Nýtt upphaf býður fram á Akureyri í vor
Ákveðið er að framboðið Nýtt upphaf býður fram í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri næsta vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ásgeiri Ólafssyni Lie. Þar segir að í fyrsta sinn í sögu landsins verði hægt að kjósa fólk í stað flokka.
„Nýtt Upphaf sprettur ekki úr skrifstofuherbergjum hefðbundinna flokka, heldur úr samtölum milli fólks. Eitthvað sem var hugmynd og er nú að verða að veruleika,“ segir í tilkynningunni. „Í fyrsta sinn í sögu landsins getur þú kosið fólk í stað flokka.“
„Nýtt Upphaf er ekki flokkur og verður aldrei flokkur. Heldur vettvangur fyrir einstaklinga með sín eigin mál, sína eigin sýn og sína eigin ábyrgð. Engar flokkslínur. Engin bakherbergi. Bara skýr tengsl milli kjósenda og fulltrúa,“ segir í tilkynningunni.
„Á Norðausturlandi vitum við að lausnir fæðast í samfélaginu sjálfu. Sveitarstjórnarkosningar 2026 eru því ekki bara kosningar, heldur tækifæri til að skapa sögu og færa lýðræðið í hendurnar á fólkinu aftur. NU lofar ekki kraftaverkum, heldur heiðarleika, gagnsæi og ábyrgð. Nú er tíminn. Nú er tækifærið. Núna er NÝTT UPPHAF.“
„Millistykki“
Akureyri.net greindi fyrst frá hugmyndinni haustið 2023. Í þeirri frétt sagði meðal annars:
Áhersla er lögð á að ekki sé um að ræða flokk heldur einskonar „millistykki“ frá frambjóðendum til kjósenda, fyrir fólk sem langi að bjóða sig fram að eigin verðleikum. Í fyrsta skipti verði hægt að kjósa einstaklinga í stað flokka.
Í fréttinni útskýrði Ásgeir hvernig Nýtt upphaf virkar. Nánar hér: Nýtt „millistykki“ fyrir framboð einstaklinga
- Hlýða má á fréttatilkynningu Nýs upphafs í heild í hlaðvarpi framboðsins hér að neðan. Smellið á myndina til að hlusta.
