Fara í efni
Mannlíf

„Morgankarlar“ á gafli og Kristinn G.

Kristinn G. Jóhannsson listmálari skrifar stórskemmtilega grein – eins og hans er von og vísa – í nýjasta hefti Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga. Þar fjallar Kristinn um Morgankarlana sem fyrir margt löngu prýddu norðurgafl Hafnarstrætis 19, þegar í húsinu voru m.a. framleiddir gosdrykkir. Greinin fer í heild hér á eftir.

  • Ritstjóri Súlna er Jón Hjaltason. Það hefur orðið að samkomulagi að Akureyri.net birti annað veifið efni úr tímaritinu.
  • Akureyri.net vekur athygli á því að hægt er að gerast áskrifandi að Súlum með því að senda póst á gjaldkera stjórnar - jhs@bugardur.is

_ _ _

Allt í einu rifjast upp fyrir mönnum að upp úr miðri síðustu öld (1959?) hafði „Pakkhúsið“, Hafnarstræti 19, verið myndskreytt að utan. Upphófust skrif á samfélagsmiðlum um útlit, gerð og ekki sízt hvar myndskreytingarnar hefðu verið, einkum sýndist sitt hverjum um hvar „Morgankörlum“ hafði verið valinn staður og hver hefði gert þessi „listaverk“. Fóru umræður nokkuð á flug og urðu ágætt dæmi um misminni manna og skáldgáfu og fóru þessir karlar, “Morgankarlar“, austur og suður í umræðunni. Ein útgáfan var t.d. þannig að málarinn hefði breytt andlitum karlanna og að þeir hefðu borið svip tiltekinna merkisborgara bæjarins. Það varð að lokum „listamaðurinn“ sjálfur, sem varð veizluspillir þegar í ljós kom að hann, „listamaðurinn“, var ekki dauður og gat því verið til frásagnar um tilurð verksins.

„Morgankarlarnir“ á „Pakkhúsinu“, Hafnarstræti 19. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri 

Framtaksmenn og dugnaðarforkar höfðu stofnað til atvinnurekstrar í húsinu og hét „Efnagerð Akureyrar“ og seinna „Sana“. Þar var meðal annars efnt til þess sykurvatns, sem hét „Cream Soda“ og utan á flöskunum var miði með mynd af þrem rjóðum, glaðværum og sællegum körlum. Ekki sízt þótti þessi drykkur ágætur til íblöndunar í sterkari gleðigjafa. Framkvæmdastjóri þessarar bjartsýnu efnagerðar var Valdimar Baldvinsson, fjörmikill athafnamaður og ágætur. Honum fannst nokkuð skorta á að á húsinu sæist hvað þar var aðhafst og kemur að máli við mig, sem þá var á lausagöngu um stræti og torg, hvort ég gæti ekki gert eitthvað til að lífga upp á athafnalífið að utanverðu. Varð að samkomulagi að ég gerði mynd karlanna við suðaustur horn hússins og önnur vörumerki þar fyrir neðan og síðan „Sana“ kaffipoka og sitthvað annað á norðurgafl en „Heildverzlun Valgarðs Stefánssonar“ hafði einnig bækistöð í húsinu.

Kristinn G. Jóhannsson er Akureyringum að góðu kunnur sem myndlistarmaður, kennari og skólastjóri. Hann hefur haldið fjölda myndlistarsýninga, hérlendis sem erlendis. Kristinn fæddist á Dalvík hinn 21. desember 1936. Foreldrar hans voru Svarfdælingurinn Jóhann Sigurðsson og Brynhildur Kristinsdóttir, ættuð frá Húsavík. Eiginkona Kristins er Guðbjörg Sigurðardóttir.

Var nú negldur saman eins konar „stillans“, vinnupallur, sem var í afar lauslegum tengslum við húsvegginn, gangstéttina og tilveruna yfirleitt. Uppi þar átti ég að standa við gerð karlanna. Það var mikið sólskin þessa daga þegar ég prílaði upp á pallinn með miða af „Cream soda“ flösku og krotaði lauslega og fríhendis helstu svipeinkenni hvers og þanin vestin og glaðværðina alla og hattana og rjóða vanga. Þetta var á þeim tímum, sem verzlun KEA var í Höepfnershúsi og mannaferðir og götulíf og var mörgum tíðlitið á vegginn og fígúruna, sem tók aukasveiflur með penslinum ef tilefni gafst.

Nokkuð var gestkvæmt hjá mér þessa daga sem ég vann að verkunum í góðviðrinu. Sumir vildu jafnvel koma til mín upp á pallinn og lá stundum við slysum þegar menn gerðu tilraunir til uppgöngu en vinnupallurinn óstöðugur sem áður er lýst.

Eftirminnileg er heimsókn vinar míns Kristins Gestssonar, píanóleikara frá Dalvík, sem kom í fylgd Daníels Daníelssonar, Shakespearþýðanda og læknis í Árgerði. Þeir voru að koma úr skóginum, sögðu þeir, úr lautartúr og voru glaðir og af þeim bjarkarilmur og gamalla blóma angan. Þeir, snillingarnir, hvor á sínu sviði, vildu margt segja og allt skemmtilegt og hvöttu mig mjög til að láta lokið þessari fánýtu iðju og fylgja þeim til frekari ævintýra. Ég hefi svona yfirleitt staðist allt nema freistingar en í þetta sinn hélt ég fast í pensilinn og fór hvergi. Ég iðraðist þess um leið og þeir voru horfnir norður Hafnarstrætið. Þetta hefði orðið skemmtileg samkvæmi sá ég eftirá.

„Morgan sparkling“ var drykkur margra og karlarnir þrír á flöskumiðanum fyrirmynd að veggja-listaverki Kristins G. Jóhannssonar. Mynd: Jakob Tryggvason

Gunnar Konráðsson, Nunni Konn, átti heima í Lækjargötu og átti þá oft leið fram hjá mér á veggnum. Hann var einatt á hjóli, sem hann leiddi þó oft þegar hann fór um bæinn vegna þess að hann þurfti að taka marga tali og urðu ferðir hans því slitróttar. Nunni Konn áði gjarnan við timburverkið undir mér á ferðum sínum heim og heiman. Hann var einarður maður og lá ekki á skoðunum sínum. Hann fylgdist manna best með bardúsi mínu við sköpun karlanna á veggnum. Við tókum gjarnan tal saman og einstaka athugasemdir fékk ég eftir því sem verkinu miðaði en hann var hvorki stórorður né dómharður heldur eins og dálítið forvitinn um hvernig niðurstaðan yrði að verklokum. Þegar að því kom ég taldi karlana fullskapta stóðum við saman undir vegg Höepfners verzlunar að taka út verkið og þá sagði hann eitthvað á þá leið að nú skildi hann hvers vegna ég félli ekki í hóp „venjulegra húsamálara“. Þá fannst mér ég þyrfti ekki frekari vitna við. Málað var yfir „Morgankarlana“ þegar „Sana“ flutti í annan bæjarhluta ekki löngu seinna. Sic transit gloria mundi.