Fara í efni
Fréttir

Óskaplega sorglegt – fólk með tárin í augunum

Ljósmyndir: Karen Nótt Halldórsdóttir.

Grímseyingar eru harmi slegnir eftir að Miðgarðakirkja brann til grunna í gærkvöldi. Þetta fallega hús er horfið og aðeins grunnurinn eftir, eins og sjá má á myndunum sem Karen Nótt Halldórsdóttir tók í morgun.

„Margir eiga góðar minningar úr kirkjunni og það er óskaplega sorglegt að hún skuli vera horfin. Fólk er með tárin í augunum,“ segir formaður hverfisráðs Grímseyjar, Jóhannes Henningsson, í samtali við RÚV.

Svavar Gylfason slökkviliðsstjóri í Grimsey segir í samtali við RÚV í morgun að kirkjan hafi orðið alelda á skömmum tíma. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var mestur eldur í turninum en rafmagnstaflan er þar undir.

„Aðkoman var ömurleg og það var voða lítið hægt að gera. Ég fæ hringingu frá mágkonu minni sem ég held að hafi fyrst orðið vör við eldinn. Ég rauk beint út í bíl og við fórum strax að græja okkur hjá slökkviliðinu. Þá var eiginlega ekkert hægt að gera því eldurinn var orðinn það mikill. Hitinn var mikill og það rauk af glóðinni. Við fórum að reyna að verja næsta hús, Miðgarða“, segir Svavar við RÚV. „Það var mikill vindur og við sprautuðum á glæðurnar. Þetta skeði ótrúlega fljótt á svona 20 mínútum þá var kirkjan eiginlega horfin.“

Hér er frétt Akureyri.net frá því í nótt.