Fara í efni
Fréttir

Akureyringar á Suðurskautinu

Steinar Steinarsson flugstjóri á Suðurskautslandinu á dögunum.

Akureyringurinn Steinar Steinarsson var flugstjóri og leiðangursstjóri í síðustu viku þegar hópur á vegum Icelandair flutti hóp norskra vísindamanna til sumardvalar á Suðurskautslandinu.

Hinn flugstjórinn í ferðinni var einnig Akureyringur, Sigþór Gunnarsson og þriðji Norðlendingurinn var flugmaður, Ingvar Ormarsson, ættaður úr Fljótum og mörgum eftirminnilegur sem körfuboltamaður með Tindastóli.

Steinar var einnig flugstjóri, þó ekki leiðangursstjóri, fyrr á árinu þegar Icelandair sótti norsku vísindamennina á Suðurskautið og flutti þá til heimalandsins, áður en vetur skall á suður þar. Ferðirnar eru á vegum norsku heimskautavísindastofnunarinnar, Norsk Polar Institute, NPI.

Akureyri.net fjallaði ítarlega um ferðina fyrr á árinu og ræddi við Steinar sem lýsti þeirri óvenjulegu upplifun að lenda stórri þotu á Suðurskautinu. Smellið hér til að lesa þá grein.

Ferðin núna gekk vel að sögn Steinars. Flugstjórinn og áhöfn hans; þeir sem áður voru nefndir auk flugfreyja- og þjóna og flugvirkja, voru farþegar á leiðinni frá Íslandi til Höfðaborgar í Suður-Afríku og heim aftur, en sáu um að fljúga norska hópnum þaðan til Troll á Suðurskautinu. Talsverður mótvindur var frá Höfðaborg til Troll, segir Steinar; flugið tók 6 klukkutíma og 13 mínútur en ferðin til baka 5 klukkutíma og 15 mínútur.

Það er meira en að segja það að skipuleggja svona túr. „Svona verkefni kallar á mikinn undirbúning, langar vaktir og stundum að hugsa aðeins út fyrir boxið til þess að láta hlutina ganga upp,“ segir Steinar Steinarsson við Akureyri.net.

Á Suðurskautinu. Frá vinstri: Ingvar Ormarsson, Sigþór Gunnarsson og Steinar Steinarsson.

Boeing 767-300ER, TF-ISO, vél Icelandair á Suðurskautslandinu í síðustu viku.