Fara í efni
Fréttir

Minntust fórnarlamba á táknrænan hátt

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Hópur fólks fleytti kertum á Leirutjörn á Akureyri í gærkvöld til minn­ing­ar um fórn­ar­lömb kjarn­orku­árás­a Bandaríkjahers á japönsku borgirnar Hírósíma og Naga­sakí í ágúst árið 1945 og til þess að minnast fórnarlamba á Gaza ströndinni í Palestínu.

„Kínverskt spakmæli minnir okkur á að kveikja á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu,“ sagði Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus, í áhrifaríku erindi sem hann flutti fyrir kertafleytinguna. Í gær voru liðin 80 ár síðan kjarnorkusprengjunni var varpað á Hírosíma með skelfilegum afleiðingum.

Með spakmælinu, sagði Rúnar, „erum við minnt á það að þótt við eigum vissulega ekki að láta grimmdarverk í fortíð og nútíð falla í gleymsku, tryggjum við ekki frið með því einu að formæla ógnum styrjalda. Við verðum að vinna að friði.“

Rúnar Sigþórsson flytur erindi við Leirutjörn í gærkvöld.

Hann hélt áfram: „Og einmitt þess vegna stöndum hér til að minnast fórnarlamba kjarnorku­árásanna fyrir áttatíu árum og annarra fórnarlamba styrjalda hvar sem er á jörðinni. Við gerum það á þann tákn­ræna hátt að kveikja á kertum til að heiðra minningu þeirra, en við gerum það vonandi líka í anda spakmælisins kínverska og látum ljós kertanna votta þann ásetning að leggja, hvert og eitt, fram okkar litla skerf til að lýsa upp framtíðina.“

Rúnar sagði meðal annars frá, og vitnaði í, Yoshitaka Kawamoto sem var 13 ára skólastrákur þegar sprengjan sprakk en varð síðar forstöðumaður Friðarsafns Hírosíma.

„Og hvers vegna stöndum við nú hér þessum 80 árum síðar til að hugleiða saman og fleyta kertum. Því svarar auðvitað hver fyrir sig en ég get sagt ykkur mínar ástæður:

  • Ég vil minnast þeirra sem létu lífið af völdum árásanna á Hirosima og Nagasaki.
  • Ég vil sömuleiðis votta þeim virðingu mína og samúð sem komst af, en máttu þola sjúkdóma, félagslega útskúfun, andlegar þjáningar, og óafmáanlegar minningar eins og Yoshitaka Kawamoto.
  • Ég vil lýsa andstyggð minni á framferði þeirra sem ákváðu að tendra sprengjurnar tvær 6. og 9. ágúst 1945.
  • Ég vil líka lýsa andstyggð minni á framferði þeirra sem af miskunnar­lausri grimmd svelta og myrða saklaust fólk í dag og votta fórnarlömbum þeirra, látnum sem lifandi, virðingu mína.
  • Og síðast en ekki síst vil ég leggja minn litla skerf af mörkum til þess að slíkar ákvarðanir verði ekki teknar í framtíðinni.“

Erindi Rúnars í heild: Kveikjum á kerti fremur en að kvarta undan myrkrinu

 

Mynd: Þorgeir Baldursson