Fara í efni
Fréttir

Nýtt félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi

Stjórn ERGI. F.v. Mars Baldurs, Aðalsteinn Jóhannsson, Ley Fraser og Snævar Óðinn Pálsson en á myndina vantar Áslaugu Jónasdóttur. Mynd: aðsend

ERGI er nýtt félag hinsegin stúdenta á Norðurlandi. Aðalbjörn Jóhannsson er stýri ERGI og Snævar Óðinn Pálsson er samskiptafulltrúi, en þeir hittu blaðamann Akureyri.net til þess að spjalla um þetta nýja félag. Stýri er kynhlutlaust orð yfir það, að gegna stjórnunarhlutverki. „Þrátt fyrir að vera félag hinsegin stúdenta þá er ERGI samt sem áður opið öllum og við leggjum sérstaka áherslu á að meðlimir þurfi ekki að vera skráðir í nám til þess að geta tekið þátt í starfi, stjórn eða viðburðum,“ segir Aðalbjörn.

Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Aðalbjörn og Snævar um ERGI. Seinni hlutinn verður birtur á morgun.

Á MORGUN – HINSEGIN SAMFÉLAGIÐ FINNUR FYRIR BAKSLAGINU

 

Félagið varð til sem viðbragð við skýrri og augljósri þörf fyrir öflugan, sýnilegan og inngildandi vettvang fyrir hinsegin fólk á landsbyggðinni

„Það að félagið sé félag stúdenta er fyrst og fremst skírskotun í markmið þess, þ.e. að stuðla að fræðslu, rannsóknum, sýnileika og samfélagi þar sem kjarninn er í kringum stúdenta, aktivista og ungt fólk,“ segir Snævar. „Við vinnum því að því að skapa öruggan og sýnilegan vettvang fyrir hinsegin fólk og tengda aðila innan háskólasamfélagsins, í nærumhverfinu og víðar enda býr okkar félagsfólk og starfar út um allt land.“

Styrkja tengslanet hinsegin fólks úti á landi

„Við ákváðum að setja fókusinn á ungt fólk og stúdenta hérna úti á landi sem ekki eiga kost á þeim tengslanetum, stuðningi eða viðburðum sem oft eru aðgengilegri á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Aðalbjörn. „Það skortir tækifæri til félagslegra tengsla, samstöðu og fræðslu sem miðast við veruleika hinsegin fólks utan höfuðborgarsvæðisins því við verðum að horfast í augu við það að þar er munur á. Með tilkomu ERGI skapast vettvangur þar sem fólk getur tengst, fræðst, rætt saman og mótað samfélag jafningja sem bæði skilur og styður.“

 

T.v. Aðalbjörn Jóhannsson, stýri ERGI. T.h. Snævar Óðinn Pálsson, samskiptafulltrúi ERGI. Myndir: aðsendar

Öflugt samstarf við HA

„Háskólinn á Akureyri hefur mjög sterka nærveru í kynjafræðum,“ segir Aðalbjörn, en hann er nemi í félagsvísindum við skólann. „Jafnréttisstofa er líka starfandi á háskólasvæðinu, þannig að við sjáum mikil tækifæri í samstarfinu við HA. Við horfum svolítið til þess að hér verði jafnvel miðstöð hinseginfræða í framtíðinni, en það er mikilvægt að hafa stóra drauma!“ Snævar tekur undir og bendir á að ERGI bjóðist til þess að koma með fræðslu um málefni hinsegin fólks þangað sem hennar er óskað.

„Það er mjög virkt jafnréttisráð í HA, og jafnréttisfulltrúi sem hefur svolítið verið okkar tengiliður inn í skólann,“ segir Aðalbjörn. „Skólinn hefur tekið okkur opnum örmum og útvegað okkur húsnæði til þess að halda viðburði og funda.“ 

Vilja vera til staðar fyrir eldri hópa

Aðalbjörn segir að ERGI miði að því að vera til staðar fyrir eldri hópa, en til dæmis er HIN - félag hinsegin fólks á Norðurlandi með frábært starf fyrir börn og unglinga. „Þetta er meira fullorðinstengt hjá okkur, en við erum vissulega með fólk sem hefur mikla reynslu af því að fara í grunnskóla með fræðslu. Ég hef til dæmis sjálfur unnið innan skólakerfisins síðustu 10-15 árin og ég finn mikið fyrir því að það er mikil löngun og vöntun hjá kennurum að fá meiri fræðslu. Kennarar eru stærsti snertipunktur samfélagsins við börn, og það er mikilvægt að þeir hafi sjálfstraust varðandi það, að nálgun þeirra gagnvart þessum málefnum sé viðeigandi.“

„Ef þú ert starfsmaður í skóla, þá ertu að vinna með hinsegin börnum, þó þú vitir það ekki,“ segir Aðalbjörn. „Fólk er yfirleitt ofboðslega velviljað og gerir hlutina rétt, en það er jafnvel samt að slá sig niður af því að það er svo efins. Og þetta á ekkert endilega bara við um kennara, heldur bara fólk almennt, að það efast um að vera nógu vel inn í þessum málum. Ég og Snævar höfum verið að sinna hinsegin fræðslu síðan 2010, og öll sem gera það hjá okkur hafa reynslu og faglega nálgun.“

 

Það er gott samstarf við Háskólann á Akureyri hjá ERGI, þegar Hinsegin dagar á Norðurlandi eystra voru haldnir hátíðlegir í júní, var Aðalbjörn t.d. með tímabundna stjórn á samfélagsmiðlum skólans, sem kallast að vera með 'takeover', eða 'yfirtöku'. Myndir: Facebook

Dreymir um fræðslu á breiðum vettvangi

„Það sem er mikilvægast, er að við höfum líka persónulega reynslu,“ bendir Snævar á. „Ég veit svo ekkert hvort það er raunhæfur draumur, en mig langar að fá að koma með fræðslu inn í heilbrigðiskerfið líka. Fólk sem ég þekki sem hefur farið í gegnum hjúkrunarfræði og iðjuþjálfun, til dæmis, hefur ekki fengið hinsegin fræðslu í náminu sínu.“ Aðalbjörn bætir við þetta, að fólk geri sér eflaust ekki grein fyrir því, hvað það er víða sem fagleg hinsegin fræðsla sé nauðsynleg.

„Hinsegin samfélagið hérna á Akureyri er ekki mjög stórt, en við látum ganga á milli nöfn á hjúkrunarfræðingum sem eru hinseginvænir. Eins með lækna og sálfræðinga, svo dæmi séu nefnd. Og vörum við öðrum, ef við eigum slæma reynslu af viðkomandi,“ segir Aðalbjörn. 

Virkt félagsstarf

„Við erum ekki með neinar grillur um að við séum einhverjir talsmenn hinsegin fólks á Norðurlandi,“ segir Aðalbjörn. „Þetta er mjög fjölbreyttur hópur með ólíkar væntingar og þarfir. Við viljum vera með virkt félagsstarf og skapa vettvang fyrir fólk til þess að hittast, en nú þegar höfum við haldið nokkra viðburði eins og spilakvöld og bíókvöld.“ 

Við þurfum að skapa aðstæður þar sem fólk þorir að taka skrefið til að finna hvert annað

„Félagið varð til sem viðbragð við skýrri og augljósri þörf fyrir öflugan, sýnilegan og inngildandi vettvang fyrir hinsegin fólk á landsbyggðinni,“ segir Snævar, aðspurður um hvort að stofnun félagsins hafi verið til þess að mæta einhverri þörf. „Síðustu ár hafa verið að spretta upp félög hinsegin fólks út um allt land og hér á Akureyri hefur verið starfandi mjög flott félag sem heitir Hinsegin Norðurland. Við Aðalbjörn tókum einmitt þátt í því með mjög flottum hópi fólks að stofna það á sínum tíma, árið 2011, og þar er öflugt starf sem á hrós skilið og hefur verið gaman að fylgjast með, sérstaklega síðustu ár.“

Breitt aldursbil og ólíkur bakgrunnur félaga

Félagar í ERGI eru á breiðu aldursbili og úr ýmsum áttum. „Við erum í stöðugri uppbyggingu og fjölgun,“ segir Aðalbjörn. „Meðlimir okkar koma víða að, bæði úr staðnámi og fjarnámi, auk þess sem mörg búa og starfa utan háskólasamfélagsins. Þótt félagið beinist fyrst og fremst að stúdentum og ungu fólki er aldursbilið breitt og við tökum sérstaklega vel á móti öllum sem vilja taka þátt, óháð aldri, skólagöngu eða hinseginleika. Það sem skiptir mestu er vilji eða löngun til að taka þátt í opnu og framsæknu samfélagi.“

Snævar og Aðalbjörn leggja áherslu á að það sé ekki nauðsynlegt að skrá sig í félagið til þess að mæta á viðburði og taka þátt. „Þau sem vilja skrá sig senda okkur póst á ergi@ergi.is en því getur fylgt ýmislegt skemmtilegt eins og sterkari tengsl við starfið og allskonar tilboð sem berast félagsfólki,“ segir Snævar.

 

ERGI hélt spilakvöld á Götubarnum í vor, þar sem vel var mætt. Ekki er nauðsynlegt að vera skráð í félagið til þess að mæta á viðburði. Mynd: aðsend 

Starfið í vetur og upplýsingar um ERGI

Nú er félagið nýlega stofnað, en hvernig sjá Aðalbjörn og Snævar fyrir sér að starfsemin verði í vetur? „Starfsemin verður fjölbreytt, félagsleg og fræðandi. Við skipuleggjum viðburði og hittinga, fræðslufundi og reynum að mæta þörfum okkar félaga,“ segir Aðalbjörn. „Við leggjum áherslu á að efla umræðu um hinsegin málefni innan og utan háskólasamfélagsins og höfum þegar hafið samstarf við skóla og stofnanir á svæðinu. Auk staðbundinna viðburða leggjum við ríka áherslu á að vera hreyfanleg svo að fólk utan Akureyrar geti tekið virkan þátt. Við viljum byggja upp stöðugt net fólks, fræðslu og stuðnings um allt Norðurland og víðar og svo á þetta náttúrulega bara að vera fáránlega skemmtilegt líka. Það er alltaf vélin í svona starfi, að það sé skemmtilegt!“

Bjóða upp á fræðslu fyrir ólíka hópa

„Það má endilega heyra í okkur varðandi fræðslu eða fyrirlestra, hvort sem það er fyrir kennara, skólafólk, heilbrigðisstarfsfólk eða aðra vinnustaði,“ segir Snævar. „Við verðum líka áberandi í kring um nýnemadaga hjá HA í ágúst og svo er mikilvægt að taka það fram að við tökum rosalega vel á móti fólki með erlendan bakgrunn og getum boðið upp á flest í okkar starfi, meðal annars marga viðburði, á ensku!


Áhugasöm um að fylgjast með starfsemi ERGI er bent á að fylgjast með á Facebook síðu félagsins. Í stjórn ERGI eru auk Aðalbjarnar og Snævars: Mars Baldurs, varastýri. Hán er nemi í nútímafræði í HA. Fjármálafulltrúi er Áslaug Jónasdóttir sem er líka í nútímafræði og svo er Ley Fraser, maki Snævars, félagsmálafulltrúi stjórnarinnar en hán er frá Kanada og er með tvær mastersgráður í félagsvísindum og kynjafræði, en er núna í doktorsnámi frá háskólanum í Manitoba, þar sem hán rannsakar upplifun trans barna af skólakerfinu í Kanada.

 

Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Aðalbjörn og Snævar um ERGI. Seinni hlutinn verður birtur á morgun.

Á MORGUN – HINSEGIN SAMFÉLAGIÐ FINNUR FYRIR BAKSLAGINU