Músarrindill – lítill og síkvikur með sperrt stél

„Með aukinni skóg- og trjárækt hafa skilyrði fyrir ýmsa skógarfugla batnað stórlega. Minnkandi beit og jafnvel beitarfriðun birkiskóga hafa lagst á sömu sveif. Hlýnandi veðurfar hefur einnig hjálpað til,“ segir Sigurður Arnarson í nýjum pistli í röðinni Tré vikunnar. Þar er fjallað um tré, skóga og skyld málefni og einu sinni í mánuði um skógarfugla.
Í dag er fjallað um hinn litla og síkvika músarrindil – Troglodytes troglodytes islandicus – einn þeirra fugla sem notið hafa breytinganna. „Hann er einn af einkennisfuglum birkiskóga en hann finnst einnig í blandskógum. Músarrindlum hefur fjölgað mikið frá því sem var um aldamótin nítjánhundruð og nú nema þeir sífellt fleiri svæði um allt land þar sem uppvaxandi tré og skóga er að finna. Gera má ráð fyrir að við landnám hafi þó verið enn meira um músarrindil á Íslandi en nú er, enda var þá landið mun betur gróið en síðar varð og birkiskógar miklu algengari en nú er.“
Meira hér: Skógarfuglinn músarrindill