Fara í efni
Íþróttir

Meistararnir komnir með frumkvæðið

Jóhann Leifsson og Uni Sigurðarson Blöndal fagna fjórða marki Akureyringa og öðru marki Jóhanns í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Karlalið Skautafélags Akureyrar tók forystuna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í dag með 4:1 sigri á Skautafélagi Reykjavíkur á Akureyri. SR-ingar unnu fyrsta leikinn nyrðra en SA jafnaði metin í Reykjavík. Staðan er því orðin 2:1 en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér meistararitilinn.

Leik­ur­inn í dag var lengi vel jafn, hart barist og spennan mikil. Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta og það var ekki fyrr en sá næsti var liðlega hálfnaður þegar Hafþór Sigrúnarson gerði fyrsta markið. Eftir það höfðu Akureyringar yfirhöndina og það var ekki fyrr en á síðustu mínútunni að Akureyringurin Axel Orongan gerði eina mark gestanna.

Andri Mikaelsson, fyrirliði Akureyringa, einbeittur á svellinu í kvöld.

  • 1:0 Hafþór Sigrúnarson (34:50)
  • 2:0 Birkir Einisson (37:21)
    _ _ _
  • 3:0 Jóhann Leifsson (42:52)
  • 4:0 Jóhann Leifsson (52:09)
  • 4:1 Axel Orongan (59:26)

Jafnir og spennandi leikir

Reykvíkingar unnu óvæntan og öruggan sigur í fyrsta leiknum á Akureyri, 7:3. Spurður í kvöld, hvað hefði gerst eftir fyrsta leikinn, þegar SA liðið virðist hafa hrokkið í gang, svaraði Andri Mikaelsson, fyrirliði SA: „Það er meira spurning hvað gerðist í fyrsta leiknum. Við horfðum á hann aftur og sáum að við áttum fullt af færum en markmaðurinn þeirra steig upp og varði oft ótrúlega,“ sagði Andri við Akureyri.net. „Það var góður leikur og jafn en dálítið stöngin út hjá okkur.“

Andri sagði annan leik rimmunnar, í Reykjavík á fimmtudaginn, hafa verið góðan en SA vann þá 5:2. „Það var hörkuleikur og jafn, en sigurinn var góður. Þetta eru tveir góðir sigrar,“ sagði fyrirliðinn.

Ekki bara fallegu mörkin talin!

„Við getum betur en í dag, en gerðum það sem þurfti,“ sagði Andri. Hann var ánægður með hve vel liðið varðist og að „ungu strákarnir fengu mikið að spila; þeir stig upp og stóðu sig vel, börðust eins og ljón og gerðu gott baráttumark. Þau þurfa ekki öll að fara falleg; baráttumörkin eru líka talin með, sem betur fer. Það væri leiðinlegt fyrir mig ef svo væri ekki!“ sagði hann og hló.

Aðspurður segist Andri vitaskuld stefna að því að lyfta Íslandsbikarnum í Reykjavík á þriðjudaginn. „Við förum í alla leiki til að vinna þá svo já - ég stefni að því!“

Jóhann Leifsson á fleygiferð með pökkinn í dag. Hann gerði tvö mörk í leiknum.