Fara í efni
Fréttir

Nákvæmt Covid hraðpróf: sýni greint á 12 mínútum

Olga Ýr Björgvinsdóttir, sérfræðingur hjá Arctic Therapeutics. Sýni eru greind með þessu litla tæki sem Olga heldur á. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrirtækið Arctic Therapeutics á Akureyri hefur undanfarið boðið upp á Covid-hraðpróf, sem er jafn áreiðanlegt og PCR prófið sem notast hefur verið við hérlendis, að sögn stofnanda fyrirtækisins, Hákonar Hákonarsonar, læknis í Bandaríkjunum. Aðeins tekur 12 mínútur að greina sýni. Hákon hefur mikinn áhuga á að prófið verði notað á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum út um land og segir að það gæti einnig nýst vel við prófun ferðamanna við komuna til landsins.

Prófið er að því leyti ólíkt PCR að það skimar eftir próteini í veirunni en ekki erfðaefni. 

Hraðpróf hafa verið notuð í Bandaríkjunum og víðar um heim, en Arctic Therapeutics fékk fyrir nokkru leyfi heilbrigðisráðuneytisins til að nota þetta tiltekna próf hér á landi. Félagið hefur verið í samstarfi við fyrirtæki á Akureyri undanfarið og segir Olga Ýr Björgvinsdóttir, sérfræðingur hjá félaginu, að mjög vel hafi gengið. 

„Prófið er mjög nákvæmt, alveg jafn nákvæmt og staðlaða PCR prófið; og jafnt nákvæmt hvort sem sýni er tekið úr koki eða fremst úr nefi,“ segir Hákon Hákonarson við Akureyri.net. Hann segir hraðprófið mun ódýrara en PCR.

Gefur mjög góða raun

Hákon, sem er Akureyringur, er barnalæknir og sérfræðingur í lungna- og genarannsóknum. Hann starfaði um tíma hjá Íslenskri erfðagreiningu en flutti aftur vestur um haf og er prófessor á barnaháskólasjúkrahúsinu í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Það er annar tveggja bestu barnaspítala heims ásamt þeim í Boston, og þar hefur prófið gefið góða raun. „Þetta er 600 rúma barnaspítali, starfsmenn eru 20.000 og hér er óhemju mikil starfsemi. Við höfum fengið mikið af Covid jákvæðum börnum til okkar, höfum notað hraðprófið á 100.000 þeirra og 9.000 hafa reynst jákvæð. Við notum prófið til að skima þau börn sem koma inn á spítalann og grunur leikur á að geti verið smituð.“

Hákon hefur mikinn áhuga á að hraðprófið verði notað á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum á Íslandi. Hann hefur sent heilbrigðisráðuneytinu fyrirspurn þar að lútandi og vonast eftir svari í þessum mánuði. Segir að ef af yrði gæti það létt mörgum lífið, til dæmis þeim sem liggja á sjúkrahúsum, íbúum hjúkrunarheimila og ættingjum þeirra. „Heimsóknir fólks hafa verið mjög takmarkaðar en væri þetta próf notað væri hægt að prófa ættingja og niðurstaða legið fyrir eftir 12 mínútur.“

Fáist leyfi til að taka prófin upp á heilsugæslustöðum út um land segir Hákon að fyrirtækið myndi kaupa tæki og setja upp, og hans fólk á Akureyri sjá um þjálfun starfsmanna. „Mér finnst mjög spennandi ef þetta verður hægt. Okkar fólk á Akureyri yrði nettengd öllum þessum stöðum, niðurstaða úr prófi kæmi beint til okkar á Arctic og ef niðurstaða yrði jákvæð tilkynntum við það strax til sóttvarnalæknis.“

Hákon segir að einnig yrði tilvalið að nota prófið á landamærum. „Ferðamenn fara aftur í próf fimm dögum eftir komuna til landsins og ef hægt yrði að fara í seinna prófið annars staðar en í Reykjavík þyrfti fólk ekki að bíða allan þann tíma í borginni í sóttkví heldur gæti farið í seinna prófið á Ísafirði, Akureyri eða Neskaupstað, svo ég nefni dæmi.“