Fara í efni
Mannlíf

Mikil vinna og langar vökur í vitlausuviku

Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Skagafjarðar.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

11. desember – Vinnugleði og vitlausavika

Það er fátt nýtt undir sólinni. Hvorki vinnusemi né skuldseiglan. Mikið álag er á þeim sem starfa í verslunum fyrir jólin og sumir verslunarmenn framlágir þegar sest er við matarborðið á aðfangadag. Kaupendurnir hafa margir hverjir tekið út varninginn í verslunum út á kredit. Reikning sem þarf að öllu jöfnu að greiða í febrúar.

Hér fyrr á tíð var ekki síður keppst við að vinna fyrir því sem hafði verið skrifað hjá kaupmanninum. Þann reikning þurfti að gera upp fyrir áramótin. Upp í skuldina fór smjör og fiskur en ekki síst það sem fólk var með á prjónunum. Keppst var við að prjóna sokka og vettlinga eða peysur til að láta upp í skuldina. Þetta var vetrarvinnan, sem náði hámarki síðustu vikur ársins. Þannig var vikan fyrir jól kölluð vitlausavika enda vökurnar langar. Karlar og konur kepptust við að prjóna meðfram öðrum heimilisstörfum, jafnvel þegar gengið var á milli húsa. Það þótti gott ef tvær konur gerðu fjórar peysur eða 6 peysuboli á viku. Stúlkum var ætlað að prjóna sokkapar á dag en körlum að skila 4-5 pörum eftir vikuna. Lítið um jafnlaunastefnu í þátíð. Til að bæta gráu ofan á svart verðlögðu kaupmenn prjónavöruna lægra en aðrar vöru sem þeir tóku við upp í reikninginn.

Á prjónastokkinn er skráð með höfðaletri svohljóðandi vísa:

Hljóti mæti friðar flest
framar en má greina.
Yðar gæti blíður bezt
bótin allra meina.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Prjónastokkur. Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.