Fara í efni
Fréttir

Hinsegin samfélagið finnur fyrir bakslaginu

Aðalbjörn Jóhannsson, stýri ERGI, tekur hér þátt í Gleðigöngunni 2023. Mynd: Eva Björk

„Hinsegin samfélagið á Norðurlandi er til staðar en oft ósýnilegt og dreift,“ segir Aðalbjörn Jóhannsson, en hann og Snævar Óðinn Pálsson eru í stjórn ERGI, sem er nýtt félag fyrir hinsegin stúdenta á Norðurlandi. Þeir segja að mörg finni fyrir einangrun eða skorti á tengslum og þá sérstaklega ef þau búa utan stærri þéttbýlisstaða, en það er ekki sama tengslanet úti á landi, eins og er á höfuðborgarsvæðinu, fyrir hinsegin fólk. ERGI er stofnað til þess að bregðast við því, og veita vettvang fyrir félagsskap, fræðslu og stuðning.

Þetta er annar hluti viðtalsins við Aðalbjörn og Snævar, fyrri hlutinn birtist í gær á Akureyri.net

Í GÆR – NÝTT FÉLAG HINSEGIN STÚDENTA Á NORÐURLANDI

Hinsegin samfélagið á Norðurlandi

„Við vitum að hér er til staðar kraftmikill hópur fólks sem vill breytingar, samveru og samfélag og það er nákvæmlega það sem við viljum efla. Við upplifum vilja til samstöðu, forvitni og þörf fyrir rými sem fagnar fjölbreytileika og það er sá jarðvegur sem við byggjum á,“ segir Aðalbjörn. „Samfélagið okkar er og getur verið ofboðslega gott og mikilvægt en það gerist ekki af sjálfu sér, við þurfum að vinna fyrir því og skapa aðstæður þar sem fólk þorir að taka skrefið til að finna hvert annað.“

Fólk er að halda aftur af sér þar sem það ætti ekki að þurfa að fela sig

„Verkefni eins og Hinsegin hátíð á Norðurlandi eystra er til dæmis ofboðslega flott verkefni sem við vonumst til þess að verði árlegur viðburður sem vex með komandi árum. Það er svo ótrúlega gaman að sjá hinsegin fána reista að húni í hverju horni en því fylgir samt alltaf ákveðin áminning þegar þeir eru dregnir aftur niður að viku liðinni,“ segir Aðalbjörn.

 

ERGI stendur fyrir viðburðum til þess að efla félagsleg tengsl, meðal annars hefur verið boðið til bíókvölds. Mynd: aðsend.

Dreymir um miðstöð fyrir hinsegin fólk á Norðurlandi

„Langtímamarkmiðið okkar er að koma á fót miðstöð fyrir hinsegin fólk á Norðurlandi,“ segir Aðalbjörn. „Stað þar sem við getum samnýtt aðstöðu, skipulagt viðburði, veitt ráðgjöf og byggt upp samfélag sem eflir lífsgæði og sýnileika hinsegin fólks á svæðinu. Við viljum líka vera rödd í samfélagsumræðunni, rödd sem er byggð á reynslu, rökum og raunverulegu fólki.“

„Það má alveg ræða það, að á þessum tíma, þegar bakslag hefur orðið í réttindabaráttu hinsegin fólks, er fólk ekki bara að hugsa um félagslegt öryggi – heldur líka líkamlegt,“ segir Aðalbjörn. „Þó að ég sjálfur sé hinsegin, þá er ég samt í ákveðinni forréttindastöðu, sem samkynhneigður karlmaður. Þegar ég ræði, til dæmis, við transfólk sem er í kynleiðréttingarferli, þá sé ég hvað þau eru hrædd við þessa þróun. Fólk er að halda aftur af sér þar sem það ætti ekki að þurfa að fela sig. Þess vegna er vettvangur eins og ERGI mikilvægur staður, þarna veit fólk að það mætir engu mótlæti og er öruggt.“

Ömmurnar og afarnir eru ekki verst, heldur foreldrarnir

„Sum eru að mæta miklu mótlæti í samfélaginu í dag,“ segir Snævar, og Aðalbjörn tekur undir það. „Það sem ég hef miklar áhyggjur af líka, er að það var svo greinileg jákvæð þróun í aldri þeirra einstaklinga sem voru að koma út sem hinsegin. Þegar við vorum ungir var fólk gjarnan komið á fullorðinsaldur, svo fimm árum síðar var það um framhaldsskólaaldurinn og svo vorum við komin þangað að krakkar á miðstigi í grunnskóla voru farin að segja frá því strax, hver þau eru. Nú er þessi aldur að hækka aftur, sérstaklega hjá strákum, og fleiri dæmi þess að krakkar komi út og taki það svo til baka þegar þau sjá veruleikann sem birtist,“ segir Aðalbjörn.

 

Sýnileiki hinsegin samfélagsins er háður því að fólkið sem lætur sig réttindabaráttuna varða vekji athygli á málstaðnum. Myndir: aðsendar.

Fleiri tala opinberlega með fordómafullum hætti

„Ég hef líka áhyggjur af því að það virðist vera meiri harka í foreldrahópum barnanna okkar í dag,“ segir Aðalbjörn. „Ömmurnar og afarnir eru ekki verst, heldur foreldrarnir.“ Blaðamaður spyr, hvað gæti orsakað þetta. „Mér dettur í hug til dæmis,“ segir Snævar, „að fólk sem hefur uppi fordóma og hatur er sýnilegra. Eins og til dæmis rithöfundur Harry Potter bókanna. Fólk sem er í svona stöðu, að vera heimsþekkt jafnvel, getur haft mikil áhrif.“ Þekkt er að J.K.Rowling, höfundurinn sem Snævar nefnir, hefur talað ítrekað opinberlega gegn transfólki.

„Ég hélt að afi minn yrði stærsta vandamálið þegar ég kom út,“ segir Aðalbjörn. „Við erum uppfull af staðalímyndum um gamalt fólk sem fordómafullt. Afi er fimmtíu árum eldri en ég og vann á sjó mestallt lífið. Þegar ég kom út var það ekkert mál og alls ekki nýtt fyrir honum. Hann sagðist hafa þekkt samkynhneigða menn, pör og einhleypa og svo var systir hans samkynhneigð og hafði flutt til Danmerkur. Ég hafði bara ekki hugmynd um þetta.“

Bakslagið tengt jaðarsetningu

„Það sem við ræðum innan félagsfræðinnar, er það sem kallast 'othering' eða 'öðrun',“ segir Aðalbjörn, en hann er nemi í félagsvísindum við HA. „Það er þegar þú ákveður að önnur manneskja sé eitthvað annað en þú, og samkennd þín gagnvart þeirri manneskju minnkar. Mér finnst ég sjá aukningu á þessu í samfélaginu og jaðarsettir hópar verða jaðarsettari. Ef það koma upp samfélagsleg vandamál, þá er þessum hópum oft kennt um. Athugasemdakerfi eru svo ekki að hjálpa. Fólk segir það sem því dettur í hug og setur það fram sem sannleik, þrátt fyrir rökleysu og enga stoð í staðreyndum. Sem dæmi hefur Samtökunum 78 verið kennt um minnkandi læsi íslenskra drengja. Við sjáum þetta núna mjög greinilega gagnvart innflytjendum. Það er verið að ýta ákveðnum hópum út á jaðarinn og tortryggja þá gagnvart almenningi.“

Samfélagsmiðlarnir gefa oft á tíðum ekki rétta mynd af veruleikanum, en ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir því. „Ég hef átt svo mörg samtöl við ungmenni, sem þora ekki að koma út úr skápnum af ótta við að verða heimilislaus og brottræk af heimilum sínum,“ segir Aðalbjörn. „Þarna er að eiga sér stað einhver samsömun við raunveruleika hinsegin barna á öðrum stöðum í heiminum, sem þau sjá á samfélagsmiðlum. Útskúfun úr fjölskyldunni er algengt vandamál í Bandaríkjunum, og þó að þetta hafi alveg gerst hér á landi, þá er allt annar raunveruleiki hér.“

„Í dæmum sem þessum er mikilvægt að fólk hafi samfélag sem það treystir til þess að ræða opinskátt um þessa hluti, en félög eins og ERGI geta veitt slíkt samfélag,“ segir Snævar að lokum, en áhugasöm um starfsemi félagsins er bent á að fylgjast með Facebook síðu ERGI, eða senda stjórninni tölvupóst á ergi@ergi.is. 

Þetta var seinni hluti viðtalsins við Aðalbjörn og Snævar, hér má nálgast fyrri hlutann:

Í GÆR – NÝTT FÉLAG HINSEGIN STÚDENTA Á NORÐURLANDI