Fara í efni
Íþróttir

Mikil spenna – Birnir Snær í hóp hjá KA í dag

Bjarni Aðalsteinsson (77) skorar fyrir KA í síðasta heimaleik liðsins, gegn Val í lok síðasta mánaðar. Ásgeir Sigurgeirsson er lengst til vinstri og Marcel Römer við hlið hans. Mynd: Ármann Hinrik

Birnir Snær Ingason er í leikmannahópi KA í dag þegar liðið tekur á móti ÍA í gríðarlega mikilvægum botnslag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Birnir Snær er 28 ára vængmaður, sem verið hefur á mála hjá Halmstad í Svíþjóð undanfari misseri. KA gekk frá samningi við hann seint í fyrrakvöld og Birnir kom til landsins í gær.

Birnir Snær varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi 2023 og var þá kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins en samdi við Halmstad í kjölfarið. KA hefur gengið bölvanlega að skora í sumar, liðið hefur aðeins gert 14 mörk í 15 leikjum (og fengið 31 á sig) en miklar vonir eru bundnar við að Birnir hleypi lífi í sóknarleik liðsins.

  • Besta deild karla í knattspyrnu
    Greifavöllurinn kl. 16
    KA - ÍA

KA og ÍA eru jöfn á botni Bestu deildarinnar með 15 stig, einu á eftir KR. KA-menn teljast í neðsta sæti þar sem þeir eru með örlítið lakari markatölu en Skagamenn. Staða KA er vissulega slæm á pappírnum en vert að minna á að mjög mjótt er á munum; aðeins munar fjórum stigum á KA og Vestra sem er í sjötta sæti, því síðasta í efri hluta deildarinnar, og röð liðanna gæti því breyst fljótt.

Sjö leikir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni – og því 21 stig í pottinum, áður en deildinni verður skipt í tvennt. Í framhaldinu halda sex efstu áfram í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og sex þau neðri berjast um að falla ekki. Í því fimm leikja framhaldi verða því 15 stig í pottinum.

Hallgrímur Mar Steingrímsson með boltann eftir að hann skoraði í síðasta sigri KA á ÍA, á Greifavelli KA sumarið 2022. Til hægri er Steinþór Freyr Þorsteinsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn töpuðu illa fyrir FH-ingum í Hafnarfirði í síðustu umferð, 5:0, en Akurnesingar sigruðu KR 1:0 á heimavelli. Skagamenn fögnuðu 3:0 sigri í fyrri viðureigninni við KA í sumar.

KA sigraði ÍA síðast á Íslandsmótinu sumarið 2022; báðir leikir enduðu 3:0 og ÍA féll úr Bestu deildinni um haustið. Daníel Hafsteinsson, Elfar Árni Aðalsteinsson og Jakob Snær Árnason skoruðu á Akranesi í fyrri leiknum en Nökkvi Þeyr Þórisson (2 mörk) og Hallgrímur Mar Steingrímsson í seinni leiknum á Akureyri.

Þórsarinn Lárus Orri Sigurðsson var ráðinn þjálfari ÍA á dögunum eftir að Jón Þór Hauksson var látinn taka pokann sinn og Skagamenn hafa nælt í sex stig af níu mögulegum undir stjórn Lárusar Orra. Unnu fyrst Vestra á Ísafirði, töpuðu síðan heima fyrir Fram og unnu KR á heimavelli á Skaganum sem fyrr segir. 

Leikrnir sem KA á eftir í hefðbundinni deildarkeppni:

  • Breiðablik - KA
  • KA - ÍBV
  • Afturelding - KA
  • KA - Fram
  • Stjarnan - KA
  • KA - Vestri

Staðan í Bestu deildinni