Fara í efni
Menning

Ný sýning: Grímur frá horfnum heimi

James Merry, listamaður. Mynd: RH

„Ég fór að ímynda mér, hvernig grímur eða höfuðdjásn prestar í þessum hofum hefðu borið,“ segir listamaðurinn James Merry, en sýning hans, Nodens, Sulis & Taranis, var opnuð á Listasafninu á Akureyri um síðastliðna helgi. Það er söguáhugi James og forvitni um horfna heima sem er kveikjan að grímunum, en hver þeirra er innblásin af ákveðnum rómversk-keltneskum fornleifafundi í Bretlandi.

James er breskur listamaður sem býr og starfar á Íslandi, en hann er búsettur í Mosfellsbæ. Hann hefur komið víða við, meðal annars unnið þétt með Björk Guðmundsdóttur og hannað með henni sjónræna framsetningu í mörg ár. Í vinnu sinni hjá Björk gerði hann sína fyrstu grímu, en það heillaði hann strax, að vinna með grímur og skreytingar fyrir höfuðið. Síðan hefur hann búið til ótal grímur og er þekktur víða um heim fyrir list sína. 

Síðustu 2-3 ár hef ég lesið, lesið og lesið meira um þessa staði og söguna á bak við fornleifafundina

„Eiginlega má segja, að þessar þrjár grímur hefji nýjan kafla í listsköpuninni minni,“ segir James. „Hingað til hef ég verið mest heillaður af náttúrunni, líffræði, beinabyggingu og blómum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er að sækja í sögulegar tengingar, en á bak við hverja grímu er mikil rannsóknarvinna tengd þremur stöðum þar sem fornleifauppgröftur hefur átt sér stað. Söguáhuginn hefur alltaf verið svolítið í bakgrunninum þegar kemur að sköpuninni, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er í aðalhlutverki.“ 

 

 

Ljósmyndir af James með grímurnar eru hluti af sýningunni. Mynd: James Merry

Ólst upp á sömu slóðum

James er sjálfur frá suðvesturhorni Englands, en einn staðurinn er til dæmis alls ekki langt frá heimahögunum í Gloucestershire. „Ég held að það skipti máli, ég finn einhverja tengingu við sjálfan mig, og er þakklátur fyrir að hafa alist upp á þessum stað. Svo er mamma fornleifafræðingur og ég lærði um forna menningarheima í skóla, þannig að áhuginn hefur alltaf verið til staðar. Ég fer miklu frekar á forngripasöfn heldur en listasöfn með nútímalist, þegar ég er einhversstaðar að ferðast,“ segir James.

Ég kaus að sleppa Rómverjunum í minni vinnu, og einbeiti mér bara að Keltunum og þeirra guðum

Á þessum þremur stöðum sem James sækir innblástur til, fundust munir frá Járnöld, og bera vitni um menningu Kelta eftir hertöku Rómverja á Bretlandi. „Ég varð strax heillaður af þessu tímabili og þeim hlutum og rannsóknum sem hafa komið í ljós um menningu þessa fólks,“ segir hann. „List frá þessum tíma er mjög abstrakt og frumleg. Við erum að tala um árin frá sirka 200 fyrir Krist til kannski 100 eftir Krist. Þá voru Rómverjarnir komnir og höfðu tekið yfir á mörgum stöðum.“

„Rómverjarnir voru sniðugir, þeir fundu leiðir til þess að sameina sína trú og sína guði þeim stöðum sem þeir hertóku,“ segir James. „Þannig eru þessir staðir sem ég er að vinna með blótunarstaðir fyrir bæði keltnesan guð og rómverskan guð. Sem dæmi, þá er stórkostlegur uppgröftur í Bath, í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð frá heimili mínu. Þar hafði keltneski guðinn Sulis verið blótaður, en Rómverjarnir tengdu sinn guð, Minervu, við staðinn og hann hét því Sulis-Minerva. Ég kaus að sleppa Rómverjunum í minni vinnu, og einbeiti mér bara að Keltunum og þeirra guðum.“ 

 

T.v. Nodens. Gríma byggð að fornleifauppgreftri í Lydney, Gloucestershire. T.h. Taranis. Keltneski þrumuguðinn. Myndir: James Merry.

Djúp rannsóknarvinna liggur að baki

„Það er mikilvægt fyrir mig að koma sögunni á bak við hverja grímu á framfæri, en auk þess að grímurnar séu til sýnis, eru ljósmyndir af listamanninum með grímurnar. Svo eru heimildamyndir um hverja grímu fyrir sig, þar sem hægt er sjá staðinn, ferlið, heimsóknir mínar á staðina og hlutina sem ég sæki innblástur í,“ segir James, en mikil rannsóknarvinna hefur farið í þetta sannkallaða ástríðuverkefni.

Ég held að ég hafi viljandi sleppt því að kafa of mikið ofan í það, hvers vegna grímur og grímugerð heilla mig svona mikið

„Síðustu 2-3 ár hef ég lesið, lesið og lesið meira um þessa staði og söguna á bak við fornleifafundina,“ segir James og viðurkennir að þetta hafi verið algjör kanínuhola. „Ég komst í allskonar skýrslur og doktorsverkefni um málið, risa fræðiskjöl upp á kannski 200 síður, þannig að þetta var komið vel út fyrir svona eðlilega þráhyggju í leit á veraldarvefnum. Ég leyfði þessu að malla í höfðinu á mér, fór nánast í hverjum mánuði til Englands og heimsótti þessa staði og fékk að sjá hlutina á söfnum sem hafa fundist.“

James segir að það hafi fundist grímur og höfuðdjásn á tveimur af stöðunum. „Keltarnir skildu ekki mikið eftir sig, en það eru vísbendingar um að prestarnir á þessum stöðum hafi verið með eitthvað slíkt á höfðinu við athafnir. Miðað við það sem fannst þarna og það, hvernig ég ímynda mér að prestarnir hafi verið, hef ég búið til þessar þrjár grímur,“ segir James.

 

T.v. Björk með kopargrímu eftir James. T.h. Gríma/höfuðskraut eftir James úr víravirki. Báðar myndir eru frá Instagram síðu James, en þar er hægt að sjá fleiri listaverk eftir hann og fylgjast með.

Gifti sig í Lystigarðinum

„Ég er búinn að búa hérna í tíu ár, flutti alfarið eftir að hafa verið meða annan fótinn hérna í langan tíma,“ segir James, en hann býr við Hafravatn í sumarhúsi. „Ég fer lítið inn í borgina orðið, ég vil helst vera í sveitinni. Vinnustofan mín er líka þar. Svo er ég mikið á Akureyri. Maðurinn minn er héðan, fjölskyldan hans býr hér og við giftum okkur í Lystigarðinum. Ég elska að vera hérna og er mjög spenntur að fá að sýna í Listasafninu á Akureyri.“

James kom fyrst til Íslands með Björk fyrir fimmtán árum, en hann hefur verið að hanna sjónræna framsetningu með hennar fjölbreyttu list. „Ég var reyndar ekki í einhverri búningahönnun, það liðu alveg 6 eða 7 ár frá því að ég hóf að vinna hjá henni, þangað til að ég bjó til mína fyrstu grímu. Við fundum reyndar aldrei einhvern starfstitil á það sem ég var að gera, en við vorum að búa til allt þetta sjónræna, sýndarveruleikamyndbönd, öpp og allskonar,“ segir James, en starf hans hjá Björk hefur verið mjög fljótandi og breytilegt. 

Löngun til að skapa fyrir höfuð

„Ég held að það hafi verið 2016 þegar ég gerði fyrstu grímuna fyrir hana,“ rifjar James upp. „Það var svo bara upphafið að því að ég hélt því áfram. Ég held að ég hafi viljandi sleppt því að kafa of mikið ofan í það, hvers vegna grímur og grímugerð heilla mig svona mikið. En það er að breytast, ég er aðeins farinn að skoða það núna. Að hluta til hefur þetta verið löngun til þess að skapa eitthvað sem einhver fer í og er sýnt á höfði manneskju. Ekki eitthvað sem hangir bara upp á vegg.“ 

„Mig langar samt ekki að búa til hluti eða klæðnað fyrir líkamann, bara andlitið,“ segir James, þegar blaðamaður biður hann að kafa ofan í það hvers vegna hann gerir bara grímur. „Og það sem ég tengdi sterkt við með Keltana, er að rannsóknir benda til þess að þau hafi líka haft þörf fyrir þetta.“

Presturinn aldrei langt undan

„Hugmyndin um grímu getur auðveldlega farið yfir í vangaveltur um sálfræði, og það hvarflaði alveg að mér, þegar ég var að vinna í þessum þremur grímum að ég þyrfti kannski að skoða það eitthvað,“ segir James og brosir. „Ég var náttúrulega að ímynda mér, hvernig gríman væri ef ég væri prestur á þessum stöðum. Allt í einu áttaði ég mig á því að pabbi minn er prestur, þannig að kannski var ég ekkert mjög frumlegur eftir alltsaman!“

 

Sýningin er myrk, svo að grímurnar njóti sín enn betur. Mynd: James Merry

Heldur sjaldan einkasýningar

„Ástæðan fyrir því að það sé ég sem sit fyrir með grímurnar á myndum, er eiginlega frekar það að ég vildi ekki biðja einhvern annan um það og það vantaði einhvern til þess að hafa grímurnar. Ég er líka listamaðurinn og ég er að setja þær á höfuðið á mér af því að ég hef það til taks,“ segir James og brosir. 

Varðandi týpískar tengingar við sálræna hugmyndafræði á bak við grímu, til dæmis að fela sitt raunverulega sjálf eða skipta um hlutverk, segir James að það sé ekki eitthvað sem hann tengi við núna. „Spurðu mig samt aftur eftir tíu ár, kannski hef ég annað svar við þessu þá, þegar ég er búinn að kafa meira í sálrænu hliðina.“ 

„Ég geri reyndar mjög sjaldan svona einkasýningar, og er mjög spenntur. Þetta er stór viðburður fyrir mig og ég er mjög ánægður með útkomuna,“ segir James að lokum.


Sýning James verður í Sal 12 á Listasafninu til 8. febrúar 2026. Tvær aðrar sýningar voru opnaðar um helgina sem leið; málverkasýning Ýmis Grönvold og Margskonar II, valin verk fyrir sköpun og fræðslu.