Fara í efni
Fréttir

Mygla staðfest í mars – Heilsuvernd komst að því í september

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Hlíð við Austurbyggð á Akureyri.

Vitað var um myglu á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri í nokkra mánuði áður en stjórnendur Heilsuverndar, fyrirtækisins sem sér um reksturinn fyrir ríkið, fengu upplýsingar um ástandið.

Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, er afar ósáttur við vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins. Hann undrast hvernig staðið er að málum hvað þetta varðar í ljósi mjög góðs samstarfs við ráðuneytið og Akureyrarbæ að öðru leyti.

  • Akureyri.net upplýsti í gær að mygla hefði fundist á Hlíð, að alvarlegar athugasemdir hefðu verið gerðar við húsnæðið og grunur léki á að veikindi einhverra íbúa mætti mögulega rekja til ástands húsnæðisins. Smellið hér til að lesa þá frétt.

Tafarlaust ...

Náttúrufræðistofnun rannsakaði húsnæði Hlíðar í mars á þessu ári fyrir ríkið og þá kom í ljós hvers kyns var.

Verkfræðistofan Mannvit vann ítarlega skýrslu um málið og var henni skilað til ráðuneytisins í vor. Samkvæmt skýrslunni þarf að fara tafarlaust í ákveðnar aðgerðir til að koma húsnæðinu í viðunandi horf. Auk þess að ráðast gegn myglunni sem áður var nefnd er um að ræða ýmis viðhaldsverkefni.

Gríðarlegur kostnaður

Teitur Guðmundsson segir Heilsuvernd ítrekað hafa beðið um aðgang að skýrslunni í sumar en það hafi ekki borið árangur fyrr en í september. Þá hafi stjórnendur félagsins fyrst fengið vitneskju um ástandið. „Í skýrslu Mannvits, sem er bæði löng og ítarleg, segir að einhver vandamál séu í öllum húsunum, sýnilega mest í þeim eldri sem er skiljanlegt. Þar kemur fram að mygla hafi verið staðfest á ákveðnum stöðum í húsnæði Hlíðar af Náttúrufræðistofnun í mars á þessu ári. Okkur grunaði þetta en fengum ekki staðfestingu á myglunni fyrr en við lásum skýrsluna,“ segir Teitur.

Teitur segist hafa óskað eftir leyfi til að birta niðurstöður skýrslunnar en ráðuneytið hafnaði því, sem honum þyki ekki eðlileg vinnubrögð. Hann má því ekki afhenda skýrsluna og er bundinn trúnaði um innihaldið. Hann segist þó geta staðfest að kostnaður við framkæmdir sem sagðar séu nauðsynlegar verði „gríðarlegur“ en vill ekki nefna tölur.

Ekki leyfi fyrir úttekt

Vegna myglunnar þarf að flytja einhverja íbúa Hlíðar til í húsinu. Heilsuvernd hefur óskað eftir því að fá að gera frekari úttekt á húsnæðinu og boðist til að greiða fyrir en ekki fengið leyfi til þess frá eigendunum, ríki og bæ, að sögn Teits. „Við erum með verkfræðistofur sem vilja gera þetta fyrir okkur og sendum því ósk um það á Akureyrarbæ, sem þinglýstan eiganda húsnæðisins, en höfum ekki fengið leyfi.“

Heilsuvernd hefur óskað eftir fundi með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Nú er ljóst að sá fundur verður í næstu viku.