Fara í efni
Fréttir

Norðlendingar, standið með háskólanum ykkar!

Jón Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sem lengi var skólastjóri Bændaskólans á Hólum, gagnrýnir harðlega þau áform sem eru uppi um „að leggja Háskólann á Akureyri niður í sinni mynd og búa til nýja stofnun með breyttri skipan og sameiningu við aðrar,“ eins og hann segir í grein sem birtist á akureyri.net í kvöld. 

Jón Bjarnason segir í greininni: „Ef Háskólinn á Bifröst sem málið snýst um, er ekki lengur fær um að vera rekinn sem sjálfstæð menntastofnun er mun nær að láta hann renna inn í Háskóla í Reykjavík þar sem nánast allir starfsmenn hans búa og skrifstofur skólans eru.“
 
Ekki bara menntastofnun 
 

Jón segir að verið sé að búa þannig um hnúta að hin nýja stofnun geti síðar runnið inn í samsteypu Háskóla Íslands í Reykjavík og eiga þar með á hættu að vera svipt forræði sínu, orðspori, kennitákni með nafni sínu og baklandi sem Akureyri með Norðurland er. Slík orðræða sé stofnuninni, nemendum og starfinu öllu skaðleg og í raun vítaverð af hálfu stjórnvalda þegar ekkert kalli á slíkt.

„Háskólinn á Akureyri er ekki bara menntastofnun. Hann er ein af grunnstoðum samfélagsins á Norðurlandi og gríðarlega öflugur drifkraftur byggðafestu, atvinnulífs, nýsköpunar og mannlífs. Framtíð hans snertir samfélagið allt frá byggðalögum og menningu til efnahags- og atvinnuþróunar,“ segir Jón Bjarnason.
 
Hann hvetur Akureyringa og Norðlendinga alla til þess að standa þétt að baki skóla síns. „Málið er einfaldlega það ef sitjandi rektor eða skólastjórn treystir sér ekki til þess að reka skólann á þeim forsendum sem stofnað er til hans og hann hefur verið ráðinn til, þá ber honum frekar að víkja en leggja skólann niður. Þarf þá að fá aðra til sem hefur burði til þess að taka starfið og stofnunina að sér. “
 
Greins Jóns Bjarnasonar: Stöndum með Háskólanum á Akureyri