Fara í efni
Fréttir

Sérstakt að lenda á suðurskautinu

August Hakansson, flugstjóri og leiðangursstjóri í þessu verkefni, til vinstri, og Steinar Steinarsson, flugstjóri.

Akureyringurinn Steinar Steinarsson var annar tveggja flugstjóra Boeing 767 þotu Icelandair í leiðangrinum á Suðurskautslandið í síðustu viku. Þótt hann hafi flogið í tæpa fjóra áratugi og komið víða við segir Steinar það vissulega hafa verið sérstaka tilfinningu að lenda á þessum stað. Flugbrautin er á þykkri íshellu, 250 kílómetra frá ísröndinni og er brautin í 4125 feta hæð.

Leiðangurinn var í nafni Loftleiða, sem eru hluti af Icelandair Group samsteypunni. Tilgangurinn var að sækja hóp norskra vísindamanna fyrir norsku heimskautastofnunina; Norsk Polar Institute, NPI. Sumir þeirra höfðu verið þarna suður frá í 16 mánuði, aðrir skemur.

Flogið var frá Keflavík til Höfðaborgar í Suður-Afríku og þaðan daginn eftir til Troll á Suðurskautslandinu. Tvær áhafnir voru í túrnum; annar hópurinn sá um flugið frá Íslandi til Höfðaborgar og til baka, um Osló til Keflavíkur. Hinn hópurinn flaug frá Höfðaborg til Troll og til baka, flugstjórarnir tveir á þeim legg voru August Hakansson, leiðangursstjóri, og Steinar.

„Það var óneitanlega sérstök upplifun að koma á Suðurskautslandið, á stað þar sem tiltölulega fáir hafa komið og enginn á svona vél. Þetta er stærsta og þyngsta flugvél sem hefur lent á þessari flugbraut, en Boeing 767 vélar hafa reyndar lent annars staðar á suðurskautinu því þar hafa margar þjóðir skika og flestar eru með flugbraut, mislangar, en aðeins eru fimm flugbrautir fyrir stærri flugvélar,“ sagði Steinar í samtali við Akureyri.net

Flugbraut Norðmanna var tekin í notkun í febrúar 2005 þegar Hercules C130 frá norska hernum lenti þar með Sonju drottningu, sem opnaði staðinn formlega.

August lenti vélinni á ísnum en Steinar var við stjórnvölinn í flugtakinu. „August var leiðangursstjóri og flugstjóri, hann tók mestan þátt í undirbúningi, sem var gríðarlegur og hefur staðið frá október í fyrra,“ segir Steinar. August hafði áður lent á suðurskautinu, flaug þá Boeing 757 þotu frá Punta Arenas í Chile og lent var tvisvar á sama stað, Union Glacier.

Flugið frá Keflavík til Höfðaborgar tók 14 tíma. „Það var ekkert mál vegna þess að vélin var létt þótt við værum með fulla tanka af eldsneyti, rúm 72 tonn. Engir farþegar voru um borð og tiltölulega lítið af dóti. Við gátum því flogið hátt og sparað eldsneyti.“

Steinar hefur áður komið til Höfðaborgar og var verkefnastjóri í stóru leiguverkefni þar fyrir hálfum öðrum áratug. Að þessu sinni fór hópurinn ekki á hefðbundið hótel heldur leigði búgarð fyrir utan borgina, til þess að vera í sem mestri einangrun, með kórónuveirufaraldurinn í huga.

Hann segir öryggið ætíð í fyrirrúmi í flugi og því sé stöðugt fylgst með veðri og veðurspám, frá því fyrir brottför frá Keflavík þar til komið er á leiðarenda. Eitt af því sem þarf að meta í ferð eins og þessari er snjóblinda á lendingarstað, og flugstjórarnir fá stanslausar upplýsingar um hana, eins og margt annað. „Ef snjóblindan er mikil sjáum við ekki sjóndeildarhringinn. Við sjáum brautina vel frá hlið en á lokastefnu sést hún mjög illa og allt rennur saman ef snjóblinda er mikil.“

Brautarjaðarinn er merktur með svörtum flöggum, sem fest eru á bambusstangir, en það tók starfsmenn á Troll um tvo daga að undirbúa brautina fyrir þetta flug.

Veðurstofa í Hamborg í Þýskalandi sér um veðurspár fyrir þetta svæði á suðurskautinu og metið var fram á síðustu stundu hvort farið yrði af stað, bæði frá Keflavík og aftur þegar lagt var í‘ann frá Höfðaborg. Veðrið er lykilatriði. „Við flýttum brottför frá Keflavík um hálfan sólarhring þar sem veðurspáin fyrir laugardag og sunnudag var þannig að við hefðum ekki komist á ísinn til að sækja Norðmennina,“ segir Steinar.

Mjög vel þurfi að fylgjast með vindafari, skýjahæð og skyggni. Steinar segir ekki mega vera mikinn hliðarvind ef mikil hálka er á brautinni svo dæmi sé tekið. „Við setjum mjög ströng mörk varðandi vindinn, því ef vélin fer að snúast getum við ekki stoppað hana. Svo skiptir hitastigið líka máli, það má ekki vera of hlýtt því þá verður snjórinn ofan á ísnum ekki eins stamur og hann þarf að vera og hálkan því meiri. Miðað er við fimm til sjö stiga frost en þegar við lentum var mínus 13 gráður, snjórinn stamur og aðstæður mjög góðar. Við hringdum úr gervihnattasíma þegar við flugum yfir 50 gráður suður til þess að ganga úr skugga um að engin breyting hefði orðið á veðrinu og eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir Steinar.

„Þetta var í sjálfu sér bara eins og að lenda á góðri flugbraut,“ segir hann. „Íshellan er mjög slétt og góð, hallinn er um 1% sem er reyndar dálítið mikið, en að öðru leyti var lendingin mjög þægileg. Við náðum að bremsa mjög vel því hálka var ekki mikil, við höfum upplifað meiri hálku bæði í Keflavík og annars staðar í Evrópu í vetrarskilyrðum.“

Steinar byrjaði ungur að fljúga og hefur unnið sem flugmaður og flugstjóri í tæp 40 ár. „Nú hef ég flogið í allar heimsálfur nema Ástralíu. Fór til dæmis í þriggja vikna heimsreisu á Boeing 757 árið 2010 sem var annað ævintýri. Ég byrjaði ferilinn hjá Flugfélagi Norðurlands og var meðal annars aðstoðarflugmaður á Twin Otter í verkefni á norður Grænlandi sumrin 1984 og 1985, 10 vikur hvort sumar, og við bjuggum þá í tjaldbúðum á 81 gráðu og 32 mínútum norður en flugbraut Norðmanna á suðurskautinu er á 72 gráðum suður.“

Því má segja að Steinar hafi flogið víða og komið við bæði mjög ofarlega og neðarlega á jarðarkringlunni, þegar hnötturinn snýr eins og Íslendingar eru vanir að horfa á hann.

Áhöfnin sem fór til Troll. Frá vinstri: Þorsteinn Þorsteinsson flugvirki, August Hakansson flugstjóri, Steinar Steinarsson flugstjóri, Sigríður Ásta Árnadóttir flugfreyja, Ásta Hallgrímsdóttir flugfreyja, Halldóra Halldórsdóttir flugfreyja, Þórunn Björk Guðlaugsdóttir flugfreyja, Inga Jónsdóttir flugfreyja, Bjartmar Örn Arnarsson flugmaður, Björn Birgir Ingimundarson flugþjónn. Ljósmynd: Icelandair

Vélin hefur sig til flugs frá suðurskautinu. Steinar var þá við stjórnvölinn. Ljósmynd: Norska heimskautastofnunin.