bæði í Frakklandi og víðar og flýgur bara á milli.“

Liði Adana gekk mjög vel á síðustu leiktíð. „Við vorum að berjast um Evrópusæti allt tímabilið, fram að síðustu fimm leikjunum þegar okkur gekk illa og við enduðum í níunda sæti. Það er í raun frábær árangur miðað við að Adana var nýliði í deildinni en leikmannahópurinn var samt það góður að mínu mati að við hefðum átt að vera að berjast enn ofar. Við hefðum átt að lenda í einum af fjórum efstu sætunum.“

Gott að spila með Balotelli

Birkir er þekktur fyrir að geta brugðið sér í allra kvikinda líki á vellinum; með landsliðinu lék hann í mörg ár á vinstri kanti sem einn fjögurra miðjumanna, undanfarið hefur hann leikið sem aftasti miðjumaður í landsliðinu en hjá Adana lék hann nær eingöngu sem fremsti maður á miðjunni síðasta vetur; í holunni, eins og farið er að kalla svæðið fyrir aftan fremsta mann liðsins.

Í fremstu víglínu Adana var enginn annar en Ítalinn Mario Balotelli, sá litríki náungi sem margir muna eftir frá því hann lék með Manchester City og Liverpool í Englandi. Frábær fótboltamaður en óútreiknanlegur. „Mér finnst mjög gott að spila með honum. Við náum vel saman enda þekktumst við síðan við spiluðum saman hjá Brescia á Ítalíu um tíma. Og auðvitað er gott að við tölum báðir ítölsku.“

Hefði átta að byrja á þessu miklu fyrr!

„Já, það eru fáar stöður sem ég hef ekki spilað,“ segir Birkir og hlær þegar það ber á góma. „Ég lék nokkra leiki inni á miðjunni með Adana í vetur, en langoftast fyrir aftan framherjann. Ég er nokkuð vanur að spila sem annar tveggja framliggjandi miðjumanna en þetta var í fyrsta skipti sem ég lék nánast heilt keppnistímabil í þessari stöðu og var í því að hjálpa framherjanum. Ég kann mjög vel við mig í þessari stöðu, hún hentar mér vel – ég hefði átt byrja á þessu miklu fyrr á ferlinum!“

Birkir segist spenntur fyrir leiktíðinni sem hefst í næsta mánuði.

„Já, ég hlakka mjög til tímabilsins. Ég er kominn á þann aldur að ég reyni að njóta í botn. Maður veit aldrei hvað maður getur verið lengi að og ég ætlaði því að njóta þess að spila fótbolta eins lengi og ég get.“

Birkir ræðir við blaðamenn meðan á heimsmeistaramótinu í Rússlandi stóð 2018. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson