„Auðveld ákvörðun að flytja heim aftur“
Arna Sif Ásgrímsdóttir og Hjalti Rúnar Jónsson eru nýflutt til Akureyrar, með 10 mánaða son sinn Ásgrím Jaka. Þau eru búin að búa í fjögur ár í Reykjavík, en ræturnar rifna ekki svo auðveldlega upp, og nú þótti litlu fjölskyldunni mál að flytja heim. Arna Sif er ein fremsta knattspyrnukona sem Akureyri hefur alið, og hún hefur samið við uppeldisfélagið Þór/KA og hlakkar mikið til komandi tímabils. Hjalti er leikari, en hann hefur verið áberandi á fjölum Samkomuhússins í haust, þar sem hann leikur í tveimur sýningum í desember, Jóla-Lólu og Jólaglöggi. Einnig lék hann í uppfærslu Leikfélags Akureyrar af Elskan, er ég heima? fyrr í vetur.
En hver eru Arna og Hjalti? Hvernig er að vera komin norður, hvað er framundan og svo er það bónusspurningin: Hver er í raun dramatískastur; atvinnuleikari, afreksíþróttamaður eða ungabarn? Blaðamaður lofar niðurstöðu í það mál í lok viðtalsins.
Fyrsti hluti viðtalsins birtist í dag, annar á morgun og sá þriðji og síðasti á þriðjudaginn, Þorláksmessu.
- Á MORGUN – MEIRA DRAMA Á FÓTBOLTAVELLI EÐA LEIKSVIÐI?

Hjalti er bæði sunn- og norðlendingur í grunninn, en undi sér yfirleitt best í sveitinni sinni í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Arna Sif er Akureyringur í húð og hár, en hér er hún í hinum goðsagnakennda Egils appelsín Þórsbúningi, klár í slaginn. Myndir: aðsendar
Stefndu alltaf norður á endanum
„Síðustu tvö árin er ég búinn að vera mjög æstur í að komast aftur norður,“ segir Hjalti, og Arna tekur undir það. „Stutta svarið er eiginlega, að það var mjög auðveld ákvörðun að flytja heim aftur,“ segir hún og viðurkennir að hún hafi aldrei ætlað sér að vera svona lengi í Reykjavík.
Arna Sif er Akureyringur í allar áttir, en hún ólst upp í Síðuhverfinu hjá mömmu sinni Snjólaugu Helgadóttur, pabba sínum Ásgrími Sigurðssyni og fimm eldri systkinum. Fátt annað komst að á heimilinu en fótbolti, og borðleggjandi fyrir Örnu að reima á sig takkaskóna um leið og hún fór að ganga. Það var svo mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna, þegar fjölskyldufaðirinn Ásgrímur varð bráðkvaddur úti á sjó árið 2002, en minningin um hann lifir hjá þeim öllum. Sonur Örnu og Hjalta, Ásgrímur Jaki, er brosmildur og hlýr eins og afi hans var, og ber nafn hans einstaklega vel.
Fór norður í öllum skólafríum
Fjölskyldutengslin gerðu ákvörðun þeirra Örnu og Hjalta um að flytja aftur norður enn auðveldari, en þau eiga bæði fjölskyldu á svæðinu. Hjalti er eiginlega bæði sunn- og norðlendingur, en hjartað hefur frekar leitað í norðuráttina. Hann hefur átt tvö heimili alla tíð, bæði fyrir sunnan hjá móður sinni Maríu Sigurðardóttur, og svo fyrir norðan, í Reykjadal þar sem föðurfjölskyldan hans býr. Hann á ekki langt að sækja leikhúsáhugann, en María er leikkona og leikstjóri og pabbi hans Jón Friðrik Benónýsson er leikari.
Í bili erum við rosalega ánægð með að vera komin til Akureyrar
„Ég var hjá mömmu sem barn, en ég var alltaf að reyna að komast norður,“ segir hann og hlær. „Eflaust ekkert gaman fyrir hana oft á tíðum, en ég sótti mjög í það að fara í sveitina. Í öllum skólafríum þá fór ég norður og mætti í Litlulaugaskóla sem þá var barnaskólinn í sveitinni.“ Hjalti flutti svo alfarið norður þegar hann var unglingur og fór í Framhaldsskólann á Laugum.
„Ég er ekki mjög hrifinn af því að eyða löngum tíma í Reykjavík, þó að maður geti svo sem haft það ágætt hvar sem er, ef maður er að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Hjalti. „Þegar ég var að læra leiklist í LHÍ, þá fannst mér til dæmis mjög gaman að búa í borginni. En núna er bara annað upp á teningnum og við í einhverri hreiðurgerð með barn. Þá langaði mig aftur norður, og jafnvel eitthvað út í sveit! Kannski verður það einhvern tíman, en í bili erum við rosalega ánægð með að vera komin til Akureyrar.“

T.v. Hjalti með mömmu sinni, Maríu Sigurðardóttur. Hún er leikari og leikstjóri, en um tíma var hún leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. T.h. Hugurinn fór að leita enn meira norður eftir að Ásgrímur Jaki bættist í hópinn. Myndir: aðsendar
Fótboltinn alltaf verið númer eitt
Eins og áður sagði var Arna Sif mjög ung þegar hún byrjaði að æfa fótbolta, en eldri systkini hennar voru á fullu í íþróttinni hjá Þór. Snemma var hún farin að vekja athygli fyrir styrk og áræðni með boltann, og æfði hún um tíma mikið með strákum og keppti með þeim. Eftir að spila frá 2007-2015 með Þór/KA, tók Arna þriggja ára tímabil þar sem hún spilaði í Svíþjóð, tvö tímabil með Val og svo á Ítalíu, áður en hún kom aftur í Þór/KA árið 2018. Hún á einnig að baki 19 leiki með A-landsliði Íslands. Síðustu þrjú árin hefur Arna spilað fyrir Val, en nú er hún komin aftur heim.
„Það er eitthvað fallegt við það, að ljúka ferlinum á sama stað og hann hófst,“ segir Arna Sif, á meðan hún matar Ásgrím Jaka af graut. Íþróttaferillinn hefur ekki verið sá auðveldasti fyrir Örnu síðustu tvö árin, en hún sleit krossband 14. febrúar 2024 í leik með Val. Ásgrímur Jaki fæddist svo sama dag, 14. febrúar ári síðar. „Þú varst reyndar lengur á sjúkrahúsinu með krossbandaslitið, heldur en þegar hann fæddist,“ segir Hjalti og í því skellir barnið upp úr og grauturinn sprautast yfir borðið. Greinilega húmoristi á ferð!
Mér finnst gott að geta hjálpað til þar sem Þór/KA á bara þannig stað í mínu hjarta
„Ég hef alltaf hugsað mér að enda heima og gefa eitthvað af mér til klúbbsins sem ól mig upp,“ segir Arna Sif, þegar þau eru búin að þurrka upp grautinn. „Það er hark að vera landsbyggðarfélag í fremstu röð og það þarf að hafa mikið fyrir því, þannig að mér finnst gott að geta hjálpað til þar sem Þór/KA á bara þannig stað í mínu hjarta. Ég veit svo sem ekkert hversu lengi ég spila, en ég vonast til að eiga 2-3 góð ár eftir á vellinum.“
„Flestar stelpurnar í liðinu hef ég þjálfað á einhverjum tímapunkti, og mér finnst eitthvað fallegt við að fá að taka þátt í þeirra ferli sem leikmaður líka,“ segir Arna Sif, en mikið er um ungar og efnilegar stelpur í liðinu í dag.

Arna Sif er uppalin í Þór og á 290 leiki að baki með meistaraflokki Þórs/KA. Hér má lesa frétt á vef akureyri.net um endurkomu hennar með ýmsri tölfræði. Hún hefur fimm sinnum verið kjörin íþróttakona Þórs. Myndir: aðsendar.
Meiðslin gríðarlegt áfall
„Síðustu tvö ár hafa verið ansi viðburðarrík, með krossbandaslitinu 2024 og svo að verða mamma,“ segir Arna Sif. „Meiðslin voru fyrst og fremst gríðarlegt áfall, ég var einhvernvegin búin að ákveða að þetta myndi aldrei koma fyrir mig. Ég hef verið heppin með meiðsli í gegnum minn feril og ég bjóst ekki við þessu. En þarna opnaðist gluggi, til þess að reyna að verða ólétt, og mín fyrsta hugsun upp á slysó var að telja mánuði, hvort það myndi ganga upp.“
Þegar ég lít um öxl þá var þetta frekar klikkað
„Þegar maður er meiddur og getur ekki verið með, þá langar mann svo ótrúlega mikið að komast aftur af stað,“ segir Arna Sif, en ákvörðunin um að reyna við barneignir var ekki auðveld. „Ég var næstum því tilbúin að fórna því að eignast barn strax, af því að ég ætlaði að eiga svo góða endurkomu eftir meiðslin. Ég ætlaði að gefa allt í það að koma sterk til baka, þannig að í rauninni var þarna frekar stuttur gluggi sem við ákváðum að reyna þetta, og blessunarlega tókst það!“

T.v. Arna Sif á spítalanum með slitið krossband. T.h. Arna og Hjalti gátu til allrar hamingju nýtt stuttan glugga sem opnaðist vegna meiðslanna, til þess að bjóða Ásgrím Jaka velkominn í heiminn. Myndir: aðsendar
Allt önnur tilvera eftir krossbandaslitið
„Í heildina hefur gengið mjög vel að koma til baka eftir allt saman, en eftir á að hyggja, þá var ég í svolitlu rugli þarna eftir að Ásgrímur var fæddur,“ segir Arna Sif. „Ég var ekki beint að drífa mig, en það var í svo mörg horn að líta eftir að vera frá keppni í svona langan tíma. Ég varð að gera svo mikið aukalega með fótboltaæfingunum sjálfum. Ég þurfti að halda áfram með endurhæfinguna á hnénu, lyfta, hugsa um alla þessa litlu hluti, hlaupa og svo ofan á það að vera með ungabarn. Brjóstagjöfin var mjög erfið til dæmis, og þegar ég lít um öxl þá var þetta frekar klikkað. Þetta var ótrúlega krefjandi tímabil líkamlega en ekki síður andlega“
Þetta var fyrsti hlutinn af þremur, af viðtalinu við Örnu Sif og Hjalta Rúnar. Næsti hluti verður birtur á morgun á akureyri.net
- Á MORGUN – ER MEIRA DRAMA Á FÓTBOLTAVELLI EÐA LEIKSVIÐI?