Fara í efni
Íþróttir

Mikilvægt stig KA gegn „jafnbesta“ liðinu

Rodri, sem hér er í baráttu við Víkinginn Nikolaj Hansen, skoraði fyrir KA í dag. Ljósmynd: Skapti H…
Rodri, sem hér er í baráttu við Víkinginn Nikolaj Hansen, skoraði fyrir KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Spænski miðjumaðurinn Rodrigo Gomes Mateo skoraði fyrir KA í fyrsta skipti í dag þegar liðið gerði jafntefli við Víking, 2:2, á Víkingsvellinum í Reykjavík. Hann lét ekki eitt mark duga fyrst hann var kominn á bragðið heldur gerði Rodri bæði mörk liðsins.

Stigið sem KA fékk í Víkinni er afar dýrmætt í toppbaráttunni. Liðið er í þriðja sæti Pepsi Max deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með 27 stig eftir 15 leiki, Víkingur er með 30 stig eftir 16 leiki og Valur með 33 eftir 16. Valur tapaði óvænt fyrir Leikni í dag, 1:0. Breiðablik er í fjórða sæti með 26 stig en hefur aðeins lokið 14 leikjum.

„Mér hefur fundist Víkingur eitt jafnbesta liðið það sem af er sumrinu. Þeir hafa spilað gríðarlega góðan fótbolta, bæði varnar- og sóknarlega. Að koma hingað og lenda í tvígang undir og svara því, ég er gríðarlega sáttur við liðið að því leyti,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, við fótboltavef Íslands, fotbolti.net, í dag.

Víkingar skoruðu strax á áttundu mínútu en KA jafnaði á 23. mín. Arnar var ósáttur við fyrstu 25 mínúturnar en ánægður eftir það, nema hvað hann var svekktur að fá á sig mark á síðustu andartökum fyrri hálfleiksins; „... blóðugt að fá á sig þetta mark í lokin þegar við áttum að komast í álitlega sókn, léleg sending frá Rodri sem þeir komast inn í og breika á okkur. Það var slæmt að fara undir inn í hálfleikinn búnir að koma til baka og búnir að vera vaxandi. Ég var svo mjög sáttur með seinni hálfleikinn. Ég held ég geti sagt að það hafi verið verðskuldað að jafna þá,“ sagði Arnar.

Staðan var því 2:1 í hálfleik fyrir heimamenn en Rodri reyndist hetja KA því hann jafnaði þegar aðeins fáeinar mínútur voru eftir.

  • ATHUGIÐ - Í fyrstu var sagt frá því hér eins og í öðrum fjölmiðlum að Rodri hefði gert bæði mörk KA, en á leikskýrslu KSÍ var það fyrra svo skráð sjálfsmark. Eftir skalla Mikkel Qvist fyrir markið börðust Rodri og Erlingur Agnarsson um boltann og dómari leiksins hafði skráð markið á Víkinginn. Seint í kvöld var því svo aftur breytt! Rodri telst því hafa gert bæði mörkin, sem er sannarlega ánægjulegt fyrir mann sem skorar „í raun og veru aldrei,“ eins og hann sagði við mbl.is eftir leikinn.

Smellið hér til að sjá umfjöllun fotbolti.net um leikinn. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ.